Fréttasafn4. nóv. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Skortur á mannauði helsta hindrunin í nýsköpun

„Ein af helstu forsendum þess að hagkerfið verði drifið áfram af nýsköpun og hugverkaiðnaður haldi áfram að vaxa er að hingað komi mörg hundruð erlendir sérfræðingar til að hjálpa okkur við uppbygginguna,“ segir Sigríður Mogensen, sviðstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í Viðskiptablaðinu þar sem fjallað er um fjármögnun í nýsköpunarumhverfinu. Hún er þeirrar skoðunar að fjármögnun sé ekki lengur helsta fyrirstaða íslenskrar nýsköpunar og telur stofnun Kríu senda sterk skilaboð um að stjórnvöld taki nýsköpun alvarlega en hindrunin í dag sé fyrst og fremst skortur á mannauði til vaxtar. 

Liðka þarf fyrir komu erlendra sérfræðinga með einföldun ferla

Sigríður segir í Viðskiptablaðinu að til lengri tíma þurfi að fjölga þeim sem útskrifast úr svokölluðum STEM-greinum, en til skemmri tíma þurfi að stórliðka fyrir komu erlendra sérfræðinga, með einföldun ferla og jákvæðum hvötum. „Við erum það fámenn að við munum aldrei verða með sérfræðinga á öllum sérhæfðum sviðum, en fyrir hvern erlendan sérfræðing á borð við reynslumikinn tölvuleikjaforritara verða til fjölmörg afleidd störf. Ef við grípum ekki til aðgerða í þessum málum mun hugverkaiðnaður lenda harkalega á vegg hvað varðar vöxt.“ 

Hvatar vegna rannsókna og þróunar verði festir í sessi til frambúðar

Þá kemur fram í umfjöllun Viðskiptablaðsins að Samtök iðnaðarins hafi lagt áherslu á skattaívilnanir sem mikilvæga aðkomu ríkisins sem hvata til nýsköpunar og til að laða að erlenda fjárfesta. Meðal annars leggja samtökin áherslu á að hækkun á þaki og hlutfalli á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar sem var komið á vorið 2020, verði fest í sessi til frambúðar. Þá leggja þau einnig til að stjórnvöld auki skattaívilnanir til einstaklinga vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum í vexti og leggi lægri skattprósentu á tekjur fyrirtækja sem koma til vegna skráðra hugverka, að erlendri fyrirmynd. „Undanfarin ár hefur samkeppnishæfni Íslands hvað þessa þætti varðar aukist mikið þótt enn megi margt bæta. Með því að auka hvata vegna rannsókna og þróunar eru stjórnvöld að veðja á nýsköpun og það virkar mjög vel. Þetta skiptir sprotafyrirtæki höfuðmáli og ef ég væri að stýra erlendum vísisjóði og horfa til Íslands væri þetta eitt þeirra atriða sem ég liti hvað helst til.“ Hún segir að með skattaívilnunum sé ríkið sjálft að fjárfesta í sterkara atvinnulífi, vexti útflutnings og stærri skattstofni til framtíðar. „Þetta er í raun fjárfesting í hagvexti framtíðar og mikilvægt tæki sem þjóðríki búa yfir. Þessi aðgerð er mun áhrifameiri en flestir gera sér grein fyrir.“

Viðskiptablaðið, 4. nóvember 2021.

Vidskiptabladid-04-11-2021