Fréttasafn



7. júl. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök fyrirtækja í landbúnaði

Sama hlutfall útgjalda fer í mat á Íslandi og hinum Norðurlöndunum

Þó svo matur kosti fleiri krónur hér en almennt gengur og gerist í Evrópu, þá fer svipað hlutfall útgjalda heimilisins til þessa flokks og í hinum Norðurlöndunum. Það helgast meðal annars af því að laun eru almennt hærri hér en gengur og gerist í Evrópu og laun og verðlag matvæla fylgjast að með sambærilegum hætti hér og við sjáum á Norðurlöndunum. Þetta segir Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, í grein á Vísi undir yfirskriftinni Íslendingar greiða sama hlutfall útgjalda í mat og Norðurlöndin.

Ísland á svipuðu róli og hin Norðurlöndin

Margrét segir  í grein sinni að fyrir skömmu hafi birst fréttir af því að verðlag á mat og drykki sé að jafnaði 44% hærra hérlendis en að meðaltali í ESB. Í framhaldinu hafi verið velt upp hinum ýmsu ástæðum verðlags á matvælum á Íslandi. Hún segir að vert sé að taka fram að hér sé engin breyting frá því sem áður hafi verið þar sem verðlag á Íslandi hafi alla jafna verið töluvert hærra en gengur og gerist á meginlandi Evrópu. Það sem skipti í raun meira máli í þessum samanburði sé hvert verðlag á mat og drykk sé í samanburði við tekjur og hver hluti þess er í heildarútgjöldum heimilanna. Margrét segir að hlutfallið gefi samanburð á aðgengi heimila að mat og drykk á milli landa út frá tekjum. Þegar hlutfallið sé hátt merki það einfaldlega að matur og drykkur sé dýr í samanburði við tekjur. Þegar það sé lágt sé því öfugt farið. Þegar horft sé til flokksins „matur og óáfengir drykkir“ sem hlutfall af heildarútgjöldum heimilanna hafi Ísland um árabil verið á svipuðu róli og hin Norðurlöndin, og nokkuð undir meðaltali Evrópusambandsins.

Órökstuddar dylgjur atvinnuvegaráðherra

Í grein sinni fer Margrét yfir breytur sem hafi áhrif á matvælaverð og segir að það hafi komið nokkuð spánskt fyrir sjónir að lesa aðsenda grein atvinnuvegaráðherra á Vísi þar sem ráðherra fjallaði verðlagsþróun matvöru og að þar sé fjallað um hækkanir á nokkrum vöruflokkum og velt upp mögulegum ástæðum. Margrét segir að það verði ekki hjá því komist að gagnrýna vafasamar útskýringar ráðherra á verðlagsþróun á kjöti undanfarið ár. Í greininni geri atvinnuvegaráðherra að því skóna að úrvinnslufyrirtæki bænda séu að nýta heimildir til hagræðingar, sem fengust með breytingu á búvörulögum í fyrra vor, til að hækka verð út á markað. Hún segir að það verði að teljast alvarlegt þegar ráðherra landbúnaðarmála slengi slíkum órökstuddum dylgjum fram á opinberum vettvangi. Það veki einnig upp áleitnar spurningar að ráðherra í ríkisstjórn Íslands sé með slíka rörsýn á áhrifaþætti verðlagsþróunar kjöts, þá sérstaklega í ljósi þess að það tímabil sem undanþágan hafi verið í gildi hafi verið afar takmarkað og slitrótt vegna dómsmála sem einungis leystist úr í lok maímánaðar síðastliðins.

Fagnar markaðs- og neytendateymi í atvinnuvegaráðuneytinu

Margrét segir að í fyrrnefndri grein atvinnuvegaráðherra tilkynni ráðherra að búið sé að setja á fót sérstakt markaðs- og neytendateymi innan atvinnuvegaráðuneytisins sem hafi það verkefni að vakta og greina þróun vísitölu neysluverðs og undirliggjandi áhrifaþætti til að geta brugðist við með skjótum hætti þar sem hægt sé. „Fagna ég þessu skrefi ráðherra sem verður vonandi til þess að litið sé til fleiri áhrifaþátta matvælaverðs en gert var í umræddri grein ráðherrans.“

Tillögur fyrir ríkisstjórnina til að lækka matvælaverð

Í niðurlagi greinar sinnar leggur Margrét fram tillögur til úrbóta og segir að vilji ríkisstjórnin leggja sitt á vogarskálarnar til að lækka matvælaverð væri tilvalið að a) fylgja eftir hvatningu úr nýjustu efnahagsskýrslu OECD og skoða lægri skattþrep fyrir matvæli, b) hætta við að leggja auknar álögur á matvælaframleiðslu og hagræða frekar og c) ekki kippa lögum úr sambandi sem veita heimildir til hagræðingar hjá úrvinnslufyrirtækjum bænda. 

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vísir, 4. júlí 2025.