Fréttasafn



1. nóv. 2022 Almennar fréttir

Sex tilnefningar fyrir Hönnunarverðlaun Íslands

Hönnunarverðlaun Íslands verða afhent í Grósku fimmtudaginn 17. nóvember. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.

Á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs er hægt að nálgast upplýsingar um Hönnunarverðlaun Íslands.

Eftirfarandi sex verkefni eru tilnefnd: 

Mynd6_1667212281270

Snert á landslagi eftir Tinnu Gunnarsdóttur. Rökstuðningur dómnefndar: Stiklur fyrir Héðinsfjörð er kyrrstætt verk sem er hluti af yfirstandandi doktorsverkefni Tinnu Gunnarsdóttur þar sem hún rannsakar hvort fagurfræðileg upplifun í landslagi geti verkað sem afl til umbóta á loftslagsbreytingum á tímum mannaldar. Í yfirgefnu umhverfi sínu birtist verkið sem skyndileg uppgötvun, og vekur okkur til umhugsunar um virðingu og inngrip. Þarna mætast maður og landslag til að hafa áhrif hvort á annað. Verkið er vissulega inngrip, augljóslega manngert, en þó svo sýnilega innfætt og eðlilegt. Þetta er merkilegur minnisvarði um fagurfræðilega upplifun okkar mannanna og tengsl okkar við náttúruna.

Á Vísi er hægt að nálgast frekari upplýsingar um Snert á landslagi. 

Mynd5_1667212301604

Áríðandi tilraunir á raunveruleikanum eftir Sól Hansdóttur. Rökstuðningur dómnefndar: Á grunni skapandi hugmyndafræði er fléttað saman nútímalegri hönnun og frumlegri notkun á ull í bland við hrosshár í Áríðandi tilraunum á raunveruleikanum. Fatalína sem er fyrsta verk hönnuðar eftir útskrift og samanstendur af frumlegum flíkum þar sem aðaluppistaðan er ull. Fatalínan er framleidd á vinnustofu hönnuðarins í Reykjavík. Ullin er annarsvegar íslensk, frá Ístex, og hinsvegar frá danska vefnaðarframleiðandanum Kvadrat. Einnig er hluti af efninu keyptur notaður eða úr lager afgangsefna. Hönnuðurinn, Sól Hansdóttir, varpar fram spurningum um aðfangakeðju textílefna í fataframleiðslu auk þess að vinna með ímynd tískuborgarinnar með því að starfa jöfnum höndum í Reykjavík og í London. Efnisval og frumleg hönnun er hér í því hlutverki að ögra hefðinni og vekja okkur til umhugsunar um vistvæna hönnun og nýtingu staðbundinna hráefna. Útkoman eru frumlegar hátískuflíkur sem eru á mörkum fatnaðar og skúlptúrs.

Á Vísi er hægt að nálgast frekari upplýsingar um Áríðandi tilraunir á raunveruleikanum.

Mynd4_1667212398288

Hljóðhimnar eftir Þykjó. Rökstuðningur dómnefndar: Hljóðhimnar er heildræn og fallega útfærð hönnunarlausn þar sem útkoman er virk upplifun sem opnar á skilningarvitin í gegnum leik. Um er að ræða nýtt upplifunarrými fyrir börn og fjölskyldur í Hörpu þar sem fræðsla og hughrif koma saman. Þverfaglega teymið ÞYKJÓ leiddi hönnunarferlið á rýminu í samstarfi við Hörpu, Gagarín, Vísindasmiðjuna, IRMA, Áróru lýsingarhönnun, Reykjavík Audio, Upptekið, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku Óperuna, Maxímús Músíkús, Stórsveit Reykjavíkur og síðast en ekki síst Krakkaráð ÞYKJÓ, sem skipað er 100 börnum á aldrinum 5–7 ára. Sköpuð er forvitnileg, litrík og hlýleg umgjörð um undraheim hljóðs og tóna sem miðar að því að vekja forvitni og veita uppljómun. Skipulag rýmisins er innblásið af eyranu og líffærafræðilegu formunum sem eru að finna í hlustinni. Hljóðhimnar eru gott dæmi þess hve veigamiklu hlutverki góð hönnun getur gegnt í kennslu í gegnum leik, og þar með kveikt neista í hugum yngri kynslóða.

Á Vísi er hægt að nálgast frekari upplýsingar um Hljóðhimna. 

