Fréttasafn



2. feb. 2018 Almennar fréttir

Samkeppnisstaða versnað hjá mörgum íslenskum fyrirtækjum

Í Morgunblaðinu í dag segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, stöðuna alvarlega hjá mörgum íslenskum iðnfyrirtækjum og vegna versnandi samkeppnisstöðu geti það kallað á sársaukafulla aðlögun á þessu ári. En í vikunni var tilkynnt um uppsagnir 86 starfsmanna hjá Odda samhliða því sem hætt verður innlendri framleiðslu á plast- og bylgjuumbúðum í verksmiðjunum Plastprenti og Kassagerðinni. 

Í frétt Baldurs Arnarssonar, blaðamanns, kemur fram að Guðrún hafi varað við því í setningarræðu á Iðnþingi í mars 2015 að launakröfur væru þá langt umfram það sem iðnfyrirtækin gætu borið. „Ég fór aldrei í grafgötur með að í þeirri kjarasamningalotu var boginn spenntur til hins ýtrasta. Auðvitað höfum við þungar áhyggjur af því að innlend framleiðsla sé á brún hengiflugs. Sá hryggilegi atburður sem varð í vikunni hjá Odda gæti verið upptaktur að hagræðingaraðgerðum fleiri fyrirtækja. Mörg fyrirtæki hafa ekki getað látið miklar kostnaðarhækkanir fljóta út í verðlagið. Það var auðvitað líka krafan að við myndum halda niðri verðbólgunni. Þannig að atvinnulífið hefur sannarlega tekið mikið á sig og borið mikla ábyrgð síðustu árin. Því miður held ég að atvinnulífið, og sérstaklega innlend framleiðslufyrirtæki, hafi ekki notið þess. Kostnaður þeirra hefur aukist gríðarlega mikið. Á tímabili hjálpaði styrking krónunnar mörgum fyrirtækjum, til dæmis í fyrra. Engu að síður voru hækkanirnar innanlands meiri en svo að sterkara gengi krónu gæti vegið á móti. Samkeppnisstaða margra fyrirtækja sem eru í útflutningi er til dæmis að engu orðin.“ 

Samdráttur í sölu bættist við miklar kostnaðarhækkanir

Þá segir Guðrún að mörg fyrirtæki í matvælaiðnaði hafi fengið á sig gríðarlegt högg í fyrra með tilkomu Costco. „ Sala margra fyrirtækja minnkaði verulega, jafnvel um 20-30%. Þessi þróun snerti Odda, sem er birgir fyrir mörg fyrirtæki, enda bættist samdráttur í sölu við miklar kostnaðarhækkanir. Starfsumhverfið hér er með eindæmum. Það er fáheyrt á byggðu bóli að hafa viðlíka gengissveiflur og launahækkanir á jafn stuttum tíma.“ 

Heimilin og fyrirtækin þurfa stöðugleika

Guðrún segir að allir þurfi á stöðugleika að halda, hvort sem það eru heimilin eða fyrirtækin. „Öflugt atvinnulíf er forsenda góðra lífskjara almennings. Við erum saman í þessari baráttu, atvinnurekendur og launafólk. Okkar framleiðsla mun aldrei geta keppt við ódýrustu framleiðslulönd í heimi. Þegar öllu er á botninn hvolft stöndum við frammi fyrir spurningunni í hvernig landi viljum við búa.“ 

Hækkun raungengis bitnar á mörgum iðnfyrirtækjum 

Þegar blaðamaður spyr Guðrúnu hvaða kerfisbreytingar þurfi að koma til vegna versnandi samkeppnisstöðu iðnaðarins segir hún hátt gengi krónunnar þar sem stuðla þurfi að meira jafnvægi í skráningu gengisins því það bitni á mörgum iðnfyrirtækjum hvað raungengið hafi hækkað mikið. Hún segir jafnframt að það sé ekkert í spilunum sem réttlæti gríðarlegar launahækkanir. „Því miður. Þetta var það sem ég sagði 2015. Við fórum í launahækkanir sem stjórnuðust ekki af framleiðni í landinu. Þegar svo háttar er ekki von á góðu. Útflutningsgreinarnar stýrðu ekki launahækkunum heldur opinberi geirinn. Það er mjög hættulegt að stíga þannig skref.“

Morgunblaðið, 2. febrúar 2018.