Fréttasafn4. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Skattalegir hvatar og mælaborð fyrir nýsköpun

Klappir grænar lausnir hf. er íslenskt almenningshlutafélag sem þróar snjalllausnir í umhverfis - og loftslagsmálum. Félagið hefur yfir 300 íslenska hluthafa, en var stofnað árið 2014 og síðan skráð á First North markað Nasdaq á Íslandi árið 2017. Þá varð SVANA HELEN BJÖRNSDÓTTIR fyrst hluthafi, en sjálf stofnaði hún hugbúnaðarfyrirtækið Stika ehf. árið 1992. Stiki og Klappir runnu saman í eitt félag fyrir rúmu ári síðan.

Til að nýsköpun geti talist ábyrg og leiði til góðs þurfa að fara saman verkvit, hugvit og siðvit. Siðvitið má ekki vanta.

 

„Samruninn við Klappir grænar lausnir hf. var rökrétt skref eftir margra mánaða samstarf fyrirtækjanna við þróun á hugbúnaði til að meta fjármálaeignir með tilliti til umhverfisþátta, samfélagslegra þátta og stjórnunarlegra þátta – það sem á ensku er kallað ESG, eða Environmental, Social and Governance þættir,“ segir Svana. Lögaðilar sem nota hugbúnað Klappa eru um 350 talsins og þar af eru um 300 innlendir aðilar. Líkt og áður segir er um að ræða hugbúnaðarfyrirtæki sem hefur það að meginmarkmiði að þróa snjalllausnir í umhverfis - og loftslagsmálum. „Upphaflega var tilgangurinn sá að stuðla að því að ríki geti uppfyllt Parísarsamkomulagið um losun gróðurhúsalofttegunda en síðan hafa lausnirnar verið þróaðar nær kröfum um grænt bókhald,“ útskýrir hún. 

Stafræn tækni forsenda árangurs í loftslagsmálum 

Snjalllausnir Klappa styðja við aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og stafrænt Ísland á mörgum sviðum. Lausnirnar hafa verið þróaðar á undanförnum sex til tíu árum og mynda einstaka samverkandi heildarlausn á sviði umhverfismála á Íslandi. „Með hugbúnaði Klappa má lágmarka vistspor, tryggja fylgni við umhverfislöggjöf hverju sinni, og sýna fram á árangurinn – á sama tíma og dregið er úr rekstrarkostnaði. Snjalllausnir Klappa henta ólíkum aðilum, fyrirtækjum, opinberum aðilum og heilum ríkjum – hvar í heiminum sem er,“ segir Svana. 

Klappir líta á uppbyggingu á stafrænni tækni sem eina af mikilvægustu forsendum þess að árangur náist í umhverfis- og loftslagsmálum. „Þetta er í raun mjög brýnt innviðamál. Segja má að hér sé verið að þræða áherslur umhverfis - og loftslagsmála inn í allt atvinnulíf á Íslandi, auk þess sem umhverfisvitund allra í samfélagi okkar er vakin og efld. Þetta skapar einstök verðmæti fyrir íslenskt samfélag.“ 

Svana segir að þær áskoranir sem staðið hafi verið frammi fyrir í rekstrinum í upphafi hafi verið nokkrar. „Til dæmis að finna fjármagn til að kosta hugbúnaðarþróunina og ekki síður að ná að tengja saman aðila og fá í gang rafrænt upplýsingastreymi frá gagnalindum yfir í hugbúnaðarkerfi Klappa. Þær upplýsingar eru t.d. um notkun raforku, vatns, eldsneytis, flugferða og skipaferða – og upplýsingar um magn og flokkun úrgangs og sorps,“ segir hún. 

Allar þessar upplýsingar eru svo umreiknaðar í losun koltvísýrings og markmiðið að hver aðili kolefnisjafni sem best hann getur. Svana brennur fyrir verkefninu; finnst mikilvægt að samfélagið vinni saman að því að breyta lífsháttum okkar og venjum í átt að meiri sjálfbærni. 

„Til þess þurfum við nýja hugsun og nýjar lausnir sem tryggja okkur okkur áfram sömu lífsgæði og við höfum haft – samhliða því að við förum betur með auðlindir jarðarinnar. Til að nýsköpun geti talist ábyrg og leiði til góðs þurfa að fara saman verkvit, hugvit og siðvit. Siðvitið má ekki vanta. Vonandi tekst okkur, núlifendum, að skila jörðinni í betra ástandi til komandi kynslóða.“ 

SvanaHelenStiki_806A6000

Þurfum að geta tekið afstöðu með umhverfinu 

Umhverfið í nýsköpun er Svönu einnig hugleikið. Hún segir margt vel gert en margt megi bæta verulega. „Gott er að nýsköpunarfyrirtæki geta nú fengið hluta af rannsóknarog þróunarkostnaði endurgreiddan. En það er vegið að samkeppnissjóðunum og það boðar ekki gott. Við þurfum að gefa almenningi kost á að taka afstöðu með umhverfinu, til dæmis með fjárfestingum í grænni nýsköpun og beita til þess skattalegum hvötum.“ 

Svana segir að til að nýsköpun sé skiljanleg venjulegu fólki þurfi að koma upp mælaborði nýsköpunar. Um það er nú rætt í Vísinda - og tækniráði og hún vonar að stjórnvöld samþykki að hrinda slíkri aðgerð í framkvæmd, þannig væri vistkerfi nýsköpunar eflt og samhæft með markvissum aðgerðum sem byggja á réttum upplýsingum. Ekki ólíkt því sem gert hefur verið í ferðaþjónustu. 

