Fréttasafn7. maí 2021 Almennar fréttir Innviðir Menntun Nýsköpun Starfsumhverfi

Samtök iðnaðarins fagna mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu

Samtök iðnaðarins fagna samþykki Alþingis á þingsályktunartillögu um mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu. Með henni er ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra falið að vinna að mótun sjálfbærrar iðnaðar- og atvinnustefnu með tilliti til breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og í helstu viðskiptalöndum. Stefnan verður unnin í víðtæku samstarfi við aðila í atvinnulífi og iðnaði. Við gerð stefnunnar verði sérstaklega litið til þess hvernig bæta megi framleiðni, fjölbreytni og sjálfbærni íslensks iðnaðar. Í tillögunni kemur meðal annars fram að Ísland skorti iðnaðarstefnu sem fjalli á breiðan hátt um hvaða atvinnuvegi landsins á að styðja við og á hvaða hátt, einkum þeim sem snúa að útflutningi.

Samtök iðnaðarins hafa undanfarin ár talað fyrir því að hið opinbera móti atvinnustefnu, sem er það sem ályktun Alþingis snýst um, sem ekki einungis leggur grunn að uppbyggingu til að styðja við efnahagslega velsæld heldur geti verið rauður þráður í stefnumótun hins opinbera í mörgum málaflokkum. Þannig væri hægt að vinna að samræmi í ólíkum málaflokkum svo að fjármunir nýtist á sem skilvirkastan hátt og dregið sé úr sóun. Slík stefna ætti að miða að umbótum í þeim málaflokkum sem helst varða samkeppnishæfni sem eru menntun, efnislegir innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi. 

Í greinargerð tillögunnar er ítrekað mikilvægi samstarfs stjórnvalda og samtaka iðnaðarins til að ná fram betri árangri á þessu sviði. Samtök iðnaðarins munu leggja sitt af mörkum í þeirri vegferð sem framundan er til að koma á öflugri iðnaðarstefnu fyrir Ísland.


Hér fyrir neðan er hægt að nálgast skýrslur SI þar sem meðal annars er fjallað um atvinnustefnu: 

Forsida_1620400758884

Hlaupum hraðar - slítum fjötrana og sækjum tækifærin

 

Motum-framtidina-saman-atvinnustefna-fyrir-Island_SI_1620400657313

Mótum framtíðina saman - atvinnustefna fyrir Ísland 


Island-i-fremstu-rod-eflum-samkeppnishaefnina_SI_1620400637688

Ísland í fremstu röð - eflum samkeppnishæfnina