Fréttasafn



10. feb. 2021 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Samtök iðnaðarins fagna rafrænum þinglýsingum

Samtök iðnaðarins fagna því að í síðustu viku var framkvæmd fyrsta rafræna þinglýsingin. Beðið hefur verið eftir þessum umbótum um langt skeið en lög um rafrænar þinglýsingar voru samþykkt í árslok 2018. Ljóst er að um mikla hagsmuni er að ræða að koma þinglýsingum yfir í rafrænt ferli enda hefur ófremdarástand ríkt í þessum málum hjá sýslumanni. Sem dæmi má nefnda að á 91 daga tímabili, frá 23. júní til 21. september á síðasta ári, var ekki búið að taka fyrir umsóknir um þinglýsingar lóðamarkabreytinga. Biðin eftir eignaskiptalýsingum á sama tímabili var um 56 dagar og 19 daga bið var eftir þinglýsingu á almennum skjölum. Aukið framboð rafrænna lausna sem tengjast starfsumhverfi bygginga- og mannvirkjagerðar er mikið fagnaðarefni að mati Samtaka iðnaðarins og mikilvægt að haldið verði áfram á þeirri vegferð. Samtök iðnaðarins hvetja því stjórnvöld til að leggja ríka áherslu á hraðari innleiðingu rafrænna framkvæmda þar sem gífurlegir fjármunir eru í húfi og tækifærin fjölmörg til að ná fram hagræðingu.

Óþarfa tafir á afgreiðslu þinglýsinga fólu m.a. í sér umtalsverðan kostnaðarauka fyrir þá sem voru að byggja og selja fasteignir og höfðu áhrif á áform byggingaverktaka að hrinda í framkvæmd nýjum verkefnum. Til að undirstrika mikilvægi þessara breytinga má sem dæmi nefna að á síðasta ári var gert ráð fyrir, samkvæmt íbúðatalningu SI, að um 2.100 fullbúnar íbúðir kæmu inn á markaðinn. Meðalverð nýrra 30-250 fm íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu var um 50 milljónir króna. Ef miðað er við að lánsfjármagn beri 5,4% vexti á ársgrundvelli þýddi það um 14 milljóna króna kostnað sem byggingaaðilar tóku á sig á degi hverjum. Miðar þessi kostnaður aðeins við fjármagnskostnað við að hafa íbúð í bið vegna tafa en við þetta bætist annar kostnaður á borð við mannafla og vélar.