Fréttasafn



6. jún. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

SI sjá ekki hvernig lækkun VSK bæti afkomu ríkissjóðs

Samtök iðnaðarins hafa sent minnisblað til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna samantektar fjármála- og efnahagsráðueytisins um umsagnir um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, o.fl.- 952 mál. Í minnisblaðinu kemur fram að SI telja ástæðu til að koma á framfæri athugasemdum við samantekt ráðuneytisins, þ.e. þann hluta er varðar endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna við nýbyggingu, endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis, og verða þær útlistaðar hér að neðan. SI mótmæla því að umrædd aðgerð muni eingöngu hafa tímabundin kælandi áhrif á húsnæðismarkaðinn. Staðan sé einfaldlega sú að markaðurinn sé nú þegar að hægja á sér og samdráttur framundan. Umrædd aðgerð muni eingöngu dýpka þann vanda. Þá beri að hafa í huga að það hafi tekið byggingarmarkaðinn mörg ár að jafna sig eftir síðustu niðursveiflu sem varð eftir efnahagshrunið. Það sé ennfremur lítið sem ekkert að sækja til fyrirtækjanna í formi hagnaðar. Þá megi jafnframt gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti af íbúðauppbyggingu muni dragast verulega saman vegna samdráttar í uppbyggingu- og viðhaldi íbúða. SI sjá því ekki hvernig umrædd aðgerð muni bæta afkomu ríkissjóðs.

Hér fyrir neðan eru athugasemdir SI:

I. Ráðuneytið bendir á að þrátt fyrir að það liggi Í hlutarins eðli að tillagan auki kostnað við framkvæmdir þá munu áhrifin á framboð og verð nýrra íbúða ráðast af aðstæðum á markaði og viðbrögðum bæði seljenda og kaupenda. 

SI taka undir þau sjónarmið að framboð og verð íbúða ráðist af aðstæðum á markaði og viðbrögðum bæði seljenda og kaupenda. Aðstæður á markaði í dag eru með þeim hætti að hækkun á kostnaði við byggingu íbúða dregur úr framboði íbúða. Samdráttur í framboði mun óhjákvæmilega hafa áhrif á íbúðaverð til hækkunar. Það eru þau áhrif sem við þessar aðstæður munu koma fram í aukinni verðbólgu og hærri vöxtum. 

II. Ráðuneytið segir að aðgerðin sé hluti af stefnumörkun stjórnvalda um aðhald í opinberum fjármálum til þess að draga úr þenslu og verðbólgu. 

SI benda á að hluti þess vanda sem nú birtist okkur í mikilli verðbólgu er framboðsskortur fullbúinna íbúða. Framboðsskortur hefur verið viðvarandi í rúman áratug, þrátt fyrir fjölgun nýrra íbúða síðustu ár, sem hefur leitt til hækkandi íbúðaverðs, sem aftur leiðir nú til aukinnar verðbólgu og hækkandi vaxta. Staðan er einfaldlega sú að ekki hefur tekist að byggja í samræmi við þörf og fyrirsjáanlega mun það ekki takast á næstu árum nema gripið sé til sérstakra aðgerða til að styðja við framboðshlið íbúðamarkaðsins. Með aðgerðum sem hækka kostnað við íbúðabyggingar auka stjórnvöld vandann. 

III. Ráðuneytið segir að þau áhrif sem byggingarkostnaður hefur á íbúðaverð, ýmist beint eða í gegnum áhrif á framboð húsnæðis, séu óveruleg í samanburði við aðra áhrifaþætti húsnæðisverðs, sérstaklega til skamms tíma litið. 

