Fréttasafn



24. feb. 2021 Almennar fréttir Menntun

SI fagna breytingum á vinnustaðanámi

Samtök iðnaðarins fagna þeim breytingum sem fram koma í nýrri reglugerð um vinnustaðanám sem undirrituð var 18. febrúar síðastliðinn enda eru breytingarnar í samræmi við áherslur meistaradeildar SI sem samþykktar voru árið 2014 um framþróun í vinnustaðanámi. Í febrúar á 2020 var gert samkomulag um eflingu starfs- og tæknimenntunar milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Samtaka iðnaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga undir myllumerkinu Fyrir mig. Þar kemur skýrt fram sá vilji að rýna skipulag vinnustaðanáms og finna leiðir til úrbóta og er reglugerðin eitt stærsta framfaraskref í þá átt í langan tíma.

Í reglugerðinni koma fram nokkrar mikilvægar grundvallarbreytingar á skipulagi vinnustaðanáms. Ber þar fyrst að nefna ábyrgð skóla við að koma nemanda á samning, skv. 4. gr. reglugerðarinnar. Samtökin fagna þessum breytingum enda eru þær til þess fallnar að draga úr þeirri óvissu sem oft hefur fylgt iðnnámi hér á landi. Í reglugerðardrögunum er einnig kveðið á um breytingar á lengd vinnustaðanáms. Horfið er frá fyrirfram ákveðinni tímalengd vinnustaðanámsins og þess í stað gerð krafa um að nemandi uppfylli ákveðna hæfni. Með því að leggja áherslu á hæfni nemanda en ekki tiltekinn fjölda vikna eru gerðar auknar kröfur til skóla, iðnmeistara og atvinnulífs þar sem markviss kennsla þarf að eiga sér stað hjá öllum aðilum. 

Samtök iðnaðarins lýsa yfir ánægju með þessa breytingu og telja hana til þess fallna að auka gæði vinnustaðanáms nemenda hverju sinni. Umrædd breyting er ennfremur raunhæf í dag þar sem nú á sér stað innleiðing á rafrænni ferilbók. Mikilvægt er að sú vinna klárist sem fyrst í öllum iðngreinum svo að hægt verði að vinna innan þessa nýja skipulags með hagkvæmum hætti. Í reglugerðinni eru nú tilgreindar tvær leiðir í vinnustaðanámi; annars vegar iðnmeistaraleið, sem byggir á núverandi samningsleið og hins vegar skólaleið, sem er ný. Með þessum breytingum er komið í veg fyrir óvissu nemenda sem vilja stunda iðnnám þar sem útskrift verður á ábyrgð skóla og hægt verður að grípa til ráðstafana ef nemandi kemst ekki á hefðbundinn iðnmeistarasamning. Nú þarf að eiga sér stað ákveðin endurskipulagning í kerfinu auk þess sem mynda þarf sterkari tengsl skóla og vinnustaða. 

Fyrir-mig-2

Fyrir-mig-4