Fréttasafn



26. nóv. 2020 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Samtök iðnaðarins svara athugasemdum Landsnets

Á vef Landsnets eru að finna athugasemdir við ummæli Samtaka iðnaðarins í Fréttablaðinu sem samtökin telja rétt að svara. Athugasemdir Landsnets eiga ekki við rök að styðjast og með auðveldum hætti hægt að hrekja með vísan í orð iðnaðarráðherra og skýrslur sem hafa verið unnar fyrir atvinnuvegaráðuneytið og Landsvirkjun. Athugasemdir Landsnets ættu því frekar að beinast að stjórnvöldum og Landsvirkjun en ekki að Samtökum iðnaðarins. 

Athugasemd Landsnets: „Samtök Iðnaðarins fullyrða að arðsemi Landsnets hafi verið yfir mörkum. Landsnet hefur aldrei farið yfir leyfða arðsemi eins og SI heldur fram. Hagnaður Landsnets, fyrir fjármagnsliði og skatta, var á síðasta ári 50,2 MUSD en heimild félagsins var 54,7 MUSD. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og arðsemi til eigenda var ákvarðaður um 221,5 MUSD fyrir árin 2016-2019, hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) fyrir sama tímabil var 220,3 MUSD. Orkustofnun birtir á heimasíðu sinni öll tekjumarkauppgjör þar sem þessi atriði koma fram og það er mikilvægt að umræðan sé byggð á faglegum grunni.“

Svar SI: Ummæli SI eru tilvísun til erindis Landsvirkjunar til Orkustofnunar frá apríl sl. og greinargerðar Summu sem unnin var fyrir Landsvirkjun þar sem segir að Landsneti sé tryggð of há arðsemi en efni standa til. (Fréttablaðið, 27. október 2020)

Athugasemd Landsnets: „Samtök iðnaðarins halda því fram að skýrsla Fraunhofer sýni fram á að flutningskostnaður raforku á Íslandi sé allt of hár. Erfitt er að finna rök í skýrslunni fyrir þessari fullyrðingu. Í skýrslu Fraunhofer eru þrjú lönd valin til samanburðar sem bjóða álverum hagstæð kjör. Niðurstaða Fraunhofer er sú að flutningskostnaðurinn sé hæstur í Kanada. Kostnaðurinn á Íslandi er heldur hærri en í Þýskalandi, Noregur er lang lægstur en þar njóta stórnotendur talsverðra tekna af orkuflutningi um sæstrengi til annarra landa. Sú staðreynd að flutningskostnaður á Íslandi sé nálægt kostnaðinum í Þýskalandi er merkileg enda aðstæður í löndunum ólíkar. Ísland er mun strjálbýlla en Þýskaland og dreifiveiturnar í Þýskalandi sinna hlutfallslega stærri svæðum. Á Íslandi eru 9,25 m af háspennulínum á hvern íbúa en í Þýskalandi 4,17 m. Þá eru veðuraðstæður á Íslandi mun verri. Þetta er raun góð niðurstaða fyrir Landsnet miðað við aðstæður hér á landi enda flutningskostnaður í Þýskalandi ekki hár á evrópskan mælikvarða.“ 

Svar SI: Í frétt um skýrslu Fraunhofer er m.a. eftirfarandi haft eftir iðnaðarráðherra: „Við þurfum auðvitað að halda vöku okkar og stuðla að eins samkeppnishæfu umhverfi og mögulegt er, til að tryggja að við getum áfram nýtt þau tækifæri sem felast í endurnýjanlegum orkuauðlindum. Skýrslan bendir til að við þurfum mögulega að huga að flutningskostnaði og ég hef ákveðið að setja af stað vinnu til að greina þann þátt betur. Einnig getur aukið framboð á raforku gegnt lykilhlutverki við að lækka verð sem og aukið gagnsæi og aukin samkeppni á orkumarkaði,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. (Vefur Stjórnarráðsins, 13. nóvember 2020)

Úr nýlegum pistli ráðherra um skýrsluna: „Í skýrslunni eru líka vísbendingar um að mögulega þurfum við að huga betur að flutningskostnaði orkunnar. Verðlagning hans byggir á regluverki sem full ástæða er til að rýna. Ég fól einmitt í vikunni Deloitte að skoða þann þátt sérstaklega, bæði flutning og dreifingu.“ (Morgunblaðið, 14. nóvember 2020)

Frettabladid.is, 26. nóvember 2020.