Fréttasafn10. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Menntun

SI fagna breytingum á vinnustaðanámi

Í umsögn Samtaka iðnaðarins um drög að reglugerð um vinnustaðanám, mál nr. 261/2020 kemur fram að samtökin fagni breytingum um vinnustaðanám sem komi fram í reglugerðinni enda séu breytingarnar í samræmi við áherslur meistaradeildar SI sem samþykktar voru árið 2014 um framþróun í vinnustaðanámi. Í umsögninni kemur fram að í febrúar á þessu ári hafi verið gert samkomulag um eflingu starfs- og tæknimenntunar milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Samtaka iðnaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga undir myllumerkinu Fyrir mig. Fyrir þá undirritun hafi áherslur meistaradeildarinnar verið bornar undir öll meistarafélög SI og umboð SI, til að vinna að breytingum í þessu kerfi, endurnýjað.

Iðnmeistaraleið og skólaleið

Þá kemur fram í umsögninni að í reglugerðardrögunum séu tilgreindar tvær leiðir í vinnustaðanámi; annars vegar iðnmeistaraleið, sem byggir á núverandi samningsleið og hins vegar skólaleið, sem sé ný leið. Með þessum breytingum sé komið í veg fyrir óvissu nemenda sem vilja stunda iðnnám þar sem útskrift hans verði á ábyrgð skóla og hægt verði að grípa til ráðstafana ef nemandi kemst ekki á hefðbundinn iðnmeistarasamning. Með breytingum á reglugerðinni megi einnig ætla að dragi úr líkum á brotthvarfi nemenda sem ekki hafi tök á að komast á samning.

Atvinnulífið mun ekki standa í vegi fyrir nauðsynlegum breytingum

Einnig segir í umsögninni að atvinnulífið muni ekki standa í vegi fyrir nauðsynlegum breytingum á vinnustaðanámi eða framþróun í iðnnámi. Innan Samtaka iðnaðarins hafi frá árinu 2014 verið talað fyrir m.a. þeim umbótum sem nú liggja fyrir. Umræddar breytingar séu jafnframt til þess fallnar að ryðja úr vegi mögulegum samkeppnishindrunum, sem kunni að vera fyrir hendi í einstaka greinum, þar sem nemendum séu tryggð eðlileg námslok auk þess sem lengd vinnustaðanáms miðast eingöngu við þann tíma sem nemandi þurfi til að ná þeirri hæfni sem tilskilin sé. Þá segir að samtökin geri sér þó grein fyrir að nú þurfi að eiga sér stað ákveðin endurskipulagning í kerfinu auk þess sem að mynda þurfi sterkari tengsl skóla og vinnustaða. „Lýsa samtökin sig hér með tilbúin til að taka þátt í þeirri vinnu sem nú þarf að fara fram.“

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.