SI hafa bent á að áhrif hækkunar á vöxtum, hækkun á verði aðfanga og hækkun á launum hefur undanfarið dregið úr uppbyggingu íbúða. Eru áhrifin sjáanleg í m.a. nýlegri talningu HMS á íbúðum í byggingu sem meðfylgjandi greining fjallar um. Lækkun á endurgreiðslu VSK er kostnaðarauki sem bætist við alla þessa þætti og mun, ef af verður, draga úr framboði nýrra íbúða. Þau áhrif koma fljótt fram en þess er þegar farið að gæta að íbúðir séu að stöðvast í byggingarferlinu vegna mikilla kostnaðarhækkana. Þá kemur þessi aðgerð sérstaklega illa niður á uppbyggingaraðilum sem hafa í áætlanagerð sinni, sem hófst fyrir a.m.k. um 2-3 árum fyrir þær íbúðir sem nú eru í byggingu, gert ráð fyrir umræddri endurgreiðslu við mat á fýsileika uppbyggingarinnar. Slík hækkun á byggingarkostnaði, sem nemur um 1,2,-1,5 m.kr. á íbúð, mun draga verulega úr möguleikum fyrirtækja til að halda áfram uppbyggingu.

IV. Ráðuneytið telur mikilvægt að horfa til raunverulegrar tölfræði um stöðu byggingarframkvæmda ekki síður en þeirrar spurningakönnunar sem Sl leggur til grundvallar málflutningi sínum um þetta atriði. 

SI mótmæla því að niðurstaða spurningakönnunar meðal verktaka sem eru að byggja íbúðir í eigin reikning sé ekki raunveruleg tölfræði. Niðurstöður spurningakannana eru víða notaðar í stefnumótun og áætlanagerð, m.a. á sviði hagstjórnar hér á landi. Niðurstöður spurningakönnunar SI eru ennfremur staðfestar í niðurstöðum nýbirtrar talningar HMS á íbúðum í byggingu sem fjallað er um í meðfylgjandi greiningu. Þar sést glögglega að íbúðir eru að stöðvast í byggingarferlinu og að framundan er umtalsverður samdráttur í fjölda fullbúinna íbúða. 

V. Ráðuneytið segir að mikil þensla sé í byggingariðnaði á alla helstu mælikvarða. 

SI benda á að þarna er ráðuneytið að vísa til talna um heildarumsvif greinarinnar sem fæst við margt annað en íbúðabyggingar, s.s. innviðauppbyggingu fyrir hið opinbera og uppbyggingu atvinnuhúsnæðis. Tölurnar eru því ekki einhlítur mælikvarði á umsvif í íbúðabyggingum. Hvað varðar íbúðabyggingar hefur byggingariðnaður og mannvirkjagerð svarað ákalli um aukna uppbyggingu íbúða með því að ráðast í meiri framkvæmdir á því sviði. Niðurstaðan er sú að íbúðauppbygging hefur verið nær þörf fólksins í landinu undanfarið en var hér lengi eftir efnahagsáfallið 2008. Þetta svar iðnaðarins við ákalli fólks og stjórnvalda í landinu um aukna íbúðaruppbyggingu hefur útheimt talsverða uppbyggingu á framleiðslugetu greinarinnar á síðustu árum. Nú eru hins vegar skýr merki um að það sé að hægja hratt á vexti greinarinnar og að framundan sé samdráttur í uppbyggingu íbúða. Aðgerðir í hagstjórn þurfa að vera framsýnar og telja SI að lækkun á VSK endurgreiðslunni þurfi sérstaklega að skoða í ljósi þess ástands sem sú aðgerð muni skapa á íbúðamarkaðinum á næstu misserum. Framundan er verulegur samdráttur í framboði nýrra íbúða skv. spá HMS og er það mat SI að stjórnvöld þurfi að bregðast við því þannig að sú spá verði ekki að veruleika. Tækifærið er núna en ekki þegar skaðinn er skeður. 

VI. Ráðuneytið segir að aldrei hafa verið fleiri íbúðir í byggingu en í vor samkvæmt nýbirtum tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. 

Vill SI benda á að ráðuneytið velur að sleppa þarna því sem fram kemur í mati HMS að verulegur fjöldi þeirra íbúða sem nú eru í talningu HMS hafa stöðvast í uppbyggingarferlinu. Er það mikið áhyggjuefni að mati SI og mun lækkun endurgreiðsluhlutfalls VSK einungis auka þann framboðsvanda sem þetta mun valda á næstu misserum á íbúðamarkaði. Fjallað er um þann framboðsvanda í meðfylgjandi greiningu þar sem ljóst er að á næstunni verði bæði talsverður samdráttur í fullbúnum íbúðum og byggt undir áætlaðri íbúðaþörf. 

