Samtök skipaiðnaðarins - nýr starfsgreinahópur innan SI
Stofnfundur Samtaka skipaiðnaðarins - SSI fór fram 12. desember í Húsi atvinnulífsins. SSI munu starfa sem starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins.
Formaður var kjörinn Þröstur Auðunsson hjá Trefjum og varformaður Sverrir Bergsson í Seiglu. Aðrir í stjórn og varastjórn voru kjörnir Ari Elísson hjá Víkingbátum, Regin Grímsson hjá Mótun og Andri Þór Gunnarsson hjá Infuse ehf.
Á fundinum var farið yfir stefnumótun greinarinnar sem fram fór í nóvember. Stefnumótunin lýsir þeim árangri sem fyrirtæki í greininni vilja ná til ársins 2020 og hvaða forsendur þurfa að vera fyrir hendi til að sá árangur náist.
Árangur til ársins 2020:
- Íslensk skip í sókn, jafnt á nýjum sem eldri mörkuðum
- Léttari, sterkari, öruggari og vistvænni lausnir
- Traustur og öruggur vöxtur íslensks skipaiðnaðar
Forsendur
- Straumlínulagaðir verkferlar í íslenskum skipaiðnaði
- Öflug innlend þróun, skilvirkt regluverk og fjármögnun
- Framleiðsla í sátt og samlyndi við umhverfi og samfélag
- Fjölbreytt námsframboð með spennandi framtíðarmöguleika
- Útflutningur og kynning íslenskri þjóð til heilla
Þá voru skilgreind 10 áhersluverkefni eða áherslusvið til að koma framangreindum atriðum í framkvæmd.
- Stofnun samtaka greinarinnar - stefna og markmið - fjármögnun - eftirfylgni
- Aðgengilegt námsframboð - kynningarefni
- Fjármögnun nýsköpunar í greininni - yfirsýn og umbætur
- Stefnumörkun í umhverfismálum og vinnuvernd
- Búnaður og lausnir uppfylli alþjóðlega staðla
- Aukin almenn þekking á trefjaplasti, áfangar í verkmenntaskólum, örnámskeið og endurmenntun í greininni
- Útflutningur og kynningarmál, hugarfarsbreyting gagnvart efnisvali og bætt ímynd
- Bætt samstarf við Samgöngustofu, tillögur um breytingar, skrá um reglur og einfaldara eftirlit
- Dropinn holar steininn - skipshlutar úr trefjaplasti á stálskipum
- Hvatar til að kaupa innlenda framleiðslu - Endurgreiðsla aðflutningsgjalda
Með stofnun samtakanna er fyrsta verkefnið í höfn og nýrrar stjórnar bíður að skipuleggja framhaldið með starfsmönnum Samtaka iðnaðarins. SI óska fyrirtækjum í greininni til hamingju með þennan nýja vettvang.