Fréttasafn



11. jan. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Skerða á samkeppnishæfni Íslands á sviði kvikmyndagerðar

Þessar breytingar munu bæði flækja endurgreiðslukerfið og leiða til breytinga á rekstri stærri framleiðslufyrirtækja sem hafa lagt kapp á að ráða starfsfólk og innhýsa verkefni. Mun þetta knýja fyrirtæki til að útvista í auknum mæli þeirri þjónustu sem þau þurfa á að halda til að framleiða kvikmyndaverk. Minnkar hvati til að fastráða starfsfólk enda fyrirséð að kostnaður sem hlýst af því starfsfólki fæst ekki reiknaður inn í stofn til endurgreiðslu. Þetta kemur meðal annars fram í umsögn Samtaka iðnaðarins og Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) um áform um breytingar á lögum nr. 43/1999 um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. 

Skora á ráðuneytið að draga breytingar til baka

Í umsögninni kemur fram að samtökin fagni því að framlengja eigi lög um endurgreiðslur til kvikmyndagerðar fram til ársins 2025 en í öðrum meginatriðum telja samtökin breytingatillögurnar í umræddum áformum til þess fallnar að skerða samkeppnishæfni Íslands á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar og leggjast gegn hluta þeirra. Samtökin lýsa yfir vonbrigðum með að ekkert samráð var haft við fulltrúa SI og SÍK við gerð frumvarpsins og skora á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að draga umræddar breytingar á fyrirkomulagi endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar til baka og eiga samráð við kvikmyndagreinina um útfærslu á breytingum. 

Endurgreiðslur byggi á skilvirku og einföldu kerfi

Í umsögninni segir jafnframt að samtökin leggi áherslu á að endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi, sem hafi margsannað gildi sitt, byggi á skilvirku og einföldu kerfi. Samtökin taki undir mikilvægi þess að bæta eftirlit með lögunum en telji þó að ávallt þurfi að gæta meðalhófs sem feli í sér að stjórnvöld eigi að velja vægustu leið að því markmiði sem stefnt sé að. Breytingatillögur frumvarpsdraganna geti haft verulega neikvæð áhrif á kvikmyndaframleiðslu og eru til þess fallnar að draga úr samkeppnishæfni íslensks kvikmyndaiðnaðar. Þá segir að hafa verði í huga að kostnaður við laun og aðföng sé hár hér á landi í alþjóðlegum samanburði og með því að þrengja að skilgreiningu á hvað falli undir endurgreiðslu megi færa rök fyrir því að kerfið hér á landi verði ósamkeppnishæft. 

Veikja kvikmyndaiðnað á sama tíma og atvinnuleysi er í sögulegum hæðum

Þá gera samtökin alvarlegar athugasemdir við að ekkert mat virðist hafa verið lagt á áhrif þessarra breytingatillagna á kvikmyndaiðnaðinn nema að því leyti að það sé líklegt að einstök verkefni fái lægri endurgreiðslur. Í umsögninni segir að slíkt mat sé ófullnægjandi þegar svo viðamiklar breytingar séu lagðar til. Þá benda samtökin á að það skjóti skökku við að veikja kvikmyndaiðnað á Íslandi á sama tíma og atvinnuleysi er í sögulegum hæðum. Hvatarnir sem breytingarnar hefðu í för með sér yrðu atvinnuletjandi á tímum þar sem brýnt sé að fjölga störfum. Þvert á móti telji samtökin skynsamlegt að skoða tímabundna hækkun á endurgreiðsluhlutfalli til að skapa störf og útflutningstekjur og hafa nú þegar hafið samtal við ráðuneytið þess efnis. 

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni. 

Kjarninn, 12. janúar 2020.