Fréttasafn



11. ágú. 2022 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Sameiginlegt verkefni að skapa stöðugleika

Það er sameiginlegt verkefni hagstjórnaraðila hér á landi og víðar að skapa stöðugleika að nýju, segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein í Viðskiptablaðinu með yfirskriftinni Sköpum stöðugleika. Hann segir verðbólgu hafa farið hratt vaxandi undanfarið, mælist hún hér á landi 9,9% og langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans en síðast var verðbólgan við markmið bankans í byrjun sumars 2020. Verðbólguvæntingar hafi hækkað og slakinn í efnahagslífinu sé nánast horfinn. Peningastefnunefnd Seðlabankans hafi brugðist við þróuninni með hækkun stýrivaxta Seðlabankans frá því um mitt síðastliðið ár úr 0,75% upp í 4,75% eða um 4 prósentustig. Samhliða vaxtahækkunum bankans hafi vextir á útlánum til fyrirtækja hækkað ásamt vöxtum á óverðtryggðum húsnæðislánum. Hvort tveggja, aukin verðbólga og hækkun vaxta, bíti heimili og fyrirtæki fast um þessar mundir.

Með stöðugleika skapast skilyrði til hagvaxtar

Ingólfur segir fyrirtæki og heimili í landinu vilja stöðugleika því með stöðugleika skapist skilyrði aukinna fjárfestinga, framleiðnivaxtar og hagvaxtar til lengri tíma heimilunum til heilla. Sú mikla verðbólga sem nú mælist sé merki um ójafnvægi og óstöðugleika bæði á innlendum og erlendum markaði. Þetta sé ekki það sem fyrirtækin og heimilin í landinu vilja.

Svigrúm til launahækkana lítið sem ekkert

Ingólfur segir í niðurlagi greinar sinnar að litið til næstu mánaða sé gerð kjarasamninga lykilbreyta í því að ná tökum á verðbólgu og vaxtastigi. „Segja má að stóra málið sé að halda stöðugleika á vinnumarkaði. Mikilvægt er að kaupmáttaraukning síðustu ára týnist ekki í þeirri vegferð.“ Hann segir rekstrarumhverfi fyrirtækja krefjandi eftir samdrátt síðustu missera, hækkandi hráefniskostnað, miklar launahækkanir undanfarin ár og aukna verðbólgu. Samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum sé erfið. Vegna þessa þurfi samtal aðila vinnumarkaðarins að taka mið af því að svigrúm til launahækkana sé lítið sem ekkert og því þurfi fremur að líta til tækifæra til að auka hagvöxt og stuðla að lækkun vaxta með samhentu átaki. „Kjarasamningar eru nú gerðir við afar krefjandi aðstæður. Ljóst er að þeir þurfa að taka mið af síbreytilegri samsetningu atvinnulífs og vexti nýrra iðngreina á undanförnum árum. Tækifæri er til að gera þetta vel. Verði sú raunin er skapaður grundvöllur aukins stöðugleika og hagvaxtar litið til næstu ára.“

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Viðskiptablaðið / vb.is, 11. ágúst 2022.

Vidskiptabladid-10-08-2022