Fréttasafn18. jún. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Skapa þarf 60 þúsund ný störf fram til 2050

Í Markaðnum er sagt frá nýju tímariti Samtaka iðnaðarins um nýsköpun þar sem meðal annars kemur fram í grein Ingólfs Bender, aðalhagfræðings Samtaka iðnaðarins, að skapa þurfi 60 þúsund ný störf fram til ársins 2050 til að mæta væntri fjölgun fólks á vinnubærum aldri og til að vinda ofan af því atvinnuleysi sem er á íslenskum vinnumarkaði. Þetta séu tvö þúsund störf á hverju ári. Verkefnið er „á engan hátt óyfirstíganlegt,“ segir hann og nefnir að á undanförnum þremur áratugum hafi fjöldi starfandi hérlendis aukist um 67 þúsund og hagvöxtur hafi að jafnaði verið 2,7%. „Ljóst er að menntun, nýsköpun, starfsumhverfi og innviðir munu leika lykilhlutverk í því hversu vel tekst til í þessari þróun.“ 

Ingólfur segir einnig í greininni að reikna megi með að 140 þúsund manns bætist við vinnuaflið hér á landi til ársins 2050. Um sé að ræða nýjar kynslóðir og innflutt vinnuafl. Á sama tíma munu um 95 þúsund fara af vinnumarkaði, aðallega vegna öldrunar. Munurinn sé 45 þúsund og er það sá fjöldi starfa sem fjölga þurfi á vinnumarkaði á þessum tíma. „Reiknað er með því að atvinnuleysi verði að jafnaði um 10% í ár, sem telst mjög mikið. Markmiðið ætti að vera undir 3%, en það merkir að skapa þarf 15 þúsund störf til viðbótar við þau 45 þúsund sem hér eru nefnd að framan.“ 

Nýsköpun eina leiðin fram á við

Þá er sagt í Markaðnum frá grein Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, sem segir að fram undan sé tímabil lítils hagvaxtar verði ekkert að gert. „Auðlindir landsins munu áfram verða uppspretta verðmætasköpunar, eins og verið hefur um aldir, en vöxturinn þarf að koma með því að virkja hugmyndaauðgi landsmanna sem eru engin takmörk sett. Þess vegna er nýsköpun ekki ein af leiðunum fram á við, heldur eina leiðin.“ Sigurður segir í greininni að hér á landi hafi orðið stórstígar framfarir á ytri umgjörð nýsköpunar undanfarinn áratug eða svo. „Halda þarf áfram á þeirri braut, enda er hugvitið án landamæra og mikil samkeppni ríkir milli landa um það hvar það er virkjað í þágu verðmætasköpunar og nýrra starfa. Þessir stórauknu hvatar til nýsköpunar geta skilað því að hér verði til þrjú til fimm fyrirtæki á borð við Marel, Össur og CCP á hverjum áratug, í stað eins eða einskis. Þannig er hugvitið virkjað á markvissan hátt til að skapa enn frekari verðmæti og störf sem leggja grunn að auknum lífsgæðum landsmanna og meiri stöðugleika í efnahagslífinu til langrar framtíðar.“ 

Einnig kemur fram í grein Sigurður að bankar og þolinmóðir fjárfestar gegni veigamiklu hlutverki við vöxt fyrirtækja. „Bankar studdu vel við vöxt fyrirtækja á borð við Marel og Össur og eiga sinn þátt í því að þau og fleiri nýsköpunarfyrirtæki hafa náð langt. Bankarnir voru hluthafar, lánveitendur og veittu ráðgjöf við ytri vöxt fyrirtækjanna á sínum tíma. Þannig tóku þessi fyrirtæki yfir önnur og jafnvel stærri erlend fyrirtæki og urðu með tímanum að þeim alþjóðlegu stórfyrirtækjum á sínu sviði sem raun ber vitni. Síðastliðinn áratug hefur þróunin verið önnur. Frambærileg fyrirtæki hafa verið keypt af erlendum fjárfestum og starfsemin gjarnan flust út. Á næsta áratug sjá bankarnir vonandi tækifæri í því að knýja vöxt fyrirtækja þannig að úr nýsköpun verði til nokkur öflug nýsköpunarfyrirtæki á áratug hér á landi.“ 

Skýr vilji stjórnvalda til að bæta samkeppnishæfni

Í frétt Markaðarins er einnig vitnað til orða Árna Sigurjónssonar, formanns Samtaka iðnaðarins, sem segir í tímaritinu að hækkun á hlutfalli og hámarksfjárhæð endurgreiðslu rannsókna- og þróunarkostnaðar, hækkun skattaafsláttar til einstaklinga vegna fjárfestinga í sprotafyrirtækjum og auknar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í sjóðum sem fjárfesta eingöngu í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, séu merki um skýran vilja stjórnvalda til að bæta samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 17. júní 2020.

Frettabladid-17-06-2020