Fréttasafn10. maí 2021 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Slæmt að fá verðhækkanir í núverandi ástandi

„Það er mjög slæmt að fá þessar hækkanir í núverandi ástandi þegar atvinnuleysi er mikið og töluverður framleiðsluslaki í hagkerfinu. Hvað þá ef þær leiða til vaxtahækkana. Lágvaxtaumhverfið er ein af grunnforsendunum fyrir kröftugum efnahagsbata,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, í Fréttablaðinu. Í fréttinni er vitnað til nýrrar greiningar SI þar sem segir að verðhækkanir flutningskostnaðar og hrávara gætu leitt til aukinnar verðbólgu, hægari kaupmáttaraukningar og hærri stýrivaxta og þannig sé hætt við að efnahagslegir erfiðleikar sem fyrirtæki og heimili glíma við í dag muni aukast.

Gætu orðið enn meiri áhrif hér á landi

„Það má reikna með því að áhrifin verði engu minni á Íslandi og færa mætti rök fyrir því að þau gætu orðið enn meiri,“ segir Ingólfur í fréttinni. Ástæðan sé sú að hugsanlegt sé að hér hafi þetta meiri áhrif á verðbólguvæntingar þar sem kjölfesta þeirra í verðbólgumarkmiði Seðlabankans sé ekki um þessar mundir jafn sterk og Bandaríkjunum, Bretlandi og evrusvæðunum. Verðbólgan mælist nú 4,6% hér á landi og hefur hún aukist nokkuð undanfarið, ekki síst vegna mikillar verðhækkunar á innfluttum vörum. Skýra verðhækkanir innfluttrar vöru þannig 2,0 prósentustig af núverandi verðbólgu en til samanburðar skýrir húsnæðisliðurinn 0,9 prósentustig. Samhliða aukinni verðbólgu hafa verðbólguvæntingar hækkað og mælast nú yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. „Best væri ef Seðlabankinn gæti komist hjá því að bregðast við þessari þróun með hækkun vaxta og það væri möguleiki ef verðbólguvæntingar væru við verðbólgumarkmið bankans. Aftur á móti hefur trúverðugleiki verðbólgumarkmiðsins beðið hnekki að undanförnu vegna þess að verðbólgan er komin það langt yfir markmiðið. Þá lítur málið öðruvísi við Seðlabankanum. Hann gæti fundið sig knúinn til að hækka vexti til að viðhalda trúverðugleika verðbólgumarkmiðsins jafnvel þó að verðhækkanir á hrávörum og f lutningskostnaði séu utan hans áhrifasviðs. Vaxtahækkun er hins vegar ekki það sem við þurfum fyrir efnahagsbatann.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is , 8. maí 2021.

Frettabladid-08-05-2021