Skýrari stefnu fyrir frumkvöðla 

„Mælaborð nýsköpunar yrði ekki aðeins skilvirkt verkfæri við stefnumótun stjórnvalda heldur einnig mikilvægt tæki til að miðla upplýsingum um stöðu nýsköpunar og frumkvöðlastarfs til almennings, menntastofnana og atvinnulífs. Með upplýsingum um nýsköpun á tilteknum sviðum, svo sem í umhverfisog loftslagsmálum, má styrkja umhverfisvitund almennings, stuðla að fjárfestingum og annarri þátttöku einkaaðila og almennings í grænum lausnum. Þannig má auka líkur á því að Ísland nái því takmarki sem stjórnvöld hafa sett að gera landið kolefnishlutlaust fyrir árið 2040.“ 

Mælaborð nýsköpunar byggist á upplýsingum, tölfræði og mælingum sem bornar eru saman við sett markmið um stöðu einstakra áhrifaþátta á vistkerfi nýsköpunar og birtir upplýsingar um þróun þeirra. Meðal þeirra þátta, sem birta mætti í Mælaborði nýsköpunar að mati Svönu eru alþjóðavæðing íslenskra fyrirtækja, aðgengi að mörkuðum, tölfræði um hugarfar gagnvart nýsköpun og skattalegir hvatar. „Til viðbótar má nefna tölur um fjárfestingu í nýsköpun, þ.m.t. rannsóknir og þróun, stöðu Íslands á alþjóðlegum mælikvörðum um samkeppnishæfni, samfélagslega innviði, stafræna innviði, menntun og hæfni, stuðning við viðskiptaþróun og vöxt, hæfni til að innleiða nýsköpun, mannauð, þekkingu á stjórnun, tækniþekkingu, nýsköpunarhæfni, aðgengi að fjármögnun, útgöngumöguleika, áhættufjármagn, opinbera fjármögnun og sjóði, samstarf háskóla og atvinnulífs, hagnýtingu rannsókna og verðmætasköpun,“ segir Svana og bætir við að meta þurfi bæði efnislega og óefnislega verðmætasköpun, til að mynda kolefnisspor og -jöfnun. 

Heimur nýsköpunar 

Svana hefur í mörg ár lifað og hrærst í heimi nýsköpunar og kynnst þar af eigin raun mikilvægu samspili áhættugreiningar og góðrar ákvarðanatöku. Viðskiptaþróun Stika leiddi hana út í rannsóknir á aðferðafræði við áhættugreiningu, sem hefur verið hugðarefni Svönu um langt skeið. Hún færði sig nýverið til verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík þar sem henni gefst tækifæri til að dýpka þekkingu sína á áhættugreiningu enn frekar. „Mitt fyrsta verk þar verður að ljúka við doktorsritgerð í kerfisverkfræði og áhættugreiningu, sem ég hef unnið að frá 2014. Rannsóknarefni mitt er samanburður á virkni mismunandi aðferða við áhættugreiningu hjá sex innlendum fyrirtækjum og stofnunum – og rannsókn á gagnsemi ISO -staðla í því efni. Ég stefni að því að ljúka doktorsrannsókn minni í lok ársins.“

Við þurfum að gefa almenningi kost á að taka afstöðu með umhverfinu, til dæmis með fjárfestingum í grænni nýsköpun og beita til þess skattalegum hvötum.

Mikilvægt að kunna að njóta lærdómsins

Svana ráðleggur þeim frumkvöðlum sem eru að stíga sín fyrstu skref að hafa úthald og bjartsýni að vopni, en leita ráða og taka ekki meiri fjárhagslega áhættu en fólk ræður við. 

• Að starfa sem frumkvöðull er löng vegferð sem krefst mikils úthalds, best er að búa sig undir það strax. 

• Enginn stekkur lengra en hann ætlar sér. Því þarf frumkvöðull að setja markið hátt en vera þó um leið meðvitaður um áhættuna sem tekin er. 

• Taka ekki meiri fjárhagslega áhættu en fólk ræður við. 

• Leita ráða hjá reyndu fólki. 

• Leita til fagfjárfesta með skilning á markaði, tækni og/eða vöruþróun, sem eru tilbúnir að leggja fram fé og sýna jafnframt þolinmæði. 

• Hafa bjartsýni að leiðarljósi. 

• Vera óhrædd(ur) og kunna að njóta þeirrar vegferðar sem starf frumkvöðulsins er. Kunna að njóta lærdómsins og þekkingarinnar sem ávinnst, og samskipta við ólíkt fólk. 

• Gleðjast yfir litlum sigrum og stórum.

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_