Fréttasafn9. jan. 2018 Almennar fréttir Nýsköpun Starfsumhverfi

Skýr merki um að skattalegir hvatar efla nýsköpun

Í Morgunblaðinu í dag ræðir Helgi Vífill Júlíusson, blaðamaður, við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, um endurgreiðslur á rannsóknar- og þróunarkostnaði en meðalendurgreiðslur jukust um 52% á milli ára eftir að þakið var hækkað í 300 milljónir króna úr 100 milljónum árið 2016. Sigurður segir þetta vera skýr merki um að skattalegir hvatar virki til að efla nýsköpun. Meðalendurgreiðsla til fyrirtækja vegna kostnaðar við rannsóknir og þróun var rúmlega 19 milljónir króna í fyrra og nýttu 138 fyrirtæki endurgreiðslurnar árið 2016 og fjölgaði þeim um 10% á milli ára. Samtals jukust endurgreiðslurnar um 66% á milli ára og námu 2,7 milljörðum króna. Á árunum 2012- 2015 jukust greiðslurnar um 11% að meðaltali á milli ára. „Það að hækka þakið skipti miklu máli þar um,“ segir Sigurður. Hann bendir á að meðalfjárhæð til endurgreiðslu lækkaði á árunum 2010-2014 en hún fór að hækka þegar lögunum var breytt árið 2015.

Ákall um afnám á þaki til samræmis við aðrar þjóðir

Í fréttinni kemur fram í máli Sigurðar að við séum eftirbátar annarra þjóða þegar kemur að hve miklum fjármunum er varið í rannsóknir og þróun. „Vísinda- og tækniráð setti það markmið í fyrra að sú fjárfesting yrði 3% af vergri landsframleiðslu, sem er í takt við það sem gengur og gerist í öðrum löndum. Eins og sakir standa er hlutfallið einungis um 2% hér á landi. Í ljósi þess að skattalegir hvatar hafa sannað gildi sitt og virka til að efla nýsköpun þá ættum við að nýta þá í ríkari mæli til að ná þessum árangri og fylgja fordæmi annarra ríkja sem hafa afnumið þak af endurgreiðslunum,“ segir Sigurður og áréttar það sem atvinnnulífið hefur kallað eftir um skeið, að afnema þak á endurgreiðslurnar. 

Þingið afnemi þakið strax á vorþingi svo fyrirtæki geti skipulagt starfsemi sína

Sigurður segir í fréttinni að það sé mikill þjóðhagslegur ávinningur af nýsköpun en að skilaboð stjórnvalda séu skýr á meðan þakið er. „Þau eru að stjórnvöld vilji sjá nýsköpun í litlum fyrirtækjum en um leið og þau verði stærri eigi þau betur heima annars staðar en á Íslandi, þar sem skattalegt umhverfi er hagstæðara. Það eru kolröng skilaboð. Alls staðar í heiminum eru skattalegir hvatar fyrir þessa starfsemi. Við erum í samkeppni við önnur lönd um að laða að fyrirtæki. Ef við viljum að slík starfsemi byggist upp hér á landi hljóta stjórnvöld að senda þau skilaboð að við viljum líka hafa fyrirtækin þegar þau eru orðin stór.“ 

Hann segir að á vorþingi sem hefjist eftir tvær vikur verði að festa í lög hvernig þessi umgjörð verði og afnema þak á endurgreiðslur af kostnaði við rannsóknir og þróun eins og segi í stjórnarsáttmálanum. „Það verður að gera það strax svo fyrirtæki hafi tök á að skipuleggja starfsemi sína fram í tímann.“ 

Atvinnulífið leggur meira til í rannsóknir og þróun en háskólar og hið opinbera

Í fréttinni kemur fram að á árinu 2016 hafi atvinnulífið lagt til ríflega 30 milljarða króna í rannsóknir og þróun. „Atvinnulífið stendur undir 2/3 af kostnaði við rannsóknir og þróun. Margir telja að nýsköpun eigi sér fyrst og síðast stað hjá háskólum og hinu opinbera en það er ekki rétt,“ segir Sigurður.

Morgunblaðið, 9. janúar 2018.