Fréttasafn20. okt. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Rýmka svigrúm frekar til að beita ríkisfjármálum

Í umsögn SI um frumvarp um opinber fjármál nr. 123/2015, 6. mál, sem send hefur verið fjárlaganefnd, kemur fram að það sé álitaefni að mati samtakanna hvort þau tölusettu viðmið sem sett voru í fjármálastefnu stjórnvalda gefi nægjanlegt svigrúm til að beita ríkisfjármálum, þessu mikilvæga hagstjórnartæki, við þessar aðstæður. Það sé mat samtakanna að hugsanlega þurfi að rýmka svigrúm frekar til að draga úr niðursveiflunni og skapa kröftuga viðspyrnu, sérstaklega ef veirufaraldurinn dregst á langinn og efnahagslegar afleiðingar hans verði umfangsmeiri fyrir íslenskan efnahag en nú sé reiknað með í forsendum fjárlaga 2021 og fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025. Í slíkum breytingum þurfi þó að hafa í huga sjálfbærni opinberra  fjármála auk þess sem tryggja þurfi að opinberar skuldbindingar séu viðráðanlegar til skemmri og lengri tíma og leggi ekki ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir. 

Í umsögninni kemur fram að Samtök iðnaðarins hafi lýst ánægju sinni með fyrirætlanir stjórnvalda að nýta þau tækifæri sem góð staða ríkissjóðs gefi til að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til að verja lífskjör og veita viðspyrnu fyrir nýtt hagvaxtarskeið. Einnig segir að samtökin séu ánægð með þær áherslur sem birtast í bæði fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 og fjármálaáætlun 2021-2025 á nýsköpun, innviði, menntun og starfsumhverfi fyrirtækja sem séu lykilþættir sterkrar samkeppnishæfni og aukinnar framleiðni. Með því að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga og með réttum áherslum sé hægt að gera tímabil núverandi niðursveiflu eins stutt og mögulegt er og tryggja að hagkerfið rísi aftur upp með kröftugum hætti.

Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.