SI fagna áherslu stjórnvalda á að vaxa út úr kreppunni
Í umsögn SI um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2022 kemur fram að samtökin lýsa ánægju sinni með að í fjárlagafrumvarpinu endurspeglist áhersla á að vaxa út úr kreppunni og halda áfram að byggja upp velsæld með traustum efnahag, fjárfestingum í fólki, innviðum og nýsköpun. Samtökin taka heilshugar undir það sem þar er sagt að til þess að aukin efnahagsumsvif verði á sjálfbærum grunni þurfi þau að byggja á aukinni framleiðni hagkerfisins. Þá fagna SI því að á nýju kjörtímabili verði áfram fjárfest í innviðum, menntun, nýsköpun og rannsóknum og mótuð umgjörð fyrir öflugt og framsækið atvinnulíf. Þar kemur fram að iðnaður hafi lagt afar mikið af mörkum til endurreisnar á liðnum áratug eftir síðustu kreppu og umfang iðnaðar sé mikið. Iðnaðurinn geti á enn kröftugri hátt verið drifkraftur viðspyrnu hagkerfisins nú og til þess þurfi stjórnvöld og atvinnulíf að taka höndum saman og vinna hratt að uppbyggingu og bættum skilyrðum.
Samtök iðnaðarins fagna sérstaklega skýrri og framsækinni framtíðarsýn og áherslum nýrrar ríkisstjórnar á hvata til fjárfestinga í nýsköpun og vöxt hugverkaiðnaðar sem hafi fest sig í sessi sem fjórða stoðin í verðmætasköpun þjóðarbúsins. Í því sambandi er sérstaklega nefnt að fyrirhugað sé að festa hækkun á endurgreiðslum vegna rannsókna- og þróunar í sessi. Sú aðgerð ein og sér muni stuðla að áframhaldandi vexti hugverkaiðnaðar, aukinna útflutningstekna og skapa ný og verðmæt störf.
Samtök iðnaðarins segja í umsögninni að sú mikla áherslu á innviði sem birtist í stjórnarsáttmála og ráðuneytisskipan nýrrar ríkisstjórnar sé ánægjuleg. Samtökin eru sérstaklega ánægð með að nýtt ráðuneyti innviða hafi nú verið stofnað þar sem undir séu öll helstu málefni innviða hagkerfisins. Það sé sérstaklega ánægjulegt að þar hafi verið sameinað í einu ráðuneyti skipulags-, byggingar- og samgöngumál sem ætti að greiða úr flækjum. Þá kemur fram í umsögninni að SI fagni því að nú standi til að ráðast í frekari endurbætur á regluverki og stjórnsýslu húsnæðismála. Mikilvægt sé að nægt fjármagn sé tryggt til verkefnisins þar sem ávinningurinn verði margfalt meiri. Leggja þurfi ríka áherslu á að tryggja áframhaldandi þróun á uppbyggingu húsnæðisgrunns Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Samtök iðnaðarins gera einnig ýmsar athugasemdir við fjárlagafrumvarpið í umsögninni:
Mótmæla fyrirhugaðri hækkun tryggingagjalds
Í umsögninni kemur fram að Samtök iðnaðarins mótmæli þeirri 0,25 prósentustiga hækkun tryggingagjaldsins sem fyrirhuguð sé um næstu áramót. Hækkun tryggingagjaldsins veiki samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum og dragi úr getu fyrirtækja að ráða til sín starfsmenn og þar með tekjugrunni tryggingagjaldsins.
Mikilvægt að framlengja Allir vinna sem hefur skilað góðum árangri
Þá kemur fram í umsögninni að Samtök iðnaðarins telji mikilvægt í ljósi þess hversu vel verkefnið Allir vinna hafi tekist að stjórnvöld framlengi 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts um eitt ár hið minnsta. Átakið Allir vinna hafi skilað góðum árangri bæði á síðasta ári sem og á árunum 2009-2013.
