Fréttasafn



  • Hæstiréttur Íslands

4. des. 2014

Samtök iðnaðarins ósátt við vinnubrögð Lýsingar

Samtök iðnaðarins hafa farið þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það beini þeim tilmælum til Lýsingar að virða skýrar og afdráttarlausar niðurstöður dómstóla um það hvernig haga skuli endurútreikningum á kaupleigusamningum er hafa að geyma ólögmæta gengistryggingu.

Þann 6. nóvember sl. kvað Hæstiréttur upp dóm í máli Lýsingar hf. gegn Eykt ehf. um að Lýsingu beri að leiðrétta kaupleigusamninga sem Eykt gerði við fyrirtækið.

Samtök iðnaðarins hafa án árangurs óskað eftir svörum frá Lýsingu um hvort fyrirtækið hyggist viðurkenna fordæmisgildi dómsins er varðar aðra kaupleigusamninga fyrirtækisins og ef svo er hvenær það hyggist hefja þær leiðréttingar. Auk þess að virða SI ekki svars hefur Lýsing ekki birt leiðbeiningar eða opinberað afstöðu sína til málanna. Þó hafa félagsmenn SI, sem óskað hafa eftir svörum varðandi sín mál hjá Lýsingu, fengið þau viðbrögð að fyrirtækið telji dóminn ekki vera fordæmisgefandi fyrir aðra kaupleigusamninga fyrirtækisins sem hafa að geyma ólögmæta gengistryggingu.

Í umræðum á Alþingi í gær gerði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks vinnubrögð Lýsingar að umræðuefni og nefndi dæmi um fyrirtæki sem í kjölfar dóms þurfti að skila inn tíu stórtækum vinnuvélum og einni jeppabifreið. Verðmat Lýsingar á tækjunum var rúmar 46,6 milljónir króna. Þau voru síðan seld á nauðungaruppboði um helgina á 73 milljónir. Markaðsvirði þessara tækja, samkvæmt mati löggiltra sala, er tæpar 119 milljónir króna.

Samtök iðnaðarins hafa lengi unnið að því að leiða þessi mál til lykta. Margt hefur áunnist og bæði Landsbankinn og Íslandsbanki hafa tekið mark á niðurstöðum dómstóla og gert upp við sína viðskiptavini. Sama verður ekki sagt um Lýsingu.

Innan raða SI eru fjölmörg fyrirtæki sem nýttu sér kaupleigusamninga Lýsingar til að fjármagna rekstur sinn. Samtök iðnaðarins telja með öllu ólíðandi að fyrirtækið ætli dómstólum að kveða úr um hvert einstakt mál og draga þannig á langinn að fyrirtæki sem nýttu sér kaupleigusamninga fái úrlausn mála sinna og Lýsing geti síðan að auki metið vinnutæki og tól langt undir markaðsvirði.

Erindi SI til Fjármálaeftirlitsins

Þann 6. nóvember sl. kvað Hæstiréttur upp afdráttarlausan dóm í máli Lýsingar hf. gegn Eykt ehf. varðandi það hvernig haga skuli endurútreikningum á kaupleigusamningum Lýsingar sem höfðu að geyma ólögmæta gengistryggingu. Dómurinn er í samræmi við fyrri dóma réttarins um sambærilega samninga annarra fjármálafyrirtækja.

Samtök iðnaðarins hafa án árangurs óskað eftir svörum frá Lýsingu um hvort fyrirtækið hyggist viðurkenna fordæmisgildi dómsins er varðar aðra kaupleigusamninga fyrirtækisins sem hafa að geyma ólögmæta gengistryggingu. Auk þess að virða SI ekki svars, þá hefur Lýsing ekki heldur birt leiðbeiningar eða opinberað afstöðu sína á heimasíðu sinni. Þó hafa félagsmenn SI, sem hafa spurt um sín mál hjá Lýsingu, fengið þau svör að fyrirtækið telji dóminn ekki vera fordæmisgefandi fyrir aðra kaupleigusamninga fyrirtækisins. 

Innan raða SI eru fjölmörg fyrirtæki sem nýttu sér kaupleigusamninga Lýsingar til að fjármagna rekstur sinn. Eins er ástatt fyrir fjölmörgum í öðrum atvinnugreinum en iðnaði. Það er mjög sérstakt, svo ekki sé kveðið fastar að orði, að fjármálafyrirtæki kjósi að una ekki niðurstöðu Hæstaréttar. Það er enn fremur afar sérstakt að það skuli ekki einu sinni virða viðskiptavini sína og samtök þeirra svars. Þá er það umhugsunarverð háttsemi að ætla dómstólum að kveða upp dóma um öll einstök tilvik.

Rétt er að geta þess að fyrrnefnt dómsmál var höfðað þann 18.11.2011, eða fyrir rétt rúmum þremur árum. 

Drátturinn sem hefur orðið á meðferð þessara mála er með öllu ólíðandi. Því er þess farið á leit við Fjármálaeftirlitið að það beini þeim tilmælum til Lýsingar að virða skýrar og afdráttarlausar niðurstöður dómstóla um það hvernig haga skuli endurútreikningum á kaupleigusamningum er hafa að geyma ólögmæta gengistryggingu.

Með vinsemd og virðingu,

f.h. Samtaka iðnaðarins

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri