Fréttasafn



19. okt. 2022 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Skortur á vinnuafli í mörgum greinum efnahagslífsins

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í ViðskiptaMogganum það stefna í óefni í sumum greinum vegna skorts á vinnuafli. „Atvinnuleysið er orðið hverfandi lítið og skortur er á vinnuafli í mörgum greinum efnahagslífsins. Á þetta sérstaklega við um greinar sem hafa verið að vaxa hratt undanfarið. Það er mikill skortur á sérmenntuðu vinnuafli. Fram kemur hjá stjórnendum fyrirtækja sem tóku þátt í könnun sem Outcome gerði fyrir Samtök iðnaðarins fyrir skömmu að þeir telji að framboð á sérmenntuðu vinnuafli verði takmarkandi þáttur fyrir vöxt fyrirtækisins litið til næstu 12 mánaða. Um 75% eða þrír af hverjum fjórum svara því játandi. Nei segja ríflega 8%. Það stefnir því í óefni.“

Í frétt ViðskiptaMoggans kemur fram að  samkvæmt Eurostat, hagstofu ESB, jókst launakostnaður milli annars fjórðungs 2021 og 2022 einna mest á Íslandi. Hækkuðu launin á Íslandi meira en í 20 af 27 aðildarríkjum ESB. Þá hækkuðu launin um tvöfalt meira á Íslandi en í Noregi á þessu tímabili. Þegar Ingólfur er spurður um þessa þróun segir hann að launahækkanir á Íslandi geri Ísland að fýsilegri stað fyrir erlent vinnuafl í leit að tækifærum. Í fyrra hafi launakostnaður á hverja unna stund verið með því hæsta sem gerist og um 30% hærri en að meðaltali í Evrópu. „Raungengi krónunnar á mælikvarða launa, sem sýnir þróun hlutfalls launakostnaðar á framleidda einingu hér á landi og í löndum helstu samkeppnisaðila, hefur verið að hækka undanfarið samhliða styrkingu krónunnar og hækkun innlendra launa. Samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum þeirra hefur versnað og er þung um þessar mundir. Hin hliðin á því er að samkeppnisstaða okkar um erlent vinnuafl er góð hvað þetta varðar. Hjálpar það við að ná hingað því vinnuafli sem við þurfum.“ 

Morgunblaðið, 19. október 2022.