Fréttasafn



13. des. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Menntun

Skortur iðnskóla á fjármagni og viðeigandi húsnæði

Í nýrri greiningu SI kemur fram að skortur iðnskóla á fjármagni og viðeigandi húsnæði valdi skorti á iðnmenntuðum. Meðal þess sem kemur fram í greiningunni er:

  • Á sama tíma og skortur hefur verið á iðnmenntuðum á vinnumarkaði á síðustu árum hefur um 600-1.000 nemendum verið vísað frá iðnnámi samanlagt á haust- og vorönn. Niðurstöður könnunar sem Samtök iðnaðarins (SI) létu gera meðal forsvarsmanna iðnskóla (iðn-, verk- og starfsnámsskóla) landsins sýna að meginástæðurnar fyrir synjun á námsplássi eru skortur á fjármagni og viðeigandi húsnæði. Í því ljósi fagna Samtök iðnaðarins því að mennta- og barnamálaráðuneytið sé nú með í undirbúningi stækkun helstu iðnskóla landsins.
  • Húsnæði iðnskóla landsins er fullnýtt samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Í heild gætu iðnskólar sem svara könnuninni tekið við 4.876 iðnnemum í núverandi húsnæði. Heildarfjöldi í iðnnámi hjá þessum skólum er nú 4.653 og er nýtingahlutfallið því ríflega 95%. Allir iðnskólar fyrir utan einn svara könnuninni og eru þeir þrettán skólar sem svara með um 91% af heildarfjölda nemenda í iðnnámi hér á landi.
  • Samkvæmt könnuninni er húsnæði stærstu iðnskóla landsins fullnýtt og svigrúm til aukningar þar ekkert. Einungis í minni skólum á landsbyggðinni er mögulegt að fjölga nemendum eitthvað innan núverandi húsnæðis en þar er hins vegar ekki boðið upp á nema mjög takmarkaðan hluta af námsbrautum í iðnnámi.
  • Samkvæmt könnuninni skortir iðnskóla ekki bara aukið húsnæði til þess að geta tekið við og útskrifað fleiri nemendur heldur þurfa þeir einnig aukið rekstrarfé. Áætlaður kostnaður við iðnnám þeirra skóla sem svara könnuninni er tæplega 9,5 ma.kr. á núverandi skólaári. Samkvæmt könnuninni taka flest allir iðnskólar við fleiri nemendum en sem nemur því fjármagni sem til þeirra er úthlutað í fjárlögum. Margir iðnskólar skila því halla til að mæta þeim mikla fjölda sem sækir um nám í skólunum. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar vantar skólana rétt um milljarð króna til að ná endum saman og fullnýta skólahúsnæðið. Til viðbótar vantar skólana samkvæmt könnuninni hartnær milljarð króna til að bæta tækjakost í núverandi húsnæði þannig að þeir geti boðið upp á nútímavætt iðnnám. Einnig vantar fjármagn til að fjölga kennurum.
  • Í könnun meðal forsvarsmanna iðnfyrirtækja fyrir Iðnþing SI í mars 2023 kemur fram að það er skortur á starfsfólki í 48% iðnfyrirtækja. Af þeim segja 56% að það skorti iðnmenntað starfsfólk sem er talsvert hærra hlutfall en mælist gagnvart annarri menntun. Ljóst er að skortur á vinnuafli hefur verið dragbítur á vöxt iðnaðarins síðustu ár og tækifærum til aukinnar verðmætasköpunar greinarinnar hefur verið fórnað vegna þess að framboð vinnuafls með rétta færni og menntun hefur ekki verið nægjanlegt.
Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.


Nyting-husnaedis

RÚV, 14. desember 2023.

Morgunblaðið, 13. desember 2023.

mbl.is, 13. desember 2023.

Morgunbladid-13-12-2023