Fréttasafn



15. jún. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Skilvirkari leið fyrir fyrirtæki í fjárhagserfiðleikum

Þau úrræði sem fyrirtækjum í vanda hafa staðið til boða hingað til að fá hefðbundna greiðslustöðvun eða fara fram á nauðasamninga, geta verið þung í vöfum og kostnaðarsöm. Nýja frumvarpið býður upp á skilvirkari leið en áður hefur þekkst hérlendis sem gefur fyrirtækjum í fjárhagserfðileikum um leið möguleika á að halda áfram starfsemi. Þetta segir Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur Samtaka iðnaðarins, í fétt Morgunblaðsins í dag þar sem Ásgeir Ingvarsson, blaðamaður, fjallar um nýtt frumvarp um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja sem er hluti af aðgerðapakka stjórnvalda og miðar að því að bjóða fyrirtækjum í tímabundnum rekstrarvanda upp á tiltölulega einfalda leið til að fá greiðsluskjól og semja við kröfuhafa um endurskipulagningu rekstrar. Björg segir að þótt frumvarp um fjárhagslega endurskipulagningu sé hugsað sem tímabundið úrræði gæti það orðið atvinnulífinu til góðs ef ákvæði frumvarpsins öðlast varanlegt gildi.

Gildi einnig um einyrkja

Björg Ásta segir brýnt að ákvæði frumvarpsins gildi einnig um einyrkja enda myndi þeir stóran hluta af atvinnulífinu og séu t.d. um 500 einyrkjar innan raða SI. „Einyrkjar eru ekki síður viðkvæmir fyrir áföllum eins og veirufaraldrinum og eiga sjaldnast í djúpa sjóði að sækja.“ . Björg minnir á að samhliða frumvarpi um fjárhagslega endurskipulagningu atvinnufyrirtækja hafi ríkisstjórnin lagt fram frumvarp sem á að sporna gegn misnotkun á hlutafélagaforminu og kennitöluflakki. „Það frumvarp kveður á um að heimilt sé að setja einstaklinga í tímabundið bann frá þátttöku í stjórnun hlutafélaga, þ.e. atvinnurekstrarbann, og takmarkar það möguleika eigenda á að velja kennitöluflakk sem leið úr rekstrarvanda.“ 

Rekstrarvandræði þó tekjusamdráttur sé minni en 75%

Björg bendir á að til að fyrirtæki geti fengið skjól samkvæmt ákvæðum nýja frumvarpsins þurfi að hafa orðið meira en 75% tekjusamdráttur hjá þeim. „En við vitum af fyrirtækjum sem eiga í verulegum rekstrarvandræðum þótt tekjusamdrátturinn hafi orðið minni en 75%. Hér er líka ósamræmi við önnur úrræði stjórnvalda, eins og hlutabætur sem sækja má um við 35% tekjufall og stuðningslán sem má fá við 40% tekjufall,“ segir Björg og þykir vanta betri rökstuðning fyrir því að miða við 75% tekjusamdrátt enda virðist talan ekki byggð á faglegu mati á þeim rekstrarvanda sem innlend fyrirtæki glíma við í augnablikinu. 

Fyrirtæki í rekstrarvanda hafa fjóra möguleika

Í fréttinni er einnig rætt við Ingibjörgu Björnsdóttur, lögmann hjá SA, sem segir meðal annars að með þeim úrræðum sem frumvarpið skapi megi vernda bæði hagsmuni skuldara og kröfuhafa betur: „Það samræmist hagsmunum hvorra tveggja, og hagsmunum samfélagsins, að vernda þau verðmæti sem hafa myndast í rekstrinum en mikilvægt er að tryggja jafnræði kröfuhafa við frávik frá reglum gjaldþrotaskiptalaga. Nýja frumvarpið þýðir að fyrirtækjum standa til boða fjórir möguleikar vegna rekstrarvanda af völdum kórónuveirufaraldursins: þau geta farið í greiðsluskjól án frekari ráðstafana; farið í frjálsa samninga við kröfuhafa meðan á greiðsluskjóli stendur – sem er það sem flest fyrirtæki munu líklega nýta sér; þau geta gert einfaldaðan nauðasamning eða hafið hefðbundnar nauðasamningsumleitanir.“

Hagnaður vegna afskrifta skulda verði skattfrjáls

Í fréttinni kemur fram að í sameiginlegri umsögn SA, SI, SAF og Litla Íslands sé einnig lagt til að fyrirtæki geti lagt beiðni um fjárhagslega endurskipulagningu inn með rafrænum hætti, og að úrræði frumvarpsins nái líka til fyrirtækjasamstæðna. Í umsögninni sé jafnframt bent á nauðsyn skattalegrar eftirgjafar vegna skuldaafskrifta sem samið sé um á grundvelli þessa úrræðis. Ef kröfuhafar gefi eftir hluta af skuldum myndi það reiknast sem tekjur í bókhaldi fyrirtækisins sem um ræðir og auka skattbyrði þess sem því nemur. Það dragi svo úr möguleikum félagsins til þess að koma sér aftur á flot. Eðlilegast væri því, að mati samtakanna, að hagnaður vegna afskrifta skulda yrði skattfrjáls.

Morgunblaðið, 15. júní 2020.

Morgunbladid-15-06-2020