Fréttasafn



22. mar. 2023 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Samstarf stjórnvalda og atvinnulífs forsenda árangurs

Atvinnulífið vinnur nú að gerð loftslagsvegvísa. Það er stórt skref og í framhaldinu þarf að fylgja þeim eftir. Það verður án efa til þess að aðgerðir verða markvissari og árangur verður sýnilegur fljótlega. Samstarf stjórnvalda og atvinnulífs á þessu sviði er forsenda árangurs enda eru margar hindranir sem ryðja þarf úr vegi og skapa þarf rétta hvata til umbreytinga. Þetta sagði Sigurður Hannesson, formaður Grænvangs og framkvæmdastjóri SI, á ársfundi Grænvangs sem fór fram í Grósku í gær. 

Hér fer ávarp Sigurðar í heild sinni:

„Ráðherrar og aðrir góðir gestir.

Erum við tilbúin að gera það sem þarf að gera til að ná loftslagsmarkmiðum? Erum við reiðubúin gera það þannig að við bætum lífsgæði almennings í leiðinni? Ég nefni þetta vegna þess að hið síðarnefnda útilokar ýmsar leiðir. Það er nefnilega einfalt mál að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr leið úr lífsgæðum en það viljum við ekki. Vitundarvakning síðustu ára um loftslagsvandann hefur skilað árangri en tími aðgerða er runninn upp.

Markmiðin eru skýr og metnaðarfull, stefnt er að kolefnishlutleysi og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040. Það eru sautján ár þangað til og sá tími verður fljótur að líða. Þessu til viðbótar geri ég ráð fyrir að stefnusmiðir sjái fyrir sér að Ísland verði áfram velferðarríki á þessum tíma en það skilyrði útilokar ýmsa valkosti. Verkefnið er einmitt þetta: að bæta heilsu jarðar og bæta lífsgæði fólks. Hér í dag ætlum við að velta því fyrir okkur hvernig lífið verður árið 2040. Vonandi getum við litið stolt um öxl árið 2040 og hrósað hvert öðru fyrir að hafa tekið réttar ákvarðanir á réttum tíma og þannig náð í mark.

Til að ná í mark þarf framsýni. Framsýnt mat er að lausnirnar ýmist eru eða verða til, tæknin mun þróast í tæka tíð. Framsýni leiðir til þess að orku er aflað í tæka tíð þannig að hún verði tiltæk þegar við þurfum að nota hana.

Það þarf einnig raunsæi. Við verðum að treysta okkur til að segja hlutina eins og þeir eru. Raunsætt mat á stöðunni núna er að við eigum mjög langt í land. Raunsætt mat á stöðunni er að það eru margar hindranir í veginum, og sumar eru þær heimatilbúnar. Þetta þarf ekki að vera svona. Við heyrum það frá öðrum löndum, til dæmis frá Danmörku þaðan sem okkar góði gestur í dag, Finn Mortensen er, að það er hægt að ná samstöðu og ryðja hindrunum úr vegi.

Huga þarf að hinu smáa og hinu stóra. Við öll – hvert og eitt okkar – getum lagt okkar af mörkum í okkar daglega lífi á margvíslegan hátt. Á peningnum er líka önnur hlið sem snýr að stærri myndinni – auknu framboði af orku, hráefnum og breytingum á framleiðsluferlum. Ef við ætlum að ná árangri þarf að ráðast í og ljúka orkuskiptum, að þróa nýjar lausnir og að innleiða þær með fjárfestingum.

Orkuskiptin eru stærsta einstaka verkefnið og það sem mun skila mestum árangri. Við erum komin langt þar með rafvæðingu og nýtingu jarðvarma og getum sannarlega verið í fararbroddi á því sviði, nú sem áður. Samgöngur á landi vega þar minnst en flugsamgöngur og siglingar telja um ¾ af orkuþörf í orkuskiptum.

Vefurinn orkuskipti.is var kynntur í október sl. þar sem finna má greinargott yfirlit yfir það viðfangsefni. Það er staðreynd að öll verðmætasköpun er háð orku á einn eða annan hátt. Verðmætasköpun á Íslandi byggir á notkun raforku sem er 60% á móti olíunotkun sem er 40%. Viðfangsefnið er að skipta olíu út fyrir græna orkugjafa. Efnahagslegur ávinningur er mikill eða 1.400 milljarðar króna. Það er heilt yfir eining um þetta markmið – að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti. Það er óumdeilt að það þarf að afla meiri raforku fyrir orkuskipti. Miðað við forsendur dagsins í dag þarf 16 teravattstundir til að skipta út olíu, sem samsvarar um 80% aukningu á framboði raforku. Forsendur geta sannarlega breyst, tækninni fleygir fram og þegar upp er staðið þarf kannski minni orku. Kannski meiri. Það er heldur ekki ágreiningur um að við þurfum að hefjast handa strax enda eru sautján ár fljót að líða. Við erum meira og minna sammála en samt sem áður vefst fyrir okkur að hefjast raunverulega handa við þriðju orkuskiptin. Því þarf að breyta og allt í kringum okkur hafa stjórnvöld greitt götu orkuöflunar í þágu loftslagsmarkmiða.

Grænvangur var stofnaður sem samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um orkuþekkingu og aðrar grænar lausnir. Viðfangsefnið er tvískipt. Annars vegar að og stuðla að útflutningi grænna lausna og hjálpa þannig öðrum að ná sínum markmiðum í loftslagsmálum. Hins vegar að hvetja til aðgerða í loftslagsmálum innanlands. Stofnun Grænvangs sýnir vel hvernig fyrirtækin og stjórnvöld hafa unnið saman á þessu sviði um nokkurra ára skeið.

Það er áhugavert til þess að hugsa að orkuþekking sem orðið hefur til hér á landi hefur verið nýtt í öllum heimsálfum í a.m.k. 45 löndum. Þetta sýnir að við getum sannarlega látið gott af okkur leiða og styrkt efnahag landsins með auknum útflutningi.

Íslensk fyrirtæki hafa þróað lausnir sem eru leiðandi á sínu sviði á heimsvísu. Carbfix hefur þróað byltingarkennda tækni sem breytir koltvísýringi í berg, Atmonia hefur umbylt yfir 100 ára gömlu framleiðsluferli ammóníaks sem er í senn orkugjafi og grundvallarefni í áburði sem er forsenda matvælaræktunar og Carbon Recycling er leiðandi í tækni til framleiðslu metanóls. Við höfum því margt fram að færa og það verður enn meira með tímanum.

Atvinnulífið vinnur nú að gerð loftslagsvegvísa. Það er stórt skref og í framhaldinu þarf að fylgja þeim eftir. Það verður án efa til þess að aðgerðir verða markvissari og árangur verður sýnilegur fljótlega. Samstarf stjórnvalda og atvinnulífs á þessu sviði er forsenda árangurs enda eru margar hindranir sem ryðja þarf úr vegi og skapa þarf rétta hvata til umbreytinga.

Lausnirnar eru til og sigrarnir vinnast æ oftar. Græn umskipti verða ekki línuleg frekar en önnur umskipti, við höfum allt í höndunum til að ná árangri og það hratt ef okkur tekst að vinna saman, greiða götu aðgerða með hvötum og einföldun regluverks. Það er gott að finna vilja og metnað alls staðar í samfélaginu til þess að ná árangri. Ég fagna áhuga ráðherra, forsætisráðherra og umhverfis- orku- og loftslagsráðherra á Grænvangi. Grænvangur mun gegna sínu hlutverki af kostgæfni, að stuðla að árangri í loftslagsmálum og auka útflutning. Forsenda þess er góð samvinna fyrirtækjanna og stjórnvalda. Við höfum bæði öll hráefni sem og uppskriftina að árangri. Við þurfum að standa saman og gera það sem þarf til að ná metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum Við þurfum að standa saman og vinna að þessum umskiptum þannig að þau bæti lífsgæði landsmanna á sama tíma. Ég hlakka til ársins 2040.“

Sigurður Hannesson, formaður Grænvangs og framkvæmdastjóri SI.