Fréttasafn



21. des. 2016 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Solid Clouds fyrsta félagið sem fær staðfestingu á skattafrádrætti fjárfesta

Tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds er fyrsta félagið til að fá samþykki ríkisskattstjóra (RSK) fyrir rétti fjárfesta til skattafrádráttar vegna þátttöku í fyrirhugaðri hlutafjáraukningu félagsins samkvæmt nýsamþykktum lögum um tekjuskatt. Þannig hefur Solid Clouds fengið staðfestingu á að einstaklingar sem fjárfesta í hlutafjáraukningu félagsins geti átt rétt á frádrætti frá tekjum.  

Samtök iðnaðarins og Samtök sprotafyrirtækja hafa lengi barist fyrir því að auðvelda aðgengi nýsköpunarfyrirtækja að fjármagni til þróunar og markaðsstarfs. Liður í því hefur verið að stuðla að innleiðingu skattahvata fyrir fjárfesta sem fjármagna slík fyrirtæki. Á vormánuðum varð langþráð frumvarp lagt fram um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki þegar lög nr. 79/2016, um stuðning við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti voru samþykkt. Í 4. gr. þeirra laga er að finna heimild fyrir fyrirtæki til að sækja um staðfestingu til RSK, um að vera talið tækt til þess að taka við fjárfestingu frá einstaklingum, sem fá skattaafslátt af fjárfestingunni. Til þess þarf viðkomandi fyrirtæki að uppfylla nokkuð ströng skilyrði sem hafa því miður verið talsverð hindrun fyrir mörg fyrirtæki sem hefðu viljað nýta þessa heimild. Það hefur því orðið nokkur bið á því að fyrsta fyrirtækið fengi samþykki RSK samkvæmt þessum lögum.

Það er mat SI að þessi skattalegi hvati muni, þegar nauðsynlegar lagfæringar hafa verið gerðar á lögunum, auðvelda fleiri nýsköpunarfyrirtækjum vaxtarfjármögnun til þróunar og uppbyggingar og skapa um leið meiri breidd í hluthafahópnum til hliðar við fagfjárfestasjóðina sem standa nær einir að slíkri fjármögnun í dag.  Á sama tíma væri æskilegt að hér kæmist á faglegur og virkur vettvangur fyrir viðskipti með slík bréf. 

Á mbl.is er viðtal við Davíð Lúðvíksson, forstöðumann stefnumótunar og nýsköpunar SI.