Skiptir miklu máli fyrir hagkerfið hvernig iðnaður þróast
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir meðal annars í frétt Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu að útlit sé fyrir að atvinnuleysi muni aukast á síðari hluta ársins, að atvinnuleysið sé þegar byrjað að aukast en atvinnuleysi sé hins vegar frekar lágt sem standi og ólíklegt að það muni aukast mikið. „Undanfarið hefur hægt á vextinum í þremur meginstoðum iðnaðarins. Það er hægari vöxtur í hugverkaiðnaði, orkusæknum iðnaði og í byggingariðnaði og mannvirkjagerð. Í heild starfa ríflega 50 þúsund manns í iðnaði sem er um 22% af heildarfjölda allra starfa í hagkerfinu. Iðnaðurinn vegur um fimmtung af landsframleiðslunni. Það skiptir því miklu máli fyrir hagkerfið og landsmenn alla hvernig iðnaðurinn þróast. Í því sambandi sjáum við samdrátt í iðnaðinum þótt vissulega hafi hægt á vextinum. Vaxtartölurnar eru líka orðnar mjög lágar.“
Hugverkaiðnaður eina greinin í vexti
Þá segir Ingólfur í fréttinni að orkusækinn iðnaður hafi verið í samdrætti í fyrra. „Skerðing Landsvirkjunar á raforku hefur komið illa niður á útflutningstekjum greinarinnar. Eina greinin sem hefur í raun verið vexti og von okkar í augnablikinu er hugverkaiðnaðurinn. Þar er útflutningur að aukast og reiknað með dágóðum vexti. Í ár er áætlað að útflutningstekjur greinarinnar fari yfir 300 ma.kr. sem er sögulegt met. Þarna eru mikil tækifæri og að skapast verðmæt störf.“
Myndast svigrúm fyrir Seðlabankann að lækka vexti
Ingólfur segir einnig í Morgunblaðinu það viðbúið að atvinnuleysi muni aukast. „Það hefur áhrif á heimilin en þegar sjást merki hjá þeim um fjárhagslega erfiðleika sem draga úr neyslu þeirra og fjárfestingu og þannig innlenda eftirspurn. Verðbólgan hefur hins vegar hjaðnað og viðbúið að hún muni gera það enn frekar litið fram á næsta ár. Samhliða því ætti kaupmáttur að aukast og myndast svigrúm fyrir Seðlabankann að lækka vexti. Mjög mikilvægt er að bankinn verði ekki of seinn í þeim efnum. Það er því ljós framundan og sérstaklega ef rétt staðið að hagstjórninni.“
Íslenska hagkerfið gæti tekið við sér á næsta ári
Ingólfur segir jafnframt í frétt Morgunblaðsins að hlutirnir séu að þróast til betri vegar í nágrannalöndum. „Við sjáum að Við fengum til dæmis góðar hagtölur frá Bretlandi í dag þar sem nú er kominn hagvöxtur. Það vigtar svolítið hjá okkur. Það er hagvöxtur í Bandaríkjunum og í nokkrum löndum Skandinavíu. Nýbirtar verðbólgutölur í Bandaríkjunum eru jákvæðar og hafa aukið líkur á að vaxtalækkun verði þar í september næstkomandi. Þessi teikn að utan eru jákvæð. Ég tel líklegt að íslenska hagkerfið gæti tekið við sér á næsta ári. Við erum verið aðeins úr takti við önnur hagkerfi þar sem hagvöxturinn hefur undanfarið misseri verið meiri hér. Einnig hefur verðbólgan verið meiri hér og þrálátari og vextir Seðlabankans hærri.“
Morgunblaðið / mbl.is, 12. júlí 2024.