 Plastplan

Plastplan, stofnendur Björn Steinar Blumenstein og Brynjólfur Stefánsson. Rökstuðningur dómnefndar: Starf hönnunarstofunnar og plastendurvinnslunnar Plastplans hefur frá stofnun þess árið 2019 einkennst af sköpunargleði, tilraunamennsku, úrræðasemi og óbilandi hugsjón. Plastplan hefur á þessum þremur árum tekist á við að raungera hringrás plastefna með því að taka það sem til fellur af plasti frá fyrirtækjum innanlands og þróa og framleiða úr því ný og falleg verk, ýmist fyrir sína eigin vörulínu, eða nytjahluti fyrir fyrirtækin sem Plastplan er í samstarfi við. Innviða- og húsgagnahönnun þeirra fyrir Höfuðstöðina, sem er listasafn og menningarsetur byggt í kringum Chromo Sapiens, verk Shoplifter Art / Hrafnhildar Arnardóttur, er einstaklega vel heppnað í viðleitni sinni til að skapa fjölnota umgjörð sem hvorttveggja endurspeglar verk Shoplifters og flæðir samhliða þeim á eftirtektarverðan hátt.

Á Vísi er hægt að nálgast frekari upplýsingar um Plastplan. 

 Universal

Universal Thirst, stofnendur Kalapi Gajjar og Gunnar Vilhjálmsson. Rökstuðningur dómnefndar: Þótt indverskt stafróf sé flestum íbúum hins vestræna heims framandi og torrætt þá birtist okkur í stað þess önnur sýn. Skilningur og læsi víkja þannig fyrir fegurðarskyni og forvitni. Þessi framandleiki, ásamt fagurfræðinni, eru hér hreyfiafl til nýrra og áhugaverðra verka í samstarfi Gunnars og Kalapis sem koma með ólíka menningarheima að borðinu og veita okkur tvíhliða sýn inn í heim leturhönnunar. Samstarfið er drifið áfram af hugsjónum um meiri samþættingu vestrænna og austrænna leturgerða og tækifærunum sem í því felast. Universal Thirst er frábært dæmi um hönnunarsamstarf milli fulltrúa tveggja menningarheima leturgerðar þar sem rannsóknir, miðlun og nýsköpun færa okkur ný sjónarhorn og bættan skilning.

Á Vísi er hægt að nálgast frekari upplýsingar um Universal Thirst. 

Laufskalavarda

Laufskálavarða þjónustuhús eftir STÁSS Arkitekta. Rökstuðningur dómnefndar: Þjónustuhúsið við Laufskálavörðu stendur auðmjúk sem látlaust, manngert skýli andspænis íslensku náttúrunni - án þess að keppa við hana og án þess að vera lýti í umhverfinu. Byggingin er teiknuð af Stáss arkitektum. Það er aðeins 30m2 að stærð og stakstætt á Mýrdalssandi við þjóðveginn. Hér er þarfamiðuð nálgun leiðarstefið við að skapa úthugsaðan og nytsamlegan áningarstað í víðáttunni. Ólíkum notkunarmöguleikum er tvinnað saman á fáum fermetrum sem samanstanda af salernisaðstöðu, þvottaaðstöðu, útsýnispalli, hvíldarbekk, og aðstöðu fyrir hjólreiðafólk. Byggingin er hagnýt og beinir athygli að náttúrunni og býður upp á að fólk njóti hennar án þess að á henni sé traðkað. Vegfarendur geta nýtt sér hana til að leita skjóls ef illa viðrar eða til að náð áttum á útsýnispallinum á þaki byggingarinnar þar sem útsýni er yfir að Mýrdalsjökli og eldstöðinni Kötlu. Hönnunin er sérlega góð fyrirmynd faglegrar umgjarðar, sem mætti útfæra víðar um landið.

Á Vísi er hægt að nálgast frekari upplýsingar um Laufskálavörðu þjónustuhús.

 

Dómnefnd

Dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands skipa Sigríður Sigurjónsdóttir, hönnuður og safnstjóri Hönnunarsafns Íslands sem er formaður dómnefndar, María Kristín Jónsdóttir, hönnuður, varaformaður, Ragna Fróðadóttir, hönnuður, Þorleifur Gunnar Gíslason, hönnuður, Arna Sigríður Mathiesen, arkitekt, Margrét Kristín Sigurðardóttir fyrir Samtök iðnaðarins og Daniel Byström, hönnuður og stofnandi Design Nation.Domnefnd-2022