Skerðing á raforku kemur sér illa fyrir hagkerfið allt
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í hádegisfréttum RÚV að meginástæðu þess að útflutningstekjur iðnaðar á Íslandi hafi dregist saman um 7% á fyrstu fjórum mánuðum ársins og um 10% milli áranna 2022 og 2023 líkt og kemur fram í nýrri greiningu SI vera samdrátt í orkusæknum iðnaði, svo sem álverum, kísilverum og gagnaverum. Útflutningstekjur þar hafi dregist saman og tvennt komi til. „Annars vegar er það verðþróun afurða sem var á síðasta ári ekki hagfelld fyrir greinina. Og síðan kemur til viðbótar þessi skerðing af hálfu Landsvirkjunar sem kemur sér afskaplega illa við starfsemi þessara fyrirtækja og í leiðinni við hagkerfið allt.“
Ingólfur segir jafnframt í frétt RÚV: „Við höfum ekki verið að byggja upp okkar orkuframleiðslu með þeim hætti sem þyrfti að gera til þess að styðja við áframhaldandi vöxt í þessari starfsemi og þá útflutningstekjum landsmanna.“ Hann segir að minni útflutningstekjur af áli og kísiljárni valda samdrætti í útflutningstekjum iðnaðar á Íslandi og skerðing á afhendingu raforku frá Landsvirkjun komi sér afskaplega illa fyrir starfsemi orkusækinna fyrirtækja og hagkerfið í heild.
Þrátt fyrir samdrátt er iðnaður sem fyrr stærsta útflutningsgrein landsins
Þá kemur fram í fréttinni að þrátt fyrir þennan samdrátt sé iðnaður sem fyrr stærsta útflutningsgrein landsins og standi undir nærri 40% af útflutningsverðmætum. Hugverkaiðnaður, til dæmis upplýsingatækni- og fjarskiptaiðnaður og lyfjaframleiðsla, sé í mestum vexti. „Okkur hefur tekist að skapa þarna skilyrði fyrir greinina til þess að vaxa og auka fjölbreytni okkar í gjaldeyrisöflun. Þarna koma til fjölmargir þættir. Ég myndi segja ef ég ætti að benda á einhvern einn þátt, sem er af hálfu hins opinbera, þá eru það þessir skattahvatar vegna rannsókna og þróunar. Þeir hafa skipt sköpum í þessari þróun.“
Hér er hægt að nálgast fréttina í heild sinni.
RÚV, 10. júní 2024.