Fréttasafn



18. maí 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

SI telja ástæðu til að stíga stórt skref í lækkun stýrivaxta

Í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins kemur fram að samtökin telja að full ástæða sé fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans að stíga stórt skref í lækkun stýrivaxta við næstu vaxtaákvörðun sem kynnt verður 20. maí nk. Það er mat samtakanna að þörf sé á a.m.k. 0,5 prósentustiga lækkun. Hagvaxtarhorfur hafa versnað umtalsvert á mjög skömmum tíma vegna COVID-19 veirunnar. Útlit er fyrir mesta samdrátt í íslensku efnahagslífi á þessu ári sem um getur frá stofnun lýðveldisins. Verðbólga og verðbólguvæntingar hafa haldist við 2,5% markmið bankans þrátt fyrir áfallið og gefur það Seðlabankanum svigrúm til að lækka vexti til þess að draga úr dýpt efnahagslægðarinnar og hjálpa fyrirtækjum og heimilum að takast á við þær erfiðu aðstæður sem nú eru.

Verdbolga-og-styrivextir_1589799545203

Seðlabankinn hefur lækkað vexti um 0,5 prósentur síðan í febrúar á þessu ári sem viðbrögð við versnandi efnahagshorfum. Meginvextir Seðlabankans eru nú 1,75% og er nægt svigrúm til að lækka þá frekar að mati SI. Staða Íslands er sérstök hvað þetta varðar m.v. flest önnur lönd en þar eru stýrivextir mun lægri. Meira svigrúm er því hér til að beita þessu stýritæki nú en víðast hvar. Skiptir miklu máli við þessar aðstæður að peningastefnunefnd Seðlabankans lækki stýrivexti bankans nægjanlega hratt og mikið en með því er sem mest dregið úr dýpt og lengd efnahagsdýfunnar.

Telja samtökin að dýpt niðursveiflunnar og hversu kröftug viðspyrnan verður að henni lokinni velti á því hversu hratt verði brugðist við í hagstjórn. Stjórnvöld hafa stigið fram með aðgerðir sem hafa að markmiði vörn, vend og viðspyrnu fyrir hagkerfið en góð skuldastaða hins opinbera, bæði í sögulegu og alþjóðlegu tilliti, gefur svigrúm til að beita því tæki hagstjórnar af fullum þunga til að draga úr dýpt samdráttarins.

Mikilvægt er að hagstjórnaraðilar gangi í takt í aðgerðum sínum, þ.e. að Seðlabankinn fylgi hinu opinbera og aðilum vinnumarkaðarins í efnahagsaðgerðum til að stemma stigu við þessari óheillaþróun. Með samstilltu átaki má ná fram bestum árangri á þessu sviði.

Verkefnið að draga úr dýpt og lengd efnahagslægðarinnar

Efnahagshorfur hafa dökknað verulega á örskömmum tíma. Endurspeglast það í efnahagsspám en Seðlabankinn mun samhliða stýrivaxtaákvörðuninni nú birta nýja spá um efnahags- og verðbólguþróun. Síðast birti bankinn slíka spá í byrjun febrúar sl. en í byrjun apríl birti bankinn einnig sviðsmyndir af líklegri þróun þessara þátta. Hljóðaði spá Seðlabankans í byrjun ferbrúar upp á 0,8% samdrátt á árinu en sviðsmyndir bankans í byrjun apríl hljóðuðu upp á 4,0-6,9% samdrátt. Ljóst er að horfurnar eru nú mun dekkri. Í því sambandi má nefna að nokkrir aðilar hafa birt efnahagsspár núna í maí og hljóða þær upp á rétt um 9-13% samdrátt landsframleiðslu á þessu ári.