Bætt eftirlit með lögum um handiðnað sem er í lamasessi
Samtök iðnaðarins vilja sjá aukna áherslu á bætt regluverk með það fyrir augum að bæta eftirfylgni með lögum og tryggja virka samkeppni á jafnræðisgrundvelli og í umsögninni er sérstaklega nefnt eftirlit með lögum um handiðnað nr. 42/1978 sem sé í lamasessi.
Stytta þarf málsmeðferðartíma Samkeppniseftirlitsins
Í umsögninni kemur fram að Samtök iðnaðarins fagni aukinni áherslu Samkeppniseftirlitsins á þróun stafrænna lausna en það skorti aukna áherslu á að eftirlit Samkeppniseftirlitsins verði skilvirkara og hagkvæmara og þurfi að horfa til þess að stytta málsmeðferðartíma innan eftirlitsins.
Vonbrigði að framlög til framhaldsskóla lækki
Samtök iðnaðarins telja það vonbrigði að sjá að fyrirhuguð framlög til fjárfestinga á framhaldsskólastiginu lækki um 7,8% á tímabilinu 2022-2026 þrátt fyrir fyrirheit um eflingu iðnnáms í stjórnarsáttmála. En um leið fagna samtökin því að ríkisstjórnin styðji byggingu nýs Tækniskóla enda hafi þörfin aldrei verið meiri.
Óska eftir auknu framlagi til vinnustaðanámssjóðs
Í umsögninni segir að Samtök iðnaðarins harmi að framlög í vinnustaðanámssjóð haldist óbreytt á milli ára, því ljóst sé að breyting á reglugerð um vinnustaðanám kalli á talsvert meira utanumhald og kennslu frá meisturum, fyrirtækjum og stofnunum en verið hafi hingað til. Það sé eindregin ósk samtakanna að framlög til sjóðsins verði aukin verulega til þess að mæta þessari fjölgun umsókna.
Mótmæla niðurskurði til framkvæmda á vegakerfinu
Samtök iðnaðarins mótmæla þeim niðurskurði sem er í fjárlagafrumvarpinu á fjárheimildum til framkvæmda á vegakerfinu. Af öllum innviðum landsins er ástand vegakerfis einna verst. Þá lýsa samtökin áhyggjum af því að gert sé ráð fyrir að hlutdeild fjárfestinga hins opinbera af landsframleiðslu muni lækka á næstu árum m.a. vegna mikilla lækkunar í fjárfestingum í samgöngumannvirkjum. Mikilvægt sé að tryggja að þessi þróun verði ekki að veruleika enda sé mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf á innviðum landsins og ekki á þá skuld bætandi.
Gjöld í Loftslagssjóð skili sér til nýsköpunar og grænna fjárfestinga
Samtök iðnaðarins telja mikilvægt að tryggt verði að Loftslagssjóður verði fjármagnaður í samræmi við gjöld sem fyrirtæki eru að greiða fyrir losunarheimildir og að gjöldin skili sér til umbótaverkefna atvinnulífsins innan kerfisins, sér í lagi til nýsköpunar og grænna fjárfestinga. Samtök iðnaðarins telja mikilvægt að gagnsæi sé hvað varðar innheimt umhverfisgjöld og hvort og hvernig þeir fjármunir séu raunverulega nýttir til grænna verkefna og nýsköpunar. Samtök iðnaðarins segja verulegra úrbóta þörf til að bæta úr þeim ágalla til að skapa traust til þess að umrædd gjöld séu sannarlega nýtt í græn verkefni
Skapa þarf hvata fyrir prentun bóka hér á landi
Samtök iðnaðarins hvetja til að markmið um aukinn stuðning við íslenska bókaútgáfu verði einnig nýtt sem hvati til þess að íslensk bókverk séu prentuð á Íslandi. Skapa þurfi hvata sem stuðli að því að bókaútgefendur sjái hag sinn í því að prenta hérlendis. Slíkar aðgerðir rími vel við markmið stjórnvalda um minnkun kolefnisspors ásamt því að varðveita sérfræðiþekkingu fagfólks í prentiðnaði.
Hér er hægt að nálgast umsögn SI um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022.