Fréttasafn



8. des. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

SA og SI gera athugasemdir við reglugerð um Kríu

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafa sent til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins umsögn um drög að reglugerð um Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóð sem settur var á fót með lögum nr. 65/2020. Í umsögninni segir að samtökin hafi áður, við ýmis tilefni, lýst yfir stuðningi við Kríu og telji markmið sjóðsins um eflingu fjárfestingarumhverfis sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi mikilvægt. Samtökin gera þó athugasemdir við 6. lið 2.gr. reglugerðarinnar, skilgreiningu á viðurkenndum rekstraraðila þar sem segir „...og er ekki hluti af eða tengdur öðrum lögaðila sem hefur aðra meginstarfsemi en fjárfestingar í sprota og nýsköpunarfyrirtækjum.“

Í umsögninni segir að samkvæmt þessu séu sérhæfðir sjóðir, sem fjárfesta öllu heildarfjármagni sem fjárfestar hafa skráð sig fyrir í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, og uppfylla að öðru leyti öll skilyrði, útilokaðir frá mótframlagi frá Kríu ef þeir eru tengdir öðrum lögaðila sem hefur aðra meginstarfsemi, svo
sem fjármálafyrirtæki eða öðru félagi sem stundar fjárfestingar á öðrum sviðum. Samtökin leggja þunga áherslu á að þessu verði breytt og að ekki verði girt fyrir aðkomu Kríu að vísísjóðum í rekstri aðila sem jafnframt eru rekstraraðilar annars konar sjóða, að því gefnu að þeir uppfylli önnur skilyrði. Samtökin telja ákjósanlegast að stjórn Kríu ákvarði hvort umsókn sjóðs uppfylli þær kröfur sem settar séu og samræmist markmiðum með Kríu. 

Leggja til að orðalagið verði fjarlægt

Þá segir í umsögninni að framtíð íslensks atvinnu- og efnahagslífs velti á fjárfestingu í nýsköpun.„ Í því sambandi skiptir máli að fjármagn frá lífeyrissjóða- og fjármálakerfi fylgi með á þeirri vegferð. Samtökin leggja áherslu á að fagmennsku sé gætt í hvívetna við ákvarðanatöku um fjárfestingar Kríu en telja ekki skynsamlegt að útiloka tiltekna rekstraraðila fyrirfram og leggja því til að ofangreint orðalag verði fjarlægt úr reglugerðinni.“

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.