VII. Ráðuneytið fór fram við upphaf þessa máls með að arðsemi í byggingariðnaði hefði aukist verulega undanfarin ár. 

SI hefur hrakið það að álagning í greininni og þar með arðsemi hafi aukist mikið síðustu ár og nýtt til þess opinber gögn Hagstofu Íslands og tölur frá Creditinfo um hagnað sem hlutfall af tekjum greinarinnar. Nú kýs ráðuneytið að skipta um mælikvarða í þessari rökræðu og í stað þess að tala um álagningu er það farið að falla um arðsemi eigin fjár greinarinnar. SI vilja benda á að umræðan snýst um hvaða áhrif kostnaðarverðshækkanir á borð við að lækka endurgreiðslu VSK hefur á þann hagnað sem greinin hefur af því að byggja og selja íbúðir. Slíkt helgast eðlilega af muninum á kostnaði og verði íbúða, þ.e. hagnaði sem hlutfalli af veltu en ekki arðsemi eigin fjár. Niðurstöðurnar eru þær að hagnaður greinarinnar sem hlutfall af tekjum er ekki hár og hefur verið að lækka sökum mikilla kostnaðarverðshækkana. Hefur þessi þróun haft þær afleiðingar, sem lýst er í meðfylgjandi greiningu, að framundan er samdráttur í fjölda fullbúinna íbúða og sýnt er að byggt verður umtalsvert undir þörf.

VIII. Ráðuneytið segir að byggingarstarfsemi hafi búið við sérstakar ytri aðstæður og ákveðið ójafnvægi mörg undanfarin ár. Segir ráðuneytið að það birtist t.d. Í skorti á aðföngum og lóðum, umframeftirspurn eftir íbúðum og mjög miklum verðhækkunum á nýjum og notuðum íbúðum. Bætir ráðuneytið við og segir að líkur séu á að atvinnugreinin muni áfram búa við mikla eftirspurn vegna húsnæðisskorts. 

SI furðar sig á því að í ljósi þessarar niðurstöðu ráðuneytisins skuli það telja til bóta að lækka endurgreiðsluhlutfall VSK og hækka þannig kostnað við íbúðabyggingar, draga úr íbúðabyggingum og skapa enn meiri framboðsvanda en nú er fyrirséð að verði á íbúðamarkaði á næstunni. 

IX. Ráðuneytið segir að markmið tillögunnar sé að hægja á vexti heildareftirspurnar í hagkerfinu og hafa þannig tímabundið kælandi áhrif á verðbólguþrýsting og verðbólguvæntingar og ná niður verðbólgu. Þá segir ráðuneytið að þau áhrif eigi sér ekki endilega stað beint í byggingarstarfseminni sjálfri heldur geta þau komið alfarið eða a.m.k. að hluta til fram í hagnaði í greininni og þeirri eftirspurn sem rekja má til hans. Með lækkun endurgreiðslunnar er ríkið að taka meira til sín af veltu greinarinnar og bæta afkomu sína.

Samtökin vísa að mestu til framangreindrar umfjöllunar hvað þessa fullyrðingu varðar. Því til viðbótar mótmæla SI því sérstaklega að umrædd aðgerð muni eingöngu hafa tímabundin kælandi áhrif á húsnæðismarkaðinn. Staðan er einfaldlega sú að markaðurinn er nú þegar að hægja á sér og samdráttur framundan. Umrædd aðgerð mun eingöngu dýpka þann vanda. Þá ber að hafa í huga að það tók byggingarmarkaðinn mörg ár að jafna sig eftir síðustu niðursveiflu sem varð eftir efnahagshrunið. Það er ennfremur lítið sem ekkert að sækja til fyrirtækjanna í formi hagnaðar, sbr. fyrrgreind umfjöllun. Þá má jafnframt gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti af íbúðauppbyggingu muni dragast verulega saman vegna samdráttar í uppbyggingu- og viðhaldi íbúða. SI sjá því ekki hvernig umrædd aðgerð muni bæta afkomu ríkissjóðs.

Á vef Alþingis er hægt að nálgast minnisblaðið.


Innherji, 6. júní 2023.