11. jún. 2025 Almennar fréttir Nýsköpun Starfsumhverfi

Skortur á stefnu í innkaupum ríkisins á upplýsingatækni

Mikil og hröð þróun hefur átt sér stað undanfarin ár í upplýsingatækni og bjóða íslensk fyrirtæki upp á sérfræðiþekkingu og lausnir sem eru framúrskarandi á alþjóðavísu. Mikilvægt er að ríkið skapi starfsumhverfi þar sem nýsköpun fær að vaxa og dafna. Traust samvinna milli ríkisaðila og einkageirans er lykill að því að opinber þjónusta þróist með þarfir samfélagsins að leiðarljósi. Þetta segir Lilja Björk Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur SI, í grein á Vísi sem ber yfirskriftina Umbætur í innkaupum hins opinbera á upplýsingatækni. Hún segir að innkaup ríkisins á upplýsingatækni hafi undanfarin ár of oft einkennst af skorti á stefnu, ósamræmi í framkvæmd og skammtímaútfærslum.

Niðurstöður Ríkisendurskoðunar ríma við upplifun félagsmanna SI

Lilja segir að nýlega hafi Ríkisendurskoðun gert stjórnsýsluúttekt á innkaupum ríkisaðila á upplýsingatækni og fagni Samtök iðnaðarins framtakinu en úttektin dragi fram mikilvægar áskoranir í opinberum innkaupum á þessu sviði. Hún segir að helstu niðurstöður skýrslunnar bendi til þess að skortur sé á samræmdri stefnu og yfirsýn yfir upplýsingatæknimál ríkisins, fjárfestingar í upplýsingatækni séu oft dreifðar og án nægilegs samráðs milli stofnana og þá séu tækifæri til hagræðingar og samnýtingar ekki fullnýtt. Niðurstöður Ríkisendurskoðunar rími við upplifun félagsmanna Samtaka iðnaðarins á framkvæmd á innkaupum í upplýsingatækni hjá hinu opinbera. Lilja segir að um þessar mundir liggi frumvarp fyrir Alþingi um skipan upplýsingatækni í rekstri ríkisins þar sem markmiðið sé að tryggja samræmda, hagkvæma, örugga og vandaða skipan upplýsingatækni ríkisins ásamt því að auka skilvirkni og gagnsæi opinberrar þjónustu. Hún segir frumvarpið vera afar jákvætt skref í aukinni samræmingu í málaflokknum en gefi jafnframt tilefni til að rýna í helstu áskoranir við innkaup ríkisaðila á upplýsingatækni undanfarin ár.

Ríkið nýti enn betur markaðskannanir 

Þá bendir Lilja á mikilvægi markaðskannana. Hún segir að góð og hagkvæm innkaup byggi á yfirsýn og þekkingu um hvað markaðurinn bjóði upp á hverju sinni. Innkaup ríkisins séu þar engin undantekning en gera megi betur í þeim efnum með þarfagreiningu til að sporna gegn því að þurfa að auglýsa útboð með skömmum fyrirvara af illri nauðsyn. Við undirbúning útboða gefist innkaupaaðilum kostur á að auglýsa markaðskönnun og fá þannig endurgjöf frá fyrirtækjum um tillögur að nýjum útfærslum og lausnum. Lilja segir að hér liggi tækifæri hjá ríkisaðilum til þess að nýta enn betur þessi verkfæri. Þannig megi tryggja fullnægjandi undirbúning sem leiði til vandaðra útboðsskilmála sem taki jafnframt mið af nútímalausnum. Þá auki markaðskannanir jafnframt gagnsæi fyrirtækja um þarfir opinberra aðila og styðji við nýsköpun og þróun lausna. Mörg útboð ríkisaðila skorti skýrar og raunhæfar kröfur um öryggi, tengingar við önnur kerfi, gagnagæði og gagnaflutning. Kröfulýsingar séu oft ófullnægjandi og byggðar á ómarkvissum undirbúningi. Bættur undirbúningur og aukin notkun markaðskannana geti stuðlað að því að ríkið viti betur hvað markaðurinn hafi upp á að bjóða áður en farið sé af stað með dýrar og óljósar kröfur.

Megináhersla á að ráða forritara fremur en að kaupa lausn

Í grein Lilju kemur fram að með innleiðingu Stafræns Íslands hafi jákvæðar breytingar átt sér stað er varði stafvæðingu í þjónustu hins opinbera. Í því samhengi sé mikilvægt að ríkisaðilar hafi í huga að miðlæg eining, svo sem Stafrænt Ísland, þurfi að vera skilgreind sem stoð og samhæfingaraðili en ekki framkvæmdaraðili. Lilja segir að ríkisaðilar bjóði of oft út þróun á sérsniðnum lausnum þar sem megináherslan sé á að ráða forritara fremur en að kaupa lausn sem uppfyllir einhverja tiltekna þörf. Hættan sé sú að slík framkvæmd, þ.e. að kaupa tímavinnu í stað hugvits, leiði til þess að ríkið beri í auknum mæli ábyrgð á þróun, viðhaldi og áframhaldandi uppfærslum lausna sem betur færi á að útvista til fyrirtækja á markaði.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vísir, 11. júní 2025.

 


Fáum við leyfi þitt til að nota Google Analytics til að safna nafnlausum upplýsingum um notkun þína á þessum vef?

Sjáðu nánar á persónuverndarsíðu okkar hvaða áhrif svar þitt hefur.