Fréttasafn



8. des. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

SI fagna nýjum breytingum á byggingarreglugerð

Samtök iðnaðarins fagna nýjum breytingum á byggingarreglugerð sem samtökin hafa talað fyrir í mörg ár og hafa nú loks tekið gildi. Samtök iðnaðarins telja þessar breytingar mikið framfaraskref í bygginga- og mannvirkjaiðnaði á Íslandi.

Um er að ræða reglugerð nr. 1321/2021 sem birt hefur verið í Stjórnartíðindum og á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Helstu breytingar eru að samkvæmt nýjum kafla 1.3 flokkast mannvirki og mannvirkjagerð nú í þrjá umfangsflokka eftir eðli, umfangi og samfélagslegu mikilvægi; umfangsflokk I (geymslur, bílskúrar, sumarhús o.fl.), umfangsflokk II (flest mannvirki, s.s. einbýlishús og fjölbýlishús) og umfangsflokk III (stór fjölbýlishús, sjúkrahús, skólar, virkjanir o.þ.h.). 

Nú eru mannvirki í umfangsflokki I undanþegin byggingarleyfi, en háð byggingarheimild – sem er nýtt hugtak og felur í sér að ekki þarf að skila ábyrgðaryfirlýsingum iðnmeistara, ekki þarf hönnunarstjóra og að nægilegt er að skila séruppdráttum fyrir lokaúttekt. Enn þarf að skila ábyrgðaryfirlýsingu byggingarstjóra og ábyrgðaryfirlýsingar iðnmeistara skal vista í gæðastjórnunarkerfi byggingarstjóra. Iðnmeistarar skulu einnig geyma afrit af ábyrgðaryfirlýsingum sínum fyrir hvert verk. Byggingarstjórar annast áfram áfangaúttektir. Mannvirki í umfangsflokki II eru háð byggingarleyfi og gilda sömu kröfur um það og gerðu fyrir breytingu. Mannvirki í umfangsflokki III eru einnig háð byggingarleyfi, en með lagabreytingu verða gerðar ítarlegri kröfur um eftirlit óháðra aðila.

Ákvæði um starfsheimildir skoðunarmanna hafa verið uppfærð til að endurspegla umfangsflokkana, og sett upp á skýrari hátt, en hafa ekki breyst að öðru leyti. Þá eru stöðuskoðunum leyfisveitenda gerð betri skil en áður í reglugerðinni og ákvæði sem þær varða endurorðuð til að tengja þær við flokkun mannvirkja. Ákvæði um faggildingu leyfisveitanda er fellt á brott í samræmi við breytingu á lögum um mannvirki nr. 134/2020 og í stað þess kemur ákvæði þar sem rakið er fyrirkomulag eftirlits með mannvirkjagerð í hverjum umfangsflokki fyrir sig.

Þá hefur verið rýmkuð heimild iðnmeistara og hönnuða til að taka að sér byggingarstjórn í smærri verkum skv. 4.7.2. og verður þetta nú heimilt í öllum byggingarheimildar- og tilkynningarskyldum verkum. Auk þess hafa verið fellt brott tímamörk á skyldu byggingarstjóra til að tilkynna fyrirhugaða áfangaúttekt með minnst fjögurra klukkustunda fyrirvara. Ákvæði um tilkynningarskyld verk og verk undanþegin byggingarleyfi hafa verið sett upp á skýrari hátt en eru efnislega eins utan þess að ákvæði um palla, girðingar og skjólveggi eru sett fram á skýrari hátt auk þess sem heitir eru nú tilkynningarskyldir en voru áður byggingarleyfisskyldir. Þá verða stöðuhýsi nú skilgreind í reglugerðinni, sem lausar byggingar sem standa í meira en 4 mánuði og eru ekki tengdar lagnakerfum, og verða þau tilkynningarskyld í stað þess að vera byggingarleyfisskyld.

Hér er hægt að nálgast byggingarreglugerðina.

Á vef HMS er hægt að nálgast frekari upplýsingar um breytinguna.