Fréttasafn



25. nóv. 2022 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Seðlabankinn veldur óstöðugleika

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í frétt Fréttablaðsins að vaxtahækkun Seðlabankans sé mjög illa tímasetta, ekki síst með tilliti til kjarasamninga. Hann segir hana auka mjög vandræði við að ná kjarasamningum á skynsamlegum nótum, sem sé ein mikilvægasta forsenda stöðugleika. „Bankinn hefur margsinnis lýst því yfir að það verkefni að ná stöðugleika sé sameiginlegt verkefni Seðlabankans, hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins. Hafa forsvarsmenn bankans ítrekað undanfarið biðlað til aðila vinnumarkaðarins um að leggjast á árar með Seðlabankanum um að ná niður verðbólgunni. Nú er bankinn hins vegar uppvís að því að valda upplausn við gerð kjarasamninga og óstöðugleika á vinnumarkaði.“

Peningastefnunefndin ekki nægilega vel tengd gangi mála í kjaraviðræðunum

Í fréttinni segir að ákvörðunin nú opinberi að mati Ingólfs að peningastefnunefnd sé ekki nægjanlega vel tengd við gang mála í viðræðunum eða vilji ekki hlusta á þau skilaboð sem þaðan koma. „Hvort sem er verður það að teljast alvarlegt mál þegar verkefnið að tryggja stöðugleika er, eins og forsvarsmenn bankans hafa orðað það, sameiginlegt verkefni.“

Hringlandaháttur í skilaboðum dregur úr trúverðugleika Seðlabankans

Þá kemur fram í fréttinni að Ingólfur bendi á að við kynningu á vaxtahækkuninni 5. október síðastliðinn hafi seðlabankastjóri gefið sterklega til kynna að um væri að ræða síðustu vaxtahækkun bankans í bili. Stutt sé frá því að þau orð voru látin falla og í raun rennt stoðum undir þann breytta tón sem nú sé í forsvarsmönnum bankans um þörf fyrir hækkun vaxta. „Þessi hringlandaháttur í skilaboðum dregur úr trúverðugleika bankans og verðbólgumarkmiðsins, sem er mjög slæmt. Bankinn þarf trúverðugleika til þess að verðbólgumarkmiðið sé það akkeri fyrir verðbólguvæntingar sem þarf til að tryggja lága verðbólgu.“

Glannaskapur í vaxtahækkunum gæti kostað hagkerfið óþarflega mikið

Í fréttinni segir Ingólfur engin rök hafa verið færð fyrir því að ekki hefði verið hægt að bíða þar til skýrar línur væru komnar í kjarasamningana. „Það er hætta á því að glannaskapur Seðlabankans í vaxtahækkunum geti kostað hagkerfið óþarflega mikið.“ Hann bendir á að vextir hafi hækkað hratt og óvíst sé hversu hratt þeir skili sér í lægri verðbólgu. Útlit sé fyrir að verulega dragi úr hagvexti á næsta ári og vaxtahækkunin leiki þar hlutverk. „Peningastefnunefnd bankans hefði átt að halda vöxtum bankans óbreyttum nú og segja að hún myndi bíða og sjá til með þróunina. Skynsamlegt hefði verið fyrir bankann að bíða og sjá til hvernig þróun kjarasamninga yrði. Einnig tekur tíma fyrir vaxtahækkanir að hafa áhrif á eftirspurn og verðbólgu og skynsamlegt hefði verið fyrir bankann að bíða eftir því að skýrari línur kæmu fram um þau áhrif.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 25. nóvember 2022.


Frettabladid-25-11-2022