Fréttasafn20. maí 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Skapa þarf ný verðmæti

Með auknum stuðningi við nýsköpun tóku þingmenn í síðustu viku risastökk í átt að bjartari tímum aukinnar velmegunar. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, í grein sinni í Markaðnum í dag með yfirskriftinni Sókn nýsköpunar er hafin. Hún segir að við stöndum nú frammi fyrir stóru og krefjandi verkefni sem sé að skapa tugi þúsunda nýrra starfa og spyr hvernig við förum að því? „Svarið liggur í því að skapa ný verðmæti.“ 

Hún segir að nýsköpunar sé þörf alls staðar, í öllum atvinnugreinum, á öllum tímum og að án hennar staðnar hagkerfið. „Við höfum verið rækilega minnt á það síðustu vikur að fjölbreytt og öflugt atvinnulíf er grundvöllur öflugs velferðarsamfélags. Með nýsköpun verða til aukin verðmæti úr takmörkuðum auðlindum. Á sama tíma skapast ný verðmæti úr hugvitinu einu saman. Nýsköpun rennir þannig styrkari stoðum undir atvinnuuppbyggingu, ýtir undir framþróun í rótgrónum atvinnugreinum og byggir upp nýjar greinar.“

Fjárfest í framtíðinni

Sigríður segir að ný störf verði ekki til nema með því að skapa forsendur fyrir aukinni verðmætasköpun. Með breytingunum á Alþingi í síðustu viku hækki endurgreiðsluhlutfall rannsókna- og þróunarkostnaðar úr 20% í 35%. Þá hækki þak endurgreiðslu úr 600 milljónum króna í 1.100 milljónir króna. Með fjáraukalögum hafi framlög til nýs fjárfestingarsjóðs hins opinbera, Kríu, einnig hækkað og heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í nýsköpunarsjóðum rýmkaðar. Þá hafi skattfrádráttur einstaklinga vegna fjárfestinga í sprotafyrirtækjum verið aukinnúr 50% af 10 milljón króna fjárfestingu í 75% af 15 milljónum króna. Framlög til Tækniþróunarsjóðs hafi einnig nýlega verið aukin um 700 milljónir og 300 milljónum til viðbótar veittar í Nýsköpunarsjóð námsmanna. Með þessum heildstæðu aðgerðum hafi verið tekin ákvörðun um að fjárfesta í framtíðinni.

Fjármögnunarumhverfi nýsköpunar tekur stakkaskiptum

Þá segir Sigríður í greininni að til þess að tryggja kröftuga viðspyrnu efnahagslífsins þurfi að taka úthugsaðar ákvarðanir í dag með sókn í huga og skýra framtíðarsýn að leiðarljósi. Púslið hafi tekið á sig mynd. Nú þegar fjármögnunarumhverfi nýsköpunar sé að taka stakkaskiptum sé því vert að huga að öðrum samliggjandi þáttum. Í niðurlagi greinarinnar segir hún að sóknin felist í nýsköpun og virkjun hugvitsins, sem sé ótakmörkuð auðlind. Tækifærin séu endalaus og að Alþingi hafi með breytingum á umgjörð nýsköpunar markað brautina. Nú þurf að halda vegferðinni áfram. Sókn nýsköpunar sé hafin.

Hér er hægt að lesa grein Sigríðar í heild sinni.