Samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu
Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er fjallað um atvinnuvegafjárfestingu sem dróst saman í fyrra um 3,4% og samkvæmt nýrri spá Hagstofunnar er reiknað með að samdrátturinn verði meiri í ár eða 4,5%. Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, sem segir minni fjárfestingu í stóriðju- og orkugeiranum m.a. vera á bak við þennan samdrátt en mörgum verkefnum á þessu sviði hafi verið lokið síðastliðin tvö ár. „Breytingin er hins vegar sú að engin ný stór verkefni eru á döfinni til að taka við slakanum.“
Í Viðskiptablaðinu segir að þetta séu aðrar horfur en voru þegar síðast hagvaxtarskeið hófst fyrir fimm árum en þá hafi töluverðar fjárfestingar verið í pípunum vegna uppbyggingar í vinnslu á kísil eða fjögur stór verkefni: á Bakka við Húsavík, Grundartanga í Hvalfirði og tvö í Helguvík á Suðurnesjum. Auk þess hafi legið fyrir að samhliða yrði töluverð uppbygging í orkuöflun m.a. á Þeistareykjum og vegna stækkunar Búrfellsvirkjunar. Eitt af þessum áformuðu kísilverum hafi orðið að veruleika síðasta vor þegar Kísilver PCC BakkiSilicon var gangsett fyrir norðan. Annað var byggt en varð fljótlega gjaldþrota, kísilver United Silicon í Helguvík. Uppbygging hinna tveggja, Thorsil í Helguvík og Silicor Material á Grundartanga, hefur tafist og óvíst hvort af þeim verður.
Munar um innlendan kostnað álveranna
Í Viðskiptablaðinu segir Ingólfur jafnframt að mikil langtímaáhrif séu af stóriðjuframkvæmdum á þjóðarhag. „Innlendur kostnaður álveranna nam t.d. rúmum 79 milljörðum árið 2017, en hann hefur legið á bilinu 75 til 100 milljarðar á síðustu árum. Stór hluti af því eru gjaldeyristekjur sem verða eftir í landinu og munar um minna. Áliðnaður skapar jafnframt hundruðum fyrirtækja tekjur, en kaup á vörum og þjónustu utan raforku, námu rúmum 22 milljörðum á síðasta ári. Raforkukaup álveranna námu tæpum 37 milljörðum og opinber gjöld um 3 milljörðum.“
Viðskiptablaðið, 28. febrúar 2019.