Hagvaxtarspar-fyrir-arid-2020

Merki um þessa djúpu efnahagsdýfu finnast víða í hagkerfinu um þessar mundir. Algert hrun hefur orðið í tekjum af erlendum ferðamönnum sem er mikið högg fyrir gjaldeyristekjur þjóðarbúsins. Þrátt fyrir lækkun raungengis krónunnar hafa aðrar útflutningsgreinar ekki verið að vaxa en mikill samdráttur hefur verið í hagkerfum helstu viðskiptalandanna sem komið hefur niður á spurn eftir útflutningi héðan. Á sama tíma hefur dregið verulega úr innlendir eftirspurn einkaaðila. Hefur neysla dregist saman og fjárfesting einnig, þ.e. bæði fjárfesting atvinnuvega og heimilanna.

Verg-landsframleidsla-magnbreyting-fra-fyrra-ari

Samdrátturinn hefur birst í öllum helstu greinum viðskiptahagkerfisins þ.m.t. iðnaðarins. Í nýlegri könnun sem SI létu gera meðal sinna félagsmanna kom í ljós að flestir stjórnendur iðnfyrirtækja vænta samdráttar í tekjum út allt þetta ár. Þeir voru spurðir að því hvernig þeir teldu að tekjur þeirra fyrirtækja yrðu á 2.-4. ársfjórðungi þessa árs samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. 59% sögðu að tekjur muni dragast saman á 2. fjórðungi en ekki nema 11% að þær muni aukast á þeim fjórðungi. Myndin verður aðeins bjartari eftir því sem líður á árið en segja má að það sé eftirtektarvert hvað það er lítið en 56% vænta samdráttar á 3. ársfjórðungi og 53% á 4. fjórðungi. Á móti reikna 15% með aukningu tekna á 3. og 4. ársfjórðungi frá sama ársfjórðungi í fyrra.

Hratt vaxandi atvinnuleysi er ein af dekkstu birtingarmyndum versnandi efnahagsástands. Í apríl voru ríflega 59 þúsund manns atvinnulausir eða á hlutabótum eða 17,8% vinnuaflins. Flestir eru í minnkuðu starfshlutfalli en almennt atvinnuleysi var 7,5% í mánuðinum samanborið við 3,7% í sama mánuði í fyrra og 2,3% í apríl 2018. Þjóðhagsspár sem birtar hafa verið í þessum mánuði hljóða upp á að atvinnuleysi verði 9-11% að jafnaði á þessu ári. Mjög mikilvægt er að skapa störf til að draga úr þessari neikvæðu stöðu vinnumarkaðarins. Lækkun stýrivaxta Seðlabankans og aðgerðir í opinberum fjármálum sem miða að því að skapa viðspyrnu fyrir hagkerfið eru afar mikilvægur þáttur í því.

Atvinnuleysi-spar

Verðbólga og verðbólguvæntingar við markmið

Ólíkt því sem átt hefur sér stað í flestum niðursveiflum hér á landi hefur verðbólga haldist lág. Verðbólgan er nú 2,2% og undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Verðbólguvæntingar hafa einnig haldist lágar. Má í því sambandi nefna að í könnun meðal aðila á fjármálamarkaði sem Seðlabankinn lét gera 4.-6. maí sl. kemur fram að þessir aðilar vænta þess að verðbólgan verði rétt undir markmiði bankans út þetta ár. Verðbólguvæntingar til lengri tíma eru 2,5% og nánast óbreyttar frá síðustu könnun sem gerð var í janúar sl.

Í verðbólguþróun og horfum vegast á nokkrir kraftar sem toga í ólíkar áttir. Gengislækkun krónunnar undanfarið þrýstir verðbólgunni upp en á móti vegur lítil sem engin innflutt verðbólga, lækkun á hrávöruverði og lítill sem enginn eftirspurnarþrýstingur vegna ört vaxandi slaka í hagkerfinu.

Áhugavert er að í ofangreindri könnun meðal aðila á fjármálamarkaði telur meirihluti svaranda að taumhald peningastefnunnar sé of þétt um þessar mundir, þ.e. að það þurfi að lækka stýrivexti frekar. Það er í takti við skoðun SI. Reikna svarendur könnunarinnar með því að meginvextir bankans lækki um 0,5 prósentur á öðrum fjórðungi þessa árs, þ.e. niður í 1,25%. Búast þessir aðilar við frekari lækkun þegar líður á árið.    

Hér er hægt að nálgast greininguna.