Fréttasafn



20. feb. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi Vetnis- og rafeldsneytissamtökin

Skortur á raforku og grænum hvötum

Vetnis- og rafeldsneytisverkefni eru á fleygiferð í löndunum í kringum okkur. Vetnis- og rafeldsneytissamtökin, VOR, eru hópur 8 fjölbreyttra fyrirtækja að þróa mismunandi lausnir fyrir ólíka notendahópa sem hafi ekki valkost um beina rafvæðingu í orkuskiptavegferð sinni. VOR var stofnað fyrir tveimur árum, innan vébanda Samtaka iðnaðarins, en samanlögð reynsla stjórnenda fyrirtækjanna spannar áratugi. Skortur á raforku og grænum hvötum stendur þessum nýja, sjálfbæra iðnaði hins vegar fyrir þrifum hér á landi. Þetta segja Auður Nanna Baldvinsdóttir, formaður Vetnis- og rafeldsneytissamtakanna og forstjóri Iðunn H2, og Ómar Freyr Sigurbjörnsson, markaðsstjóri Carbon Recycling International, meðal annars í grein sem birt er á Vísi undir yfirskriftinni VOR í lofti - orkuskipti og rafeldsneyti

Í greininni segja þau að staðan sé þó að breytast hratt og ef raforka fáist ekki í innlenda framleiðslu á rafeldsneyti, verði rafeldsneytisverkefni ekki að veruleika, og þá verðum við áfram háð innflutningi á eldsneyti þótt olíunni verði skipt út. Þau segja að rafeldsneytisframleiðendur geti verið sveigjanlegur orkunotandi og stutt vel við bætta nýtingu í núverandi raforkukerfi sem og aukna raforkuframleiðslu úr sveiflukenndum orkugjöfum eins og vindorku.

Þau segja að með áframhaldandi aðgerðarleysi muni það verða Íslandi dýrkeypt. Á fjárlögum þessa árs séu 800 milljónir áætlaðar til kaupa á losunarheimildum vegna skuldbindinga Íslands í Kyoto bókuninni. Skuldbindinga sem ekki hafi tekist að uppfylla. Ef ný og bindandi markmið um minni losun á beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda náist ekki geti það leitt til milljarða kostnaðar vegna kaupa á losunarheimildum innan fárra ára. Hvort og þá hversu mikið ræðst af því hvernig til takist í orkuskiptunum og hver staða á mörkuðum með losunarheimildir verði í framtíðinni. „Ef við drögum lærdóm af orkuskiptum 20. aldar þá skila slíkar fjárfestingar sér margfalt í bættu umhverfi, efnahag og orkuöryggi. Tæknin til framleiðslu og notkun á rafeldsneyti er til staðar og engin ástæða til að draga það lengur og hefjast handa við orkuskiptin úr olíu í græna orku á öllum sviðum.“

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni. 

Vísir, 20. febrúar 2023.