Fréttasafn



27. ágú. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Staða efnahagsmála kallar á að aðilar taki ábyrgð og framkvæmi

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um vaxtaákvörðun Seðlabankans sem kynnt var í síðustu viku og viðbrögð Sigurðar við henni sem birtist í frétt mbl.is. „Það sem við erum að sjá þar er að samkvæmt greiningum Seðlabankans þá er verðbólgan þrálátari heldur en áður var talið þannig að Seðlabankinn telur að hún verði há lengur en við héldum áður. Því er spáð að það dragi ennþá hraðar úr vextinum og hærra atvinnuleysi þannig að vextir þurfi þá að vera hærri lengur heldur en áður var talið. Og þetta var býsna harður tónn sem kom frá bankanum og mun harðari heldur en kannski margir gerðu ráð fyrir. Fólk kannski gerði sér von um það að vextir mundu lækka seinna á þessu ári þó þeir mundu ekki endilega lækka núna. En miðað við tóninn í Seðlabankanum að þá er ólíklegt að vextir lækki á þessu ári og spurning hvenær þeir byrja þá að lækka á nýju ári.“

Aðilar tali saman um hvað þarf að gera til að milda niðursveifluna

Sigurður segist hafa áhyggjur af efnahag heimilanna og hvernig fyrirtækjunum reiðir af í þessari stöðu. „Seðlabankinn kemur með þennan harða tón vegna þess að hann telur ekki nóg að gert og bendir á aðila vinnumarkaðarins eða vinnumarkaðinn sjálfan, hann bendir á húsnæðismarkaðinn og byggingamarkaðinn og bendir á ríkisstjórnina. Ef þetta er staðan þá hef ég talið eðlilegt að aðilar reyndu þá að tala saman og ræða það hvað er það sem þarf að gera til þess að milda niðursveifluna þannig að það sé hægt að lækka vextina fyrr og koma í veg fyrir einhvern skell sem þá vonandi verður ekki.“

Sigurður segir að það bendi hver á annan í þessu. „Fyrir okkur sem sitjum og fylgjumst með þá er þetta mjög óþægilegt að það bendi hver á annan.“

Hið opinbera ber líka ábyrgð á stöðunni á vinnumarkaðnum

Sigurður segir í viðtalinu á Bylgjunni að varðandi grunnþætti í verðbólgunni sé annars vegar vinnumarkaðurinn og við vitum það að atvinnuleysi sé lítið og launaskrið hafi verið meira heldur en vænst hafi verið. „En vinnumarkaðurinn er ekki bara fyrirtækin. Það er líka hið opinbera. Þannig að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, bera líka ábyrgð á því hvernig staðan er á vinnumarkaðnum og hljóta að þurfa að skoða það mjög vel núna þegar tími fjárhagsáætlana fyrir næsta ár er runninn upp og allir fara að hugsa hvernig eigi að stilla hlutunum upp. Hvað varðar húsnæðismarkaðinn þá þarf að koma á meiri stöðugleika þar. Við sjáum það til dæmis að verðbólgan er rúmlega 6% en húsnæðisverð hefur hækkað um 11% núna á síðustu 12 mánuðum. Langt umfram þannig að það þarf eitthvað að gera þarna. Við höfum bent á það að það þurfi að auka uppbygginguna. Hún þarf að vera meiri.“

Flöskuhálsar hjá sveitarfélögunum

Sigurður segir í viðtalinu að sveitarfélögin hafi uppbygginguna að miklu leyti í hendi sér vegna þess að skipulagsmálin skipti svo miklu máli og framboð á lóðum. „Þar hafa verið flöskuhálsar. Varðandi skipulagsmálin er það þannig að þau taka ofsalega mikinn tíma í eðli sínu, þetta er mælt í árum og getur jafnvel verið mælt í áratugum að skipuleggja byggð eða hverfi. Þannig að það þar að sýna meiri fyrirhyggju.“ Hann segir að eitt af því sem hafi verið nefnt varðandi íbúðauppbygginguna sem rök fyrir því að það sé ekki hægt að byggja á stóru svæðum, nýjum svæðum og nefnir Keldnaholtið, Blikastaði, svæði í Úlfarsárdal og annars staðar, séu samgöngumálin. „Við höfum séð það með tímanum hvernig staðan þar versnar og umferðartíminn lengist á milli staða. Við höfum öll fullan skilning á því að það þurfi að byggja upp samgöngur á sama tíma og við erum að byggja upp ný hverfi. En það urðu tíðindi í síðustu viku þegar samgöngusáttmálinn var endurskoðaður og 300 milljarða framkvæmdir fyrirhugaðar þar á næstu 15 árum eða svo. Þannig að það hlýtur þá um leið að gefa sveitarfélögunum möguleika á því að fara í þessa uppbyggingu á nýjum hverfum. Að byrja að skipuleggja þannig að það sé hægt að fara í það samhliða framkvæmdum. Þetta verður einhvern veginn að fara hönd í hönd.“

Byggingariðnaður er þjónustugrein við aðrar greinar

Sigurður segir í viðtalinu að ekki megi gleyma því að byggingariðnaðurinn sé ekki bara einn markaður, þetta séu nokkrir ólíkir markaðir. „Ég get nefnt uppbyggingu íbúðahúsnæðis. Það eru ákveðin fyrirtæki sem sérhæfa sig í því. Það er uppbygging atvinnuhúsnæðis, hótel, skrifstofur, sérhæft iðnaðarhúsnæði og svo framvegis, og síðast en ekki síst eru það opinberar framkvæmdir, það eru innviðirnir. Við vitum það alveg að fyrirtæki sem sérhæfa sig í malbikun þau fara ekki að byggja íbúðir þó að það geti verið hagstætt um tíma. Þannig að hreyfanleikinn er ekki á milli í markaðnum endilega þannig að það að benda á byggingaiðnaðinn sem eina heild er alltof mikil einföldun til að skýra stöðuna. Það þarf líka að huga að því að byggingaiðnaðurinn er að svo miklu leyti þjónustugrein við aðrar greinar hvort sem það er hið opinbera eða fyrirtæki. Þannig að aukin umsvif þar endurspeglar í reynd vilja annarra til þess að framkvæma.“

Jákvæð tíðindi ef sveitarfélög stækka vaxtarmörkin

Sigurður segir þetta vítahring þar sem of fáar íbúðir séu byggðar sem leiði til þess að verðið hækki, þar af leiðandi aukist verðbólgan og vextirnir hækki. Hærri vextir þýði að það verði óhagkvæmara að byggja sem að sé þá hvati til þess að draga úr uppbyggingunni þvert á það sem að þurfi. „Þetta er einfölduð mynd en þetta er svona ca stóra myndin. Þannig að það þarf að koma uppbyggingunni á betri stað og leiðin til þess er hjá sveitarfélögunum í gegnum lóðamálin, í gegnum skipulagsmálin. Þar höfum við líka horft á eins og skipulag sveitarfélaganna hérna á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru ákveðin mörk þar sem heita vaxtarmörk, það má ekki byggja fyrir utan vaxtarmörkin. En núna á síðustu vikum hafa sveitarstjórnarmenn, allir sem ég hef heyrt í opinberlega, tjáð sig með þeim hætti að þau séu opin fyrir því að stækka vaxtarmörkin sem mundi þá auka uppbygginguna sem er það sem samfélagið kallar svo mikið eftir. Það eru allavega jákvæð tíðindi inn í þessa umræðu. Allt kallar þetta á samtal aðila og allt þetta kallar á aðgerðir þannig að við getum komið efnahagsmálunum á betri stað.“

Ríkisstjórnin er með boltann í fjárlögunum

Í viðtalinu segir Sigurður að það gangi hægar en hann mundi vildi sjá aðgerðir í öllum þessum málum. „Það er eins og ég sagði áðan óþægilegt þegar hver bendir á annan í stað þess að finna leiðir í sameiningu að koma okkur á betri stað í efnahagsmálum. Því við finnum þetta auðvitað bara öll hvert og eitt okkar sem búum hér hvernig staðan hefur þróast upp á síðkastið.“

Hann segir að ríkisstjórnin sé með boltann. „Við vitum það að þar er verið að undirbúa fjárlögin. Fjárlagafrumvarpið verður lagt fram eftir tvær vikur. Við munum örugglega sjá einhverjar vísbendingar þar. Sveitarfélögin og ríkið þurfa líka að tala saman varðandi lóðaframboðið, hvernig hægt er að auka uppbyggingu.“ Hann segir að þegar komi að vinnumarkaðnum þurfi ríki og sveitarfélöga að líta í eigin barm og velta fyrir sér hvort þau geti dregið sjálf úr þenslu á vinnumarkaði, að þau hugi að launaskriði hjá sér og hugi að fjölda stöðugilda og starfsmanna.

Hið opinbera alltaf að fjölga starfsmönnum öllum stundum

Sigurður segir að það þurfi ekki endilega að skera niður. „En ef við horfum á þróunina langt aftur í tímann að þá er það þannig að fyrirtækin sem heild eða einkageirinn hann vex og hann dregur saman seglin til skiptis eftir því hvernig vindar blása á meðan hið opinbera er alltaf að fjölga starfsmönnum öllum stundum. Það þarf ekki einu sinni að kalla eftir fækkun starfsmanna heldur bara það að standa í stað á milli tíma. Það eru margar leiðir í þessu en auðvitað kallar þetta á að aðilar taki ábyrgð og tali saman og hrindi hlutum í framkvæmd.“ 

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð. 

Bylgjan, 26. ágúst 2024.