Slæmt ástand vega landsins getur dregið úr hagvexti
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem varar við því að slæmt ástand vega landsins kunni að draga úr hagvexti á næstu árum. „Hagstofan spáir um 17% hagvexti til ársins 2023. Það er ljóst að erfitt verður að knýja hagvöxt á innviðum í lélegu ásigkomulagi, þ.m.t. þjóðvegakerfinu.“ Hann segir að gerðar hafi verið rannsóknir á tengslum hagvaxtar og fjárfestinga í vegakerfi og niðurstöður þeirra eru að fjárfesting í vegainnviðum auki hagvöxt marktækt.
Fjárfesting í þjóðvegum sögulega lítil síðustu ár
Baldur Arnarson, blaðamaður, skrifar að samkvæmt greiningu Samtaka iðnaðarins á stöðu vegamála þegar horft er til fjárfestinga í þjóðvegakerfinu aftur til 1964 sem hlutfall af landsframleiðslu þá komi í ljós að fjárfestingin árin 2010-2016 sé undir meðaltalinu þessa rúmu hálfu öld. Var fjárfestingin árin 2011 til 2016 raunar minni sem hlutfall af landsframleiðslu en nokkurt annað ár frá 1964.
Það sama megi segja um viðhald þjónustu í þjóðvegakerfinu sem hlutfall af landsframleiðslu á sama tímabili. Viðhaldsfé áranna 2010-2016 er undir meðaltalinu á tímabilinu frá 1964. Það er hins vegar hlutfallslega meira en fjárfestingin sömu ár. Samdrátturinn var ekki jafn mikill.
Þá kemur fram í umfjölluninni að samtökin hafi jafnframt skoðað framlög ríkisins til fjárfestingar, viðhalds og þjónustu í þjóðvegakerfinu árin 2000-2016 á hverja milljón ekinna km þar sem tölur eru á verðlagi 2017. Reyndust framlögin um 9 milljónir króna á hverja milljón km árið 2016 eða 9 krónur á hvern kílómeter. Hefur sú upphæð verið um 9 milljónir frá 2011. Til samanburðar er meðaltalið frá árinu 2000 um 12 milljónir eða 12 krónur á kílómeter.
Sigurður segir framlög til vegasamgangna ekki hafa fylgt auknu umferðarmagni frá árinu 2008. Fólksfjölgun, fjölgun ferðamanna, fjölgun bíla og aukin efnahagsumsvif hafi lagst á eitt um að skapa mikla uppsafnaða viðhalds- og fjárfestingarþörf. Það auki vandann að nýfjárfestingar séu í lágmarki. Hann bendir á skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga um innviði. Þar komi fram að árleg þörf til endurnýjunar bundinna slitlaga sé um 3 milljarðar á ári. Uppsöfnuð þörf sé um 11 milljarðar. Þetta geri 26 milljarða næstu 5 ár.
Morgunblaðið, 31. janúar 2018.