Fréttasafn



16. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun Starfsumhverfi

Sóknarfærin liggja í virkjun hugvits í auknari mæli

Leiðin fram á við er skýr í okkar huga. Á sama tíma og hlúa þarf að því sem fyrir er þá á að virkja hugvitið í auknum mæli til verðmætasköpunar. Þannig er hægt að skapa aukin verðmæti til þess að standa undir þeim lífsgæðum sem landsmenn hafa vanist og óska eftir. Þetta er hægt en þá þurfum við öll að leggjast á eitt og ganga í takt. Það tókst okkur vel í vor þegar við börðumst við veiruna og þetta getum við sé vilji fyrir hendi og skýr leiðsögn. Þetta segir Árni Sigurjónsson, formaður SI, meðal annars í viðtali Baldurs Arnarsonar, blaðamanns, í ViðskiptaMogganum. 

Árni segir stjórnvöld varði veginn og skapi almenn skilyrði svo fyrirtæki og frumkvöðlar geti einbeitt sér að nýjungum og fjármagnið þurfi að fylgja með til vaxtar.  „Sóknarfærin liggja mjög víða og lykilatriðið er að við þurfum að hreyfa okkur hraðar. Taka djarfar ákvarðanir og vera óhrædd við að hugsa stórt, bæði til skemmri og lengri tíma. Það á bæði við um einkageirann og stjórnvöld. Þriðji áratugur þessarar aldar getur svo sannarlega orðið áratugur nýsköpunar, nýrra tækifæra og stórra sigra í íslensku atvinnulífi. En árangur næst ekki af sjálfu sér og þetta verður mikil en gefandi vinna. Það er undir okkur sjálfum komið að láta þetta verða að veruleika. Stjórnvöld eiga hrós skilið fyrir stór stökk í umgjörð nýsköpunar undanfarin misseri en meira þarf til. Hugsa þarf málin á heildstæðan hátt og við þurfum að vera miklu virkari í því að sækja tækifærin. Hvers vegna nýtum við ekki tækifærið nú til að laða erlenda sérfræðinga til landsins, hvort heldur sem er til að starfa hér á landi í öruggu umhverfi eða þá til þess að búa hér en sinna áfram sínum störfum erlendis í gegnum fjarvinnu? Þannig auðgum við samfélagið, myndum verðmæt tengsl sem geta hæglega opnað íslenskum frumkvöðlum og fyrirtækjum nýjar dyr. Það eru öll skilyrði fyrir hendi til að við getum hreyft okkur hraðar en aðrir en einhverra hluta vegna gerast hlutirnir hægt.“ 

Sóknarfærin á fjölmörgum sviðum

Þegar Árni er spurður á hvaða sviðum sóknarfærin væru helst segir hann að nýsköpun sé blessunarlega að eiga sér stað á flestum ef ekki öllum sviðum íslensks atvinnulífs. „Það mætti nefna fjölmörg svið og geira sem ættu að geta orðið áberandi í tengslum við nýsköpun á komandi árum, til að mynda svokallaðar grænar lausnir, sjálfbærni og umhverfisvernd, stórar sem smáar tæknilausnir, leikjaiðnað, lyf og lækningavörur og svo mætti lengi telja. Nýsköpun tekur engu að síður tíma en vonir okkar standa til að breytingar í starfsumhverfi nýsköpunarfyrirtækja stytti leiðina að settu marki og geri fleirum kleift að láta drauminn rætast.“ 

Íslenskur iðnaður vel í stakk búinn

Blaðamaður spyr Árna hvernig íslenskur iðnaður sé í stakk búinn til að sækja fram á sviðum sem útheimti tæknimenntun og almennt menntunarkröfur framtíðarinnar? „Íslenskur iðnaður er almennt vel í stakk búinn til að takast á við þessi viðfangsefni. Iðnfyrirtæki hafa mörg hver þegar stigið þýðingarmikil skref í tæknivæðingu og aukinni sjálfvirkni. Bæði spilar þar inn í sífellt hækkandi launakostnaður en ekki síður auknar kröfur neytenda og stjórnvalda, til að mynda í framleiðslu matvæla. Þá eigum við leiðtoga á ákveðnum sviðum er kemur að þróun sjálfvirkni og gervigreindar í ýmsum geirum sem jafnframt smita út frá sér í óskylda geira. Hvað varðar menntunarkröfur framtíðarinnar þá kallar atvinnulífið stöðugt eftir aukinni tækniþekkingu og eflingu iðn-, verk- og starfsnáms þannig að færniþörf atvinnulífsins verði mætt á hverjum tíma. Það hefur verið stöðugur skortur á faglærðu starfsfólki hér á landi um alllanga hríð. Slík verkefni leysum við aðeins í gegnum menntakerfið, sem er raunar ein helsta undirstaða þess að samkeppnishæfni Íslands verði efld. Fjölgun tækni- og iðnmenntaðra á vinnumarkaði og efling menntaúrræða fyrir þá sem eru nú þegar starfandi á vinnumarkaði eru lykilmarkmið hvað þetta varðar. Takist okkur vel upp í þessum efnum þurfum við ekki að hafa miklar áhyggjur af þróun mála í framtíðinni.“

ViðskiptaMogginn, 16. september 2020.