Fréttasafn8. jún. 2022 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Skortur á vinnuafli gæti hamlað hagvexti næstu ára

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, í ViðskiptaMogganum þar sem Baldur Arnarson, blaðamaður, skrifar um íbúaþróun og hagvöxtinn framundan. Ingólfur telur aðspurður raunhæft að ætla að fleiri muni flytja hingað á árunum 2022 til 2024 að meðaltali en fyrri ár. Skýringarnar séu meðal annars fyrirséður skortur á vinnuafli í fjölmennum atvinnugreinum. Þá ekki síst byggingariðnaði, ferðaþjónustu og hugverkaiðnaði. 

Skortur á íbúðarhúsnæði er hamlandi

Í fréttinni kemur fram að það flæki samanburð við fyrri ár að stríðið í Úkraínu komi í kjölfar kórónukreppunnar og því kunni nokkrir þættir að hamla hagvexti. Það hafi áður gerst í hagsögunni að skortur á vinnuafli hafi hamlað hagvexti á Íslandi en nú bætist við tafir á aðfangakeðjunni ásamt háu og hækkandi hrávöruverði í kjölfar farsóttarinnar og innrásar Rússa í Úkraínu í febrúarmánuði. „Einnig er skortur á íbúðarhúsnæði hamlandi um þessar mundir og mikilvægt að greiða úr því en húsnæði er frumforsenda þess að af innflutningi vinnuafls geti orðið. Ef við byggjum ekki í takt við þörf mun það vera hamlandi fyrir hagvöxt litið til næstu ára. Það sem er sérstakt núna er að það er góður gangur í öllum greinum útflutnings. Oft knýr aðeins ein grein hagvöxtinn en nú eru allar fjórar meginstoðirnar í vexti.“ Þar vísar Ingólfur til orkusækins iðnaðar, hugverkaiðnaðar, ferðaþjónustu og sjávarútvegs. 

Þurfum að leita út fyrir landsteinana að vinnuafli

Þá segir Ingólfur í ViðskiptaMogganum að við þetta bætist að innlend eftirspurn sé að taka við sér eftir kórónuveirufaraldurinn og allt leggist þetta á eitt um að auka hagvöxt sem sé óvanalegt. „Sögulega séð hefur verið mjög lítið atvinnuleysi á Íslandi. Í síðustu uppsveiflu þurftum við að flytja inn mikið af vinnuaflsþörf hagvaxtarins. Þetta er öðruvísi en hér á árum áður þegar við mættum vinnuaflsþörf hagvaxtarins með fjölgun Íslendinga á vinnualdri og aukinni atvinnuþátttöku innlends vinnuafls. Síðustu áratugi höfum við sem þjóð færst nær því að fullnýta innlent vinnuafl. Það er síðan að hægja á fjölgun á innlenda vinnuaflinu en fæðingartíðni hefur lækkað verulega frá því sem var. Aldurssamsetning þjóðarinnar er líka að breytast og stórir árgangar að detta út af vinnumarkaði sökum aldurs. Þetta samanlagt gerir það að verkum að nú þurfum við að leita meira út fyrir landsteinana að vinnuafli.“ 

Án aðgengis að erlendu vinnuafli verður ekki vöxtur

Jafnframt kemur fram í máli Ingólfs í ViðskiptaMogganum að þetta sé breytt staða og hafi aldrei verið mikilvægara en nú að aðgengi innlendra fyrirtækja að erlendu vinnuafli sé gott. „Án slíks aðgengis mun ekki verða sá vöxtur sem er t.d. áætlaður í hugverkaiðnaði en ef vaxtaáætlanir eiga að ná fram að ganga í þeirri grein þarf að fjölga sérfræðingum um allt að níu þúsund á næstu fimm árum.“ Þá kemur fram að fyrir vikið verði samsetning aðflutts vinnuafls mögulega önnur en í uppsveiflunum 2004 til 2007 og 2012 til 2017, að hlutfall menntafólks verði hærra en áður. Auk þess segir að næstu áratugi muni vöxtur í vinnuaflinu vegna fjölgunar Íslendinga verða neikvæður og því muni þurfa að flytja inn erlent vinnuafl.

ViðskiptaMogginn, 8. júní 2022.

 

VidskiptaMogginn-08-06-2022_2