Fréttasafn12. apr. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Menntun Nýsköpun Orka og umhverfi Starfsumhverfi

SI telja að gera þurfi meira en felst í fjármálaáætlun

Í umsögn SI um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026 lýsa samtökin ánægju sinni með að fjármálum hins opinbera sé markvisst beitt til að tryggja stöðugleika og skapa grundvöll fyrir efnahagsbata. Samtökin eru einnig ánægð með að áherslan sé á menntun, nýsköpun, efnislega innviði og starfsumhverfi. Með umbótum á þessum sviðum eykst framleiðni sem leiðir til aukinnar hagsældar. En hins vegar telja samtökin ljóst að hið opinbera þarf að gera meira en felst í fjármálaáætluninni ef nægan hagvöxt á að skapa á tíma áætlunarinnar til að ná atvinnuleysinu niður á ásættanlegt stig. Í þjóðhagsspá Hagstofunnar sem lögð er til grundvallar fjármálaáætlun er reiknað með 3,4% hagvexti að meðaltali á ári á tímabili áætlunarinnar og að atvinnuleysi fari niður í tæplega 4,5%. Ljóst er að um ½-1 prósentustigi meiri árlegan hagvöxt þarf á tímabilinu til þess að ná atvinnuleysinu niður í ásættanlegt stig, þ.e. 3-3,5%. Í umsögninni segir að miklu máli skipti að ákvarðanir stjórnvalda leiði til umbóta á Íslandi, bæði fyrir fólk og fyrirtæki og Samtök iðnaðarins vilji leggja sitt af mörkum í þeim efnum. Í umsögninni eru 33 tillögur um hvernig verði hægt að slíta fjötrana, hlaupa hraðar og sækja tækifærin líkt og kemur fram í nýlegri skýrslu samtakanna Hlaupum hraðar.

Leið vaxtar er farsælust

Í umsögninni kemur fram að það sé mat Samtaka iðnaðarins að efnahagsleg markmið á tíma fjármálaáætlunarinnar ættu að vera að skapa með sjálfbærum hætti nægan hagvöxt til að vinna bug á atvinnuleysi og auka efnahagsleg lífsgæði þjóðarinnar. Efnahagslegur styrkur sé undirstaða þess að treysta megi velsæld og lífsgæði til framtíðar. Leið vaxtar – að veita atvinnulífinu svigrúm til að skapa aukin verðmæti og ný og eftirsótt störf – sé farsælasta leiðin út úr núverandi efnahagsvanda. Með vexti efnahagslífsins megi tryggja sjálfbærni í opinberum fjármálum – stöðva skuldasöfnun hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu eigi síðar en 2025 líkt og rætt er um í fjármálaáætluninni - og renna þannig stoðum undir trúverðugleika opinberra fjármála til að takast á við hagstjórnarverkefni framtíðarinnar. Samtök iðnaðarins taka undir og hvetja stjórnvöld áfram á þeirri braut sem kemur fram í þingsályktuninni um að bein erlend fjárfesting geti leikið lykilhlutverk við hraðan vöxt í nýjum greinum þar sem þekking flyst milli landa. Í umsögninni segir að stjórnvöld mættu þá einkum huga að því að gefa skýrt til kynna áhuga sinn á beinni erlendri fjárfestingu og uppbyggingu nýs iðnaðar annars vegar og hins vegar að vinna að nauðsynlegum umbótum til að ryðja hindrunum úr vegi fyrir slíkri uppbyggingu.

Mótmæla hækkun á gjöldum

Í umsögninni kemur fram að SI gagnrýna áform hins opinbera um hækkun krónutölugjalda á olíugjaldi, bensíngjaldi, kílómetragjaldi, bifreiðagjaldi og áfengis- og tóbaksgjaldi. Síðustu ár hafi þessi gjöld hækkað árlega um 2,5% sem hafi komið mjög niður á íslenskum framleiðendum og neytendum. Í umsögninni segir að stjórnvöld ættu öðru fremur að draga úr hömlum og álögum á þessum tímapunkti til að styrkja íslenskt atvinnulíf sem skilar sér síðan í aukinni hagsæld. Leggja samtökin því til að hækkun áðurnefndra gjalda verði dregin til baka.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.