Fréttasafn



3. jún. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Slæmt að stýrivaxtalækkun skili ekki þeim árangri sem að er stefnt

 „Það er í sjálfu sér slæmt ef það verða tafir í miðlunarferlinu, sem gera að verkum að stýrivaxtalækkunin skilar ekki þeim árangri sem að er stefnt. Við erum í raun bara með tvö hagstjórnartæki til að mæta því efnahagsáfalli sem hagkerfið er nú að verða fyrir; ríkisfjármálin og peningamálin. Ríkisfjármálunum hefur verið beitt tiltölulega mikið undanfarið, og það hefur verið svigrúm í peningamálum, enda hafa stýrivextir verið hér hærri en gengur og gerist erlendis,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI í samtali við Þórodd Bjarnason, blaðamann, í ViðskiptaMogganum í dag þar sem fjallað er um þá gagnrýni sem hefur verið á viðskiptabankana þrjá að fylgja ekki nógu vel eftir vaxtalækkunarferli Seðlabanka Íslands, en bankinn lækkaði vexti um 0,75 prósentur 20. maí. 

Tilgangur stýrivaxtalækkunar að ýta undir innlenda eftirspurn

Ingólfur segir í samtali við ViðskiptaMoggann hinn eiginlega tilgang með stýrivaxtalækkun Seðlabankans nú sé að ýta undir innlenda eftirspurn og draga úr dýpt niðursveiflunnar sem hagkerfið er í nú um stundir. Þannig skapist um leið viðspyrna fyrir hagkerfið, fjárfesting örvist, sem og neysla og innlend eftirspurn. Störf skapist og atvinnuleysi minnki. Þá bendir Ingólfur á að verðbólga og verðbólguvæntingar við verðbólgumarkmið Seðlabankans skapi svigrúm til þess að beita því stýritæki sem stýrivextir bankans eru til að draga úr niðursveiflunni. 

Fyrirtæki í öllum greinum iðnaðar hafa orðið illa fyrir barðinu á veirunni

Ingólfur segir að vaxtalækkanir Seðlabankans hafi ekki skilað sér út í hagkerfið nema að hluta. „Þetta hefur verið að skila sér í útlánum til heimilanna, þar sem langtímavextir íbúðalána hafa verið að lækka. En þetta hefur ekki skilað sér sem skyldi í lægri vaxtakjörum til fyrirtækja. Þar höfum við hjá SI áhyggjur af ákveðinni tregðu, sem er ekki góð, því fyrirtækin eru á sama tíma mörg að taka á sig stórt högg í samdrætti eftirspurnar, og eru að endurskoða fjárfestingaráform sín.“ Spurður að því hvernig hljóðið sé í forsvarsmönnum aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins, sem tilheyra byggingariðnaði, framleiðsluiðnaði og hugverkaiðnaði, segir Ingólfur að fyrirtæki í öllum greinum iðnaðarins hafi orðið illa fyrir barðinu á veirunni. Byggingariðnaðurinn finni mikið fyrir áhrifunum en þar sé samdráttur í fjárfestingu einkaaðila, bæði í íbúðafjárfestingu á fyrstu stigum og í atvinnuvegafjárfestingu. „Framleiðsluiðnaðurinn er mjög mikið að framleiða fyrir innlendan markað, og þar er samdráttur í neyslu og fjárfestingu. Í útflutningi er einnig samdráttur í eftirspurn. Raungengislækkun vegna gengislækkunar krónunnar hjálpar til og bætir samkeppnisstöðu en vegur ekki upp á móti samdrættinum. Hvað hugverkaiðnaðinn varðar þá þjónustar hann mikið innlendan markað, og þar eru menn einnig að upplifa samdrátt í tekjum.“ Í fréttinni kemur fram að samkvæmt talningu samtakanna frá í febrúar sé 42% samdráttur á fyrstu byggingarstigum íbúðabygginga, sem sé mjög mikið áhyggjuefni upp á framtíðina að gera. „Þessi prósentutala yrði örugglega hærri ef við myndum telja í dag.“ 

Bankarnir ýkja niðursveifluna með hækkun áhættuálags útlána

Þegar Ingólfur er spurður hvort hann taki góðar og gildar skýringar bankanna á minni vaxtalækkunum hjá sér en hjá Seðlabankanum segir hann þær að hluta réttar, en að hluta til ekki. „Þeir hafa skýrt þetta meðal annars með breyttu efnahagsástandi sem kalli á endurmat á áhættuálagi en það hefur hækkað verulega á útlánum til fyrirtækja, sérstaklega undanfarið. Svo hafa háir skattar á fjármálafyrirtæki verið nefndir sem ástæða, og fjölbreyttari fjármögnum, meðal annars á markaði.“ 

Þá segir hann að þegar bankar hækki áhættuálag útlána og dragi úr útlánum við þessar aðstæður sé það til þess fallið að auka á erfiðleika hagkerfisins. „Það sem bankar geta gert með þessu er að ýkja niðursveifluna. Þegar efnahagshorfur versna skella bankarnir í lás og hækka sitt áhættuálag og þannig geta þeir í raun skapað meiri niðursveiflu en ella. Það sama gera þeir þegar er uppsveifla, er þeir lækka aftur áhættuálagið og auka útlánin. Það er umhugsunarefni nú þegar menn eru að reyna að vinna saman að því að draga úr niðursveiflunni að bankarnir sjái sig ekki nógu mikið sem hluta af því. Þetta er sameiginlegt átak, og þeir eru svo stór hluti í þessu miðlunarferli vaxtanna og virkni þess mikilvæga hatjórnartækis.“ 

Morgunblaðið, 3. júní 2020.

Morgunbladid-03-06-2020