Fréttasafn



9. apr. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

SSP hvetur til eflingar nýsköpunarlaganna

Nýsköpunarlögin voru mikið framfaraspor fyrir íslenskt frumkvöðlaumhverfi og tækniiðnað hér á landi. En betur má ef duga skal og eru mikil tækifæri fólgin í því að sníða vankanta af löggjöfinni og þar með efla nýsköpunarumhverfið hér á landi til muna. Samtök sprotafyrirtækja hvetja því íslensk stjórnvöld til að efla ákvæði nýsköpunarlaganna, sem sannarlega hafa skilað árangri, enn frekar svo fleiri fyrirtæki geti komið spennandi verkefnum í framkvæmd. Þetta kemur fram í grein sem Erlendur Steinn Guðnason, formaður Samtaka sprotafyrirtækja, SSP, skrifar í Fréttablaðinu í dag. Yfirskrift greinarinnar er Nýsköpunarlögin þurfa að skila meiri árangri.

Erlendur-Steinn-Gudnason

Einungis fimm fyrirtæki nýtt skattaafslátt

Í greininni kemur fram að fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja hér á landi hafi tekið miklum framförum á undanförnum árum og nú síðast árið 2016 þegar nýsköpunarlögin tóku gildi. Meðal nýjunga í lögunum var skattafrádráttur upp á 19-23% til einstaklinga sem fjárfesta í sprotafyrirtækjum en að starfsmenn, stjórnarmenn og aðilar þeim tengdir geti ekki nýtt sér skattafrádráttinn. Þá séu einnig þröng skilyrði í lögunum um stærðarmörk fyrirtækja sem geta nýtt sér ákvæði þeirra. Endurspeglast þetta í því að einungis fimm fyrirtæki hafi verið samþykkt af RSK vegna mögulegrar nýtingar á skattaafslættinum. Erlendur Steinn nefnir í því sambandi íslenska tölvuleikjaframleiðandann Solid Clouds sem framleiðir herkænskuleikinn Starborne.

Samtök sprotafyrirtækja leggja til að horft verði til annarra landa þegar kemur að endurskoðun á þessu lagaákvæði og fjármögnunarumhverfinu almennt og tiltaka að kerfið í Bretlandi fái hæstu einkunn í skýrslu sem unnin var á vegum Evrópusambandsins. Þar fái einstaklingar sem fjárfesta í sprotafyrirtækjum margvíslegar skattaívilnanir sem hafi skilað sér í mikilli aukningu á fjárfestingum í breskum fyrirtækjum. 

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni:

Fréttablaðið / Vísir, 9. apríl 2018.