Skortur á hæfu vinnuafli helsta hindrunin í íslensku starfsumhverfi
Í nýrri skýrslu Alþjóðabankans kemur fram að íslensk fyrirtæki, þar á meðal fyrirtæki í iðnaði, glíma við ýmsar hindranir í starfsumhverfinu sem geta dregið úr samkeppnishæfni, framleiðni og verðmætasköpun. Könnunin, sem lögð var fyrir 361 fyrirtæki á Íslandi seinni hluta árs 2024, nær yfir fjölmarga þætti sem Samtök iðnaðarins hafa lagt áherslu á, svo sem mannauð, nýsköpun, innviði og hagkvæmt, skilvirkt og stöðugt starfsumhverfi. Könnun Alþjóðabankans er umfangsmikil og nær til fyrirtækjastjórnenda í 160 löndum.
Skortur á vinnuafli með næga menntun og þjálfun
Samkvæmt stjórnendum fyrirtækjanna er stærsta hindrunin skortur á vinnuafli með næga menntun og þjálfun. Um 19% stjórnenda íslenskra fyrirtækja í könnuninni nefna þetta sem alvarlegustu hindrunina, sem er hærra hlutfall en í öðrum þáttum í könnun Alþjóðabankans.
Ítrekað hefur komið fram í könnunum meðal íslenskra fyrirtækja að helst vanti fólk með iðnmenntun, auk þess sem mikil þörf er á sérfræðimenntuðu vinnuafli til að mæta vexti í hugverkaiðnaði. Aukin eftirspurn hefur verið eftir iðnmenntuðum á vinnumarkaði og mikill áhugi er á náminu. Hins vegar hefur skortur á fjármagni og húsnæði orðið til þess að árlega hefur 600–1.000 nemendum verið vísað frá iðnnámi, bæði á haust- og vorönn. Samtök iðnaðarins hafa ítrekað bent á þetta á undanförnum árum.
Hlutfall nýsköpunarfyrirtækja hátt
Ísland sker sig úr þegar kemur að nýsköpun. Samkvæmt könnuninni segja 67% stjórnenda íslenskra fyrirtækja að fyrirtæki þeirra hafi innleitt nýja vöru eða þjónustu á undanförnum árum. Þetta er verulega hærra hlutfall en meðaltalið í öllum löndum könnunarinnar sem er 23%.
Eitt mikilvægasta og áhrifamesta tæki ríkisins til að styðja við nýsköpun og þar með framtíðarhagvöxt og verðmætasköpun eru skattahvatar vegna rannsókna og þróunar (R&Þ). Samkvæmt könnuninni höfðu 34% íslenskra fyrirtækja útgjöld til R&Þ, sem er mun hærra hlutfall en meðaltalið í öðrum löndum könnunarinnar (23%).
Skattahvatar hafa nú þegar sannað gildi sitt, eins og sjá má á stöðu Íslands í samanburði við önnur lönd. Hins vegar kemur fram að skortur á hæfu vinnuafli hamli því að þessir hvatar nýtist sem best. Samtök iðnaðarins hafa bent á mikilvægi þess að úr því verði bætt og að tryggja þurfi áframhaldandi tilvist hvata af þessu tagi.
Samgöngur mikilvægar en vanræktar
Samkvæmt könnun Alþjóðabankans telja hlutfallslega fleiri stjórnendur íslenskra fyrirtækja en annars staðar að samgöngur séu helsta hindrunin í rekstrarumhverfinu. Um 6% telja þær alvarlegustu hindrunina hér á landi, en meðaltalið í öðrum löndum könnunarinnar er 4%. Hlutfall þeirra sem telja samgöngur vera meiriháttar hindrun er 14% á Íslandi.
Þótt þessi hlutföll kunni að virðast lág í samanburði við aðra þætti, ber að hafa í huga að samgöngur hafa sérstöðu á Íslandi vegna legu landsins og dreifðar byggðar. Nýleg skýrsla Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga sýnir að vegasamgöngur á Íslandi eru í sérstaklega slæmu ásigkomulagi. Sá hluti innviðakerfisins fær lægstu ástandseinkunnina og innviðaskuldin þar er mjög há.
Tafir á leyfisveitingum draga úr fjárfestingum
Fyrirtæki á Íslandi standa einnig frammi fyrir verulegum töfum á afgreiðslu opinberra leyfa. Að meðaltali tekur 109 daga að fá byggingarleyfi hér á landi, samanborið við 92 daga í Evrópu og Mið-Asíu. Ríflega 7% stjórnendanna hér á landi segja skort á landi stærstu viðskiptahindrunina og er það mun hærra hlutfall en að jafnaði í þeim löndum sem könnunin nær til en þar er hlutfallið ríflega 3%. Samtök iðnaðarins hafa lengi bent á að skortur á lóðum hafi verið verulega takmarkandi þáttur í uppbyggingu íbúða. Þá tekur það 43 daga að fá rekstrarleyfi á Íslandi á móti 40 dögum í samanburðarlöndunum. Ljóst er að þetta langa leyfisveitingaferli dregur úr vilja til fjárfestinga og uppbyggingar.
Pólitískur óstöðugleiki veldur áhyggjum
Ríflega 11% stjórnenda íslenskra fyrirtækja telja pólitískan óstöðugleika stærstu viðskiptahindrunina hér á landi. Þetta er hærra hlutfall en að jafnaði í öðrum löndum könnunarinnar þar sem hlutfallið er um 8%.
Stöðugleiki er afar mikilvægur fyrir starfsemi iðnfyrirtækja og Samtök iðnaðarins hafa lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að tryggja stöðugt starfsumhverfi. Í nýlegri könnun meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins töldu 93% að slíkur stöðugleiki skipti miklu máli fyrir rekstur þeirra.
Orkudreifing almennt traust – en töf á tengingum veldur áhyggjum
Rafmagnstruflanir eru sjaldgæfar hérlendis samkvæmt könnuninni, aðeins 0,1 tilvik að meðaltali í mánuði, samanborið við 0,2 að meðaltali í löndum könnunarinnar. Hins vegar getur það tekið allt að 49 daga að tengjast rafkerfinu hér á landi. Slíkar tafir geta seinkað gangsetningu nýrrar starfsemi eða búnaðar og haft í för með sér kostnað.
Hér er hægt að nálgast niðurstöður könnunarinnar.