Fréttasafn19. jan. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Skipuð í starfshóp sem skilar grænbók fyrir 1. mars

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, situr í þriggja manna starfshópi sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað og hefur það hlutverk að vinna skýrslu, svonefnda grænbók, um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum með vísan til áherslna og markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum. Aðrir í hópnum eru Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur, sem er formaður, og Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur. Erla Sigríður Gestsdóttir og Magnús Dige Baldursson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu munu starfa með starfshópnum. Skýrslu og tillögum verður skilað til ráðherra fyrir 1. mars.

Á vef Stjórnarráðsins segir að skýrslunni sé ætlað að draga fram staðreyndir um stöðu mála á grundvelli faglegra sjónarmiða og upplýsinga um lykilþætti á sviði orkumála og setja fram á aðgengilegu formi til upplýsinga fyrir stjórnvöld, hagaðila og almenning. Starfshópnum sé með vinnu sinni m.a. falið að gera grein fyrir orkuþörf, stöðu á flutningskerfi raforku og orkumarkaði á Íslandi með tilliti til loftslagsmarkmiða stjórnvalda með orkuskiptum. Þá hafi starfshópurinn það hlutverk að gera grein fyrir núverandi stöðu mála varðandi framboð og eftirspurn raforku.