Fréttasafn



9. feb. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Samvinna er lykillinn að lausn í samgöngukerfinu

Það er mat Samtaka iðnaðarins að mikilvægt sé að lausn sé fundin á þeirri viðvarandi og umfangsmiklu skuldasöfnun sem á sér stað í samgöngukerfinu. Kostnaður þess að fjárfesta ekki í takt við þarfir er mjög mikill bæði fyrir fyrirtæki og heimili í landinu. Þetta segja Björg Ásta Þórðardóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, og Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein í Viðskiptablaðinu. Þau segja að þörfin fyrir traust samgöngukerfi sé mikil og vaxandi og í því felist mikil tækifæri til verðmætasköpunar fyrir samfélagið allt. „Tökum höndum saman og finnum lausn á þessu stóra samfélagslega verkefni. Lykillinn felst í samvinnu hins opinbera og einkaaðila.“

Samvinnuverkefni í innviðauppbyggingu raunhæfur kostur

Björg Ásta og Ingólfur segja í greininni að á nýlegri ráðstefnu Landssamtaka lífeyrissjóða og innviðaráðuneytisins um innviðafjárfestingar hafi komið fram mikill samhljómur um brýna þörf á auknum fjárfestingum í innviðum, ekki síst samgönguinnviðum, og notkun samvinnuverkefna hins opinberra og einkaaðila. Samvinnuverkefni við uppbyggingu innviða sé raunhæfur kostur. Að ýmsu sé þó að hyggja svo vel takist til og megi þar nefna fyrirsjáanleika verkefna, sameiginlegan skilning á því hvað samvinnuverkefni sé og hvaða aðferðum eigi að beita. Tryggja þurfi svigrúm einkaaðila til nýsköpunar eða bestunar í slíkum verkefnum þar sem hagkvæmnin liggur oftar en ekki í hönnun og rekstri mannvirkisins. Þá þurfi að koma til móts við kostnað markaðarins af þáttöku í útboði slíkra verka, sem muni verða mikill, og taka tillit til þeirra áskorana sem felist í sveiflukenndu íslensku efnahagslífi en óstöðugleikinn skapi aukna áhættu fyrir langtímaverkefni á þessu sviði.

Ástand vegakerfisins versnar á ári hverju

Í greininni kemur fram að samkvæmt skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafaverkfræðinga sé ljóst að ástand vegakerfisins sé slæmt og fái það ástandseinkunnina 2 af 5 mögulegum, sem sé falleinkunn. Uppsöfnuð viðhaldsþörf á þjóðvegum landsins sé metin 120 ma.kr. og versni ástand kerfisins á ári hverju enda verjum við að meðaltali 5 ma.kr. minna í viðhald þeirra en nauðsynlegt sé. Nýfjárfestingar hafi heldur ekki verið nægar og sé innviðaskuldin því að hækka. 

Nauðsynlegt að skoða aðrar leiðir

Þau segja í greininni að talið sé að uppsöfnuð þörf fyrir nýfjárfestingar í vegakerfinu sé um 550 ma.kr. og samkvæmt gögnum OECD séu fjárfestingar í samgönguinnviðum sem hlutfall af landsframleiðslu talsvert lægri en gengur og gerist meðal þróaðra ríkja. Engin breyting verði á því í ár en á nýlegu Útboðsþingi SI hafi komið fram að Vegagerðin reikni með að verja í viðhald þjóðvegakerfisins 9,5 mö.kr. í ár og 13,6 ma.kr. í nýfjárfestingar í kerfinu. Þetta sé í heild ríflega 7 mö.kr. minna en á síðasta ári og nær 30 mö.kr. minna en árið 2021. Á sama tíma hafi umferð aukist og bílum fjölgað. Í greininni segir að staðan sé einfaldlega sú að vegakerfið sé ósjálfbært og mikið áhyggjuefni að uppbygging þess hafi ekki verið í takt við þarfir íbúa og atvinnulífs undanfarin ár. Til að mæta þessari stöðu og brúa það bil sem myndast á milli fjárframlaga ríkisins til vegakerfisins og þarfa samfélagsins til að byggja upp betri samgönguinnviði sé nauðsynlegt að skoða aðrar leiðir.

Kostnaðarsamt að fresta Sundarbraut

Þá segja þau í greininni að samvinnuleiðin hafi verið reynd hér á landi, m.a. með byggingu Hvalfjarðarganganna, og sé þaulreynd í nágrannaríkjum okkar. Ávinningur af því að fara samvinnuleiðina geti verið mikill og megi þar nefna að nauðsynleg verkefni fari fyrr af stað, standist frekar áætlun og kostnaður lækki þegar litið sé til heildarlíftíma mannvirkis. Þau segja að ýmsir góðir fjárfestingakostir gætu verið til þess fallnir að beita slíkri samvinnuleið. Sundabrautin hafi oftast verið nefnd í því samhengi en hún sé þjóðhagslega arðvænlegt verkefni sem afar kostnaðarsamt sé að fresta. Þá sé ólíklegt að ríkisreikningurinn þoli að Sundabrautin sé fjármögnuð að fullu með fjárframlögum frá ríkinu enda nemi kostnaður við byggingu hennar tæplega fjórföldum fjárframlögum ríkisins til vegakerfisins á þessu ári. Fleiri fjárfestingakostir séu ákjósanlegir til samvinnuleiðar og margir brýnir m.t.t. þess sem þeir skila þjóðarbúinu, umferðaröryggis og tengingar byggða.

Viðskiptablaðið, 9. febrúar 2023.    

Vidskiptabladid-09-02-2023