Fréttasafn



7. júl. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

SI fagna áformum um nýja mannvirkjaskrá

Samtök iðnaðarins fagna áformum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins um að hefja uppbyggingu á nýrri mannvirkjaskrá. Það er mikið fagnaðarefni að mati Samtaka iðnaðarins að nú sé stefnt að því að þróa nýja mannvirkjaskrá sem hefur það að markmiði að tryggja samfélaginu á hverjum tíma áreiðanlegar rauntímaupplýsingar um mannvirkjagerð og stöðuna á húsnæðismarkaði. Með uppbyggingu öflugrar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefur hið opinbera loks skapað umhverfi sem er fært um að ráðast í þessar stórtæku breytingar sem nú hafa verið kynntar. Stofnunin hefur ráðist í öflugar umbætur á sviði byggingar- og mannvirkjamála og því er um rökréttar og góðar breytingar að ræða. Ráðgert er að ný mannvirkjaskrá verði komin í gagnið 1. júní 2022.

Samtök iðnaðarins hafa lengi barist fyrir umbótum hjá hinu opinbera sem miða að því að tryggja aukin gæði opinberra gagna um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Umbætur eru nauðsynlegar þar sem fyrirliggjandi gögn eru grundvöllur ákvarðanatöku og áætlanagerðar við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis hverju sinni. Umrædd gögn eru auk þess nýtt til að undirbyggja spár og áætlanir Seðlabankans og Hagstofunnar og eru einnig grunnur fyrir ákvörðunum á sviði peningamála og opinberra fjármála. Hagsmunirnir eru miklir, ekki bara fyrir atvinnulífið heldur einnig fyrir hið opinbera og almenning þar sem stöðug og rétt uppbygging íbúðarhúsnæðis er ein af undirstöðum stöðugleika hér á landi.

Fasteignaskrá er grunnskrá ríkisins yfir fasteignir og annast Þjóðskrá Íslands hana. Í fasteignaskrá eru skráðar allar fasteignir í landinu og er það mat Samtaka iðnaðarins að réttar upplýsingar úr henni ættu að vera auðsóttar í rauntíma í ljósi þeirra miklu tækniframfara sem átt hafa sér stað. Raunin er þó allt önnur og óhætt er að fullyrða að opinber gögn hafa hingað til gefi bæði ranga og villandi mynd þegar kemur að íbúðum í byggingu. Í ljósi þess að opinberar upplýsingar um fjölda íbúða í byggingu voru ekki nægjanlega áreiðanlegar voru Samtök iðnaðarins tilneydd til að hefja talningu á íbúðum í byggingu árið 2010. Fyrirkomulagið átti að vara í skamman tíma eða þar til gögn opinberra aðila yrðu viðunandi. Nú ellefu árum síðar eru Samtök iðnaðarins enn að telja íbúðir í byggingu sökum ófullnægjandi gagna. Talningin hefur verið gerð tvisvar á ári á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess, í febrúar og september, og einu sinni á ári á Norðurlandi, í febrúar.

Til að varpa ljósi á mikilvægi þessara breytinga sem nú hafa verið kynntar má sem dæmi taka að talsverður munur var á nýjustu tölum Samtaka iðnaðarins annars vegar og Þjóðskrár og Hagstofu Íslands hins vegar um fjölda íbúða í byggingu. Í viðauka með síðustu talningu SI var fjallað ítarlega um umræddan vanda. Þar kom  m.a. fram að íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu voru samkvæmt tölum Þjóðskrár í byrjun mars 2.327 talsins samanborið við 3.523 í talningu SI. Munurinn er 1.196 íbúðir eða 51%. Um síðustu áramót voru 2.347 íbúðir í byggingu samkvæmt gögnum Hagstofunnar samanborið við 4.127 í talningu SI í september í fyrra. Munurinn er 1.780 íbúðir eða 76%.