Fréttasafn



20. ágú. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Skilaboð borgaryfirvalda bein atlaga að prentiðnaði

Í leiðara Viðskiptablaðsins er vikið að þeim fjölpósti sem borgaryfirvöld í Reykjavík hafa sent á alla íbúa borgarinnar þar sem þeir eru hvattir til að afþakka fjölpóst og stuðla þannig að minni pappírsnotkun. Þar segir meðal annars að fyrir utan tvískinnunginn að senda þessi skilaboð með fjölpósti þá sé þessi ákvörðun Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra og kollega hans, gagnrýniverð og vanhugsuð. Skilaboð borgaryfirvalda séu bein atlaga að prentiðnaði og fríblaðaútgáfu. Hægt sé að færa sterk rök fyrir því að aðgerðin sé einnig atlaga að blaðaútgáfu almennt því með skilaboðum sínum séu borgaryfirvöld að setja þann stimpil á pappírsnotkun að hún sé óumhverfisvæn. 

Grafalvarlegt að stjórnvald beini spjótum að ákveðnum atvinnugreinum

Þá segir í leiðaranum að það sé grafalvarlegt þegar stjórnvald beini spjótum sínum að ákveðnum atvinnugreinum eins og í þessu tilfelli. „Við verðum að treysta fólki til að hugsa sjálfstætt. Þeir sem vilja ekki fjölpóst eða fríblöð hafa hingað til getað merkt sína póstkassa sjálfir. Pappír hefur einhverra hluta vegna fengið á sig slæmt orð, sem er merkilegt því endurvinnsluhlutfall hans er í kringum 70% á Vesturlöndum. Pappír á Íslandi er framleiddur úr sjálfbærum evrópskum nytjaskógum en í heimsálfunni eru skógar að stækka, sem líklega er þvert á það sem margir halda. Í iðnaði losar pappírs- og prentiðnaður einna minnst af gróðurhúsalofttegundum enda byggir vinnslan að stærstum hluta á endurnýjanlegri orku. Íslenski prentiðnaðurinn er því einstaklega umhverfisvænn enda fjölmörg fyrirtæki í geiranum með Svansvottun. Meginmarkmið Svansins, sem er opinbert umhverfismerki Norðurlanda, er að draga úr umhverfisáhrifum af vörum og þjónustu í þeim tilgangi að auðvelda neytendum að velja umhverfisvænan kost. Uppfylla þarf strangar kröfur til að fá Svansvottun. Algengt sjónarmið þeirra sem vilja takmarka pappírsnotkun er að umhverfisvænna sé að nálgast upplýsingar rafrænt svona eins og að það fari engin orka í að kveikja á tölvunni eða símanum, senda tölvupóst, hlaða niður skjölum og vafra um á netinu.“ 

Í niðurlagi leiðarans segir að borgaryfirvöld eigi að upplýsa, ekki skipa. 

Viðskiptablaðið, 20. ágúst 2020.