Fréttasafn28. okt. 2020 Almennar fréttir Félag skrúðgarðyrkjumeistara Mannvirki

Skrúðgarðyrkjumeistarar gera athugasemdir við skýrslu VÍ

Stjórn Félags skrúðgarðyrkjumeistara mótmælir harðlega umfjöllun Viðskiptaráðs Íslands um lögverndun og leyfisskyldu í iðngreinum í skýrslu sinni Hið opinbera: meira fyrir minna útgefin í október 2020 og umfjöllun á vef ráðsins Banvænn biti í bréfi sem stjórnin hefur sent á ráðið og afrit á Samtök iðnaðarins.

Í bréfinu kemur fram að stjórn Félags skrúðgarðyrkjumeistara furði sig á því að Viðskiptaráð Íslands beini spjótum sínum sérstaklega að skrúðgarðyrkjumeisturum og skora á skýrsluhöfunda að kynna sér störf og fagsvið skrúðgarðyrkju áður en því sé haldið fram að verulegt tjón geti ekki skapast eða almannahagsmunum sé betur borgið án lögverndunar.

Þá kemur fram í bréfinu að skrúðgarðyrkja sé löggild iðngrein síðan 1967 og um hana gildi handiðnaðarlög nr.42/1978 enda hafa skrúðgarðyrkjumenn lokið sveinsprófi og öðlast meistararéttindi í sínu fagi líkt og fagmenn annarra iðngreina í byggingariðnaði. Það sé enginn vafi á því að aðkoma skrúðgarðyrkjumeistara að mannvirkjagerð sé nauðsynleg með hliðsjón af öryggi, kostnaði framkvæmda og með neytendavernd í huga. Til að stikla á stóru á þeim framkvæmdum sem skrúðgarðyrkjumeistarar koma að er nefnt í bréfinu uppbyggingu á leiksvæðum barna, gerð tjarna, trappa, rampa og stoðveggja, frágangur lóða og hellulögn, umhirða stórra trjáa, trjáfellingar, eiturefnaúðun, aðgengi að byggingum og flóttaleiðir, svo fátt eitt sé nefnt. 

Jafnframt segir í bréfinu að það blasi við að ef ekki er fagmannlega að þessum framkvæmdum staðið geti hlotist mikil slysahætta með tilheyrandi tjóni. Það varði því almannahagsmuni að fagmenn, með viðeigandi menntun og réttindi á sviði skrúðgarðyrkju, vinni þessi verk. Það sé því óskiljanlegt með öllu að Viðskiptaráð Íslands veitist að þessari mikilvægu starfsgrein eins og raun beri vitni í skýrslu ráðsins og þá sér í lagi þar sem engin haldbær rök séu lögð fram málflutningi ráðsins til stuðnings.

Hér er hægt að nálgast bréf stjórnar Félags skrúðgarðyrkjumeistara til Viðskiptaráðs Íslands.