Fréttasafn31. jan. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Nýsköpun Starfsumhverfi

Samkeppnishæfni er heimsmeistaramót í lífsgæðum

Samkeppnishæfni Íslands er okkur hugleikin enda er samkeppnishæfni nokkurs konar heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum. Þeim mun meiri sem samkeppnishæfnin er, þeim mun meiri verðmæti verða til og þar með verður meira til skiptanna fyrir okkur öll. Þetta sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í viðtali við Björn Þór Sigbjörnsson, á Morgunvaktinni á Rás 1. Hann sagði samtökin hafa talað mjög ákveðið fyrir umbótum á þeim fjórum sviðum sem mest áhrif hafa á samkeppnishæfnina, þ.e. menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi.

Sigurður sagði hugvit vera drifkraft framfara og vaxta á 21. öldinni en að hagkvæm nýting náttúruauðlinda hafi verið drifkraftur á 20. öldinni. Hann sagði hugvitið vera óþrjótandi og án landamæra en náttúruauðlindir takmarkaðar og staðbundnar. Einnig að í þessari samkeppni þjóða verðum við að standa vel að vígi.

Um mælikvarða á nýsköpun sagði Sigurður að það væri mælt út frá ýmsum þáttum og um væri að ræða alþjóðlega mælikvarða sem horfa til margra þátta. „Þar höfum við því miður verið að lækka talsvert á þeim lista sem er áhyggjuefni en ég er sannfærður um að við getum gert betur og náð betri stöð.“ 

Allir hvatar hins opinbera skipta máli

Sigurður sagði Íslendinga verja rétt rúmlega 2% í rannsóknir og þróun, þar af kæmi um 2/3 frá einkageiranum. „Þess vegna er markmiðið að auka þetta og þess vegna skipta allir hvatar hins opinbera svo miklu máli til að hvetja menn til að verja meiru í rannsóknir og þróun.“

Þegar Sigurður er spurður í hverju við erum góð og hvar best væri að efla nýsköpun segir hann að það væri að einhverju leyti pólitísk spurning því stjórnvöld vilji ekki vera að velja sigurvegara, en engu að síður værum við sterk á sumum sviðum. Hann sagði mikinn vöxt vera í líf- og heilbrigðistækni sem væri afrakstur 20-25 ára þróunarstarfs.

Efla þarf nýsköpun hér á landi

Þá sagði Sigurður frá ári nýsköpunar sem Samtök iðnaðarins standa fyrir og væri í framhaldi af nýsköpunarstefnu SI sem kynnt var í febrúar á síðasta ári og nýsköpunarstefnu sem stjórnvöld kynntu síðastliðið haust sem hefur það stóra markmið að Ísland verði nýsköpunarland. Hann nefndi að ein af stoðunum í stefnu stjórnvalda væri hugarfar. Þar kæmi SI að með því að stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi nýsköpunar og hafa þannig áhrif á hugarfarið, en allir þurfi að taka höndum saman, atvinnulíf, stjórnvöld og samfélagið allt til að efla nýsköpunar hér á landi. Hann sagði nýsköpun geta leitt til nýjunga sem skapi forskot í samkeppni, skapað fleiri störf, aukin verðmæti og meiri vöxt. Auk þess sem nýsköpun geti skapað lausnir við samfélagslega mikilvægum áskorunum líkt og loftslagsmálin og öldrun þjóða. 

Rétti tíminn til fjárfestinga í innviðum landsins

Sigurður fór í viðtalinu einnig inn á mikilvægi þess að stjórnvöld fjárfesti frekar í innviðum landsins, það væri ekki aðeins nauðsynlegt að ráðast í slíkar framkvæmdir heldur væri rétti tíminn til þess núna enda hafi íslenskt hagkerfi kólnað eftir mikinn vöxt undanfarinnar ára. Hann sagði að á nýlegu Útboðsþingi SI hafi komið fram að áætlaðar verklegar framkvæmdir opinberra aðila næmu 132 milljörðum króna á árinu og sé það aukning um 4 milljarða frá síðasta ári.

Á vef RÚV er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.