Fréttasafn23. mar. 2021 Almennar fréttir Nýsköpun

SA og SI styðja sjálfstætt Vísinda- og nýsköpunarráð

Samtök atvinnulífsins, SA, og Samtök iðnaðarins, SI, styðja að stofnað verði sjálfstætt Vísinda- og nýsköpunarráð sem verði aðallega ráðgefandi gagnvart ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun líkt og kemur fram í umsögn samtakanna um drög að frumvarpi til laga um Vísinda- og nýsköpunarráð, mál nr. 73/2021.

Í frumvarpsdrögunum er lagt til að forsætisráðherra skipi þrjá einstaklinga í tilnefningarnefnd og að einn af þeim skuli skipaður samkvæmt tilnefningu samtaka fyrirtækja í iðnaði. Samtökin leggja til að SA tilnefni fulltrúa í tilnefningarnefndina í nánu samráði við SI, enda hafa SA sýnt það undanfarin ár með tilnefningum sínum í Vísinda- og tækniráð, stjórn Tækniþróunarsjóðs o.fl. að leitast er við að tilnefna fulltrúa sem starfa hjá fyrirtækjum í iðnaði eða hafa sterk tengsl við iðnað. Þó vísindi og nýsköpun eigi helst við í iðnaði þá nýtast nýjar lausnir í öllum atvinnugreinum og því verður leitast við að fulltrúi atvinnulífsins hafi góða yfirsýn yfir þarfir í ólíkum greinum eins og sjávarútvegi, orkuiðnaði, líf- og heilbrigðisiðnaði og fleiri. 

Vilja fleiri sem starfa í fyrirtækjum inn í ráðið

Í umsögninni segir jafnframt að samtökin taki undir að mikil þörf sé að endurskoða lögin um Vísinda- og tækniráð. Æskilegt sé að fækka í ráðinu frá því sem nú er en tryggja þurfi samt að þar komi að einstaklingar með mismunandi og fjölbreyttan bakgrunn og viðamikla þekkingu á skilyrðum og starfsumhverfi nýsköpunar. Núverandi ráð að ráðherrum frátöldum endurspeglar ekki samsetningu útgjalda til rannsókna og þróunar enda séu þar einungis þrír sem starfa í fyrirtækjum en langflestir starfi í háskólum og stofnunum og æskilegt sé að á þessu verði breyting.

Starf tækninefndar ekki verið nægjanlega markvisst

Þá segir í umsögninni að samtökin taki undir mikilvægi þess að starf ráðsins hafi stuðning af sérstökum starfsmönnum enda hafi starf tækninefndar síðustu ár ekki verið nægjanlega markvisst. Samtökin taka jafnframt undir tillögu um að ráðið tilnefni ekki fulltrúa til setu í stjórnum Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs heldur ráðist samsetning af tilnefningu hagsmunaaðila á fulltrúum eins og nú eigi að mestu við um Tækniþróunarsjóð. Samtökin segjast hafa trú á því að með breytingum sem felist í frumvarpinu muni takast að efla umhverfis vísinda og nýsköpunar